Höfuðpúðar

Höfuðpúðar eru mikilvægir þegar kemur að öryggi farþega í bíl

Hálshnykkir eru algengir áverkar í umferðarslysum, einkum í aftanákeyrslum. Slíkir áverkar geta verið mjög alvarlegir og háð fólki í leik og starfi það sem eftir er. Höfuðpúðum er ætlað að draga úr þessum hnykk en til þess að gera sitt gagn þurfa þeir að vera rétt stilltir.

Hvernig skal stilla höfuðpúða?

Sé höfuðpúði rétt stilltur nemur efri brún hans við hvirfil höfuðs. Með því að leggja flatan lófa á hvirfilinn má ganga úr skugga um að púðinn sitji rétt. Púðinn þarf að liggja það þétt að hnakkanum að ekki nemi meira en lófabreidd á milli höfuðs og púðans.

Hvernig er best að koma í veg fyrir hálsáverka?

Besta leiðin til að koma í veg fyrir hálsáverka er að sýna ávallt varúð í akstri, hafa nægilegt bil á milli bíla og fylgjast vel með umferð sem kemur á eftir í baksýnisspeglinum. Ef ökumanni sýnist stefna í að ekið verði aftan á bílinn er best að þrýsta hnakkanum þétt að höfuðpúðanum.