Viðbrögð á slysstað

Þegar komið er á slysstað ber ætíð að nema staðar og veita slösuðum mönnum og dýrum þá hjálp sem unnt er

Sjónarvottar að slysi skulu gefa sig fram við lögreglu sem vitni, greina frá nafni og heimilisfangi og skýra frá því gerðist.

Mikilvægt er að viðbrögðin séu í réttri röð

Þeir sem fyrstir koma á slysstað þurfa að vera viðbúnir því að taka stjórn mála í sínar hendur. Í því felst m.a. að ganga ákveðið til verka en þó af yfirvegun og skipuleggja það sem gera þarf. Leggja þarf höfuðáherslu á að framkvæma eftirfarandi fjögur atriði í þessari röð:

1. Tryggja öryggi á slysstað og koma í veg fyrir meiri skaða.

2. Meta umfang slyssins og veita neyðarhjálp sé þess þörf.

3. Tilkynna um slys í 112 og kalla eftir nauðsynlegri hjálp.

4. Að veita skyndihjálp

Komi ökumaður að slysi þar sem búið er að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir og aðstoðar hans er ekki þörf skal hann aka áfram án þess að nema staðar. Það hendir of oft að þeir sem leið eiga framhjá slysstað stoppi þar til þess eins að skoða hvað gerst hefur. Það truflar björgunarstörf, eykur slysahættu og spillir oft ummerkjum á slysstað.

Ítarefni

Hér að neðan er hægt að skoða ítarlegri upplýsingar um viðbrögð á slysstað.

Að tryggja öryggi á slysstað

Aðgerðir miða að því að ekki verði meiri skaði en þegar er skeður, öryggi á staðnum sé tryggt og því ekki til staðar hætta fyrir aðra vegfarendur sem leið eiga um svæðið. Koma þarf upp viðvörun vegna annarrar umferðar, t.d. með því að kveikja hættuljós og setja upp viðvörunarþríhyrning í 50 – 100 metra fjarlægð frá slysstaðnum. Séu aðstæður mjög slæmar getur þurft að setja upp þríhyrninga eða standa við vegarbrún í 100 – 200 metra fjarlægð, til að vara aðra ökumenn við og fá þá til að veita aðstoð við að tryggja öryggi á slysstað eða veita neyðarhjálp. Einnig er gott að gera sig sýnilegan á vettvangi með því að fara í endurskinsvesti. Athugið að óútsprungnir öryggispúðar geta valdið hættu fyrir skyndihjálparfólk.

Að meta umfang slyssins og veita neyðarhjálp

Mikilvægt er að gera sér fljótt grein fyrir umfangi slyssins. Hve margir eru slasaðir og hversu alvarleg eru meiðsl þeirra? Skoðun á ástandi hinna slösuðu beinist fyrst og fremst að því að athuga meðvitund, öndun og blóðrás.

Þegar meta skal ástand sjúklings er byrjað á að reyna að tala við hann. Athuga hvernig meðvitund hans er, hvort hann sé t.d. sljór, ruglaður eða syfjaður og hvernig andardráttur hans er (og blóðrás með því að taka púlsinn). Líta skal á sjúklinginn og skoða hvort sjáist ummerki um blæðingar eða áverka, athuga hvernig litarháttur húðar hans er og hvernig hún er viðkomu. Spyrja skal hvort hann finni til og þá hvar og hvort hann geti hreyft hendur og fætur. Þreifa skal eftir beinbrotum eða öðrum áverkum á líkama hans. Út frá þessari athugun er svo reynt að leggja mat á ástand sjúklingsins, hvort meiðsl hans séu þess eðlis að þau þoli bið eða hvort sinna þurfi þeim strax. Slíkt mat getur jafnframt hjálpað viðbragðsaðilum og sjúkraliða við undirbúning sinna viðbragða á vettvangi slyssins.

Að tilkynna um slys í 112

Það er skylt að tilkynna öll slys sem verða á fólki til lögreglu. Sama hve smávægileg þau virðast vera. Þegar búið er að meta umfang slyssins er hringt í 112 og kallað eftir hjálp. Tilkynna skal hvað hafi gerst, hvar slysið varð, hversu margir eru slasaðir og hvert ástand þeirra er. Einnig skal taka fram ef um einhverjar hættur sé að ræða s.s. hrunhættu, sjúklingur fastur í bílnum. Gott er að láta neyðarvörð ljúka samtalinu.

Að veita skyndihjálp

Að því loknu skal hlúð að slösuðum. Þegar skyndihjálp er veitt skal lögð áhersla á að hlúa fyrst að þeim sem eru mest slasaðir, en ekki má gleyma því að huga að hinum sem eru minna slasaðir. Stöðva þarf minni háttar blæðingar og búa um önnur meiðsl eftir föngum.

Einnig þarf að sjá til þess sjúklingi verði ekki kalt og forðast alla óþarfa hreyfingu. Oft þarf að veita andlegan stuðning með því að ræða við sjúkling í mildum og hughreystandi rómi og reyna á allan hátt að gera biðina eftir hjálp sem bærilegasta. Forðast skal að fara úr augsýn þeirra sem slasaðir eru.

Ástæða er til að hvetja alla til að fara á námskeið í skyndihjálp og viðhalda þekkingunni með reglulegri upprifjun. Hér á heimasíðu Rauða Krossins má sjá ítarlegar leiðbeingarum skyndihjálp.