Ísing og hálka

Ísing og hálka er sá þáttur sem hvað oftast veldur því að ökumenn bregðast rangt við aðstæðum og slys hlýst af

Mikilvægt er að kunna að bera kennsl á hálku og þekkja þær aðstæður sem helst geta skapað hálku og ísingu. Hér á þessari síðu er hægt að nálgast tvö myndbönd sem fjalla um þetta. 

Að bera kennsl á hálku

Eftirfarandi atriði geta skipt miklu þegar kemur að því að bera kennsl á hálku.

  1. Landslag

Meiri hætta er á næturfrosti á sléttlendi en í halla og meiri í dældum en uppi á hæðum. Að sama skapi lækkar hiti eftir því sem hærra er farið og því algengt að hálka skapist á fjallvegum þótt frosts gæti ekki á láglendi.

2.  Veðurfar

Meiri hætta er á frosti þegar himininn er heiðskír í rökkri og á nóttu. Yfirleitt er kaldara á nóttunni þegar loftið er þurrt en við þær aðstæður getur dögg og raki myndað ísingu á yfirborði vegarins.

3. Nálægð við vatn eða sjó

Á nokkrum vegaköflum á landinu eru aðstæður þannig að töluvert meiri líkur eru á að lúmsk hálka myndist en annars staðar. Þar sem vegur liggur nærri árbökkum eða vatnsbökkum eða nærri fjöruborði er rakinn meiri í loftinu og auknar líkur á staðbundinni ísingu. Dæmi um slíka staði eru: Kúagerði við Reykjanesbraut, Langidalurinn við Blöndu og vegurinn um Kollafjörð.

4. Skjól

Aukin hætta er á hálku þar sem staðbundið skjól er við veginn t.d. af völdum skóga, kletta eða annars staðar í landslaginu. Framan af hausti og á vorin er hætta á næturfrosti meiri í lygnu veðri en í vindi.

5. Hitamælirinn í bílnum

Varasamt er að treysta um of á hitamæli bíls því það getur verið allt annar hiti niðri við jörðu en það sem mælirinn sýnir. Það er ágæt regla að ef hitamælir í bíl sýnir minna en 4 til 5°C hita í lygnu veðri skal fylgjast vel með aðstæðum og hafa í huga að hálka getur myndast samfara úrkomu eða þegar bleyta er á vegi.

Hér er myndband þar sem fjallað er um framangreind atriði:

https://youtu.be/KH_jS9ZQG0k

Hér er svo myndband þar sem fjallað er um helstu einkenni hálku og hvað þurfi að hafa í huga svo fyllsta öryggis sé gætt:

https://youtu.be/lOBW9RDCRL0