Lyf og umferðaröryggi

Ýmis lyf geta skert hæfni fólks til að stjórna bifreið

Samkvæmt umferðarlögum nr. 77/2019, 50. grein, má ekki stjórna vélknúnu ökutæki ef ökumaðurinn er undir áhrifum ávana- og fíkniefna sem eru bönnuð. Mælist ávana- og fíkniefni eða lyf í blóði ökumanns telst hann vera undir áhrifum ávana- og fíkniefna eða lyfja og óhæfur til að stjórna ökutæki örugglega. Enginn má hjóla eða reyna að hjóla eða stjórna eða reyna að stjórna hesti ef hann er undir áhrifum ávana- og fíkniefna eða lyfja.

Dæmi um slíkt eru t.d. sum geðlyf, taugalyf og svefnlyf. Einkum er hættan mest í upphafi lyfjainntöku, en þegar byrjað er að taka róandi lyf getur hættan á umferðaróhappi þrefaldast. Því er mikilvægt að leita ætíð ráða hjá lækni varðandi það hvort öruggt sé að keyra á meðan á lyfjainntökunni stendur.  

Mikilvægt að hafa í huga

Þegar byrjað er að taka nýtt lyf er gott að huga að eftirfarandi atriðum:

 1. Spyrja lækninn eða starfsfólk lyfjaverslana hvort óhætt sé að aka eftir neyslu lyfjanna.

 2. Lesa leiðbeiningar með lyfjum, einkum hugsanlegar aukaverkanir.

 3. Forðast að aka bíl séu lyf merkt með rauðum þríhyrningi.  

 4. Fylgjast með hvaða áhrif lyfið hefur fyrstu dagana og forðast að aka bifreið á meðan.

Rauði þríhyrningurinn

Lyf sem skerða aksturshæfni manna eru oft merkt með rauðum þríhyrningi - það er þó ekki algild regla.  

Eftirfarandi lyf merkt rauðum þríhyrningi geta skert akstursfærni:

 • Róandi lyf, lyf við kvíða, tauga- og svefnlyf. 
 • Bíl og sjóveikilyf. 
 • Ofnæmis- og ógleðilyf. 
 • Ýmsar tegundir verkjalyfja og hóstamixtúrur. 
 • Ýmsar tegundir vöðvaslakandi lyfja. 
 • Lyf við flogaveiki og migreni. 
 • Örvandi lyf, t.d amfetamín. 
 • Ýmis megrunarlyf. 
 • Öll lyf sem innihalda meira en 10% alkóhól. 

Lyf án rauðs þríhyrnings sem geta einnig verið hættuleg:

 • Þunglyndislyf og önnur taugalyf.
 • Lyf við heymæði og ofnæmi.

Fræðslumynd um lyf og akstur