Ný reglugerð um skoðun ökutækja nr. 414/2021

Þann 1. maí 2021 tók gildi reglugerð nr. 414/2021 um skoðun ökutækja. Ákveðin atriði reglugerðarinnar komu þó ekki til framkvæmda fyrr en þann 1. janúar 2022. Hér að neðan er samantekt á helstu nýmælum reglugerðarinnar, skipt eftir flokkum. Neðst á síðunni eru tenglar á reglugerðina sjálfa og Evróputilskipunina sem hún byggir á. Ábendingar og fyrirspurnir má senda á netfangið afgreidsla@samgongustofa.is.

Eftirfarandi breytingar og nýmæli eiga erindi við alla eigendur og umráðamenn ökutækja:

Ábyrgð á að færa ökutæki til skoðunar

Ef skráður er umráðamaður fyrir ökutæki ber hann ábyrgð á að færa ökutæki til skoðunar. Annars ber eigandi þá ábyrgð.

Samanber 4. grein 

Frestur á endurskoðun vegna skorts á varahlutum eða ef ekki er unnt að fá tíma á verkstæði til viðgerðar

Frá og með 1. janúar 2022 verður hægt að framlengja endurskoðunarfrest vegna skorts á varahlutum eða ef ekki er unnt að fá tíma fyrir ökutæki á verkstæði til viðgerðar til að bæta úr athugasemd eða athugasemdum sem leiddu til endurskoðunar ökutækisins.

Samanber bráðabirgðaákvæði

Ljúka þarf við skoðun sem þegar er hafin

Ekki er hægt að hætta við skoðun eftir að hún hefst. Eigandi eða umráðamaður getur ekki hætt við skoðun sem hafin er, án þess að niðurstaða skoðunarinnar sé send til Samgöngustofu. Er þetta liður í eftirliti Samgöngustofu með samræmdum skoðunarniðurstöðum. Á þetta við um skoðunarstofur og endurskoðunarverkstæði.

Samanber 12. grein j-liður

Óeðlileg breyting á stöðu akstursmælis

Ef óeðlileg breyting hefur átt sér stað á stöðu akstursmælis, t.d. ef eknum kílómetrum fjölgar ekki á milli skoðana, þá færist athugasemd þar um í ferilskrá bílsins.

Samanber 21. grein - 6. málsgrein

Vanrækslugjald

Vanrækslugjald leggst á ökutæki sem ekki eru færð til skoðunar innan tímafrests, þ.e. fyrir lok annars mánaðar frá skoðunarmánuði. Er vanrækslugjaldið 20.000 krónur fyrir öll ökutæki nema tiltekna flokka vörubifreiða, hópbifreiða og eftirvagna en er vanrækslugjald þessara ökutækja 40.000 krónur. 

Ef ökutæki er afskráð innan tveggja mánaða frá því að vanrækslugjald er lagt á fellur vanrækslugjaldið niður. Ef ökutæki er skoðað, skráningarmerki eru afhent Samgöngustofu eða skoðunarstöð eða ökutæki er skráð úr umferð innan mánaðar frá því að vanrækslugjald er lagt á fæst helmingsafsláttur af gjaldinu og er gjaldið þá greitt hjá skoðunarstöð. Að þessum mánuði liðnum myndast krafa fyrir öllu gjaldinu í heimabanka eiganda eða umráðamanns. Hafi gjaldið ekki verið greitt innan tveggja mánaða frá álagningu er því komið til innheimtu.

Samanber 45. grein

Vanrækslugjald - afhending skráningarmerkja

Ef skráningarmerki eru afhent (ökutæki skráð í umferð) en ökutækið er ekki með gilda skoðun getur eigandi fengið viku akstursheimild til þess að koma ökutækinu til skoðunar. Ef ökutækið er óskoðað að mánuði liðnum leggst vanrækslugjald á ökutækið.

Samanber 45. grein - c-liður 1. málsgrein

Boðun í skoðun af lögreglu

Ef lögregla stöðvar ökutæki sem ekki er í lögmæltu ástandi, annað hvort vegna vanbúnaðar eða vanrækslu á skoðun, skal hún boða ökutækið til sérstakrar skoðunar hjá skoðunarstofu. Hámarksfrestur sem lögregla getur gefið til að færa ökutækið til skoðunar eru 7 dagar. Einnig getur lögregla fjarlægt skráningarmerki af ökutæki ef umferðaröryggi er ógnað.

Samanber 43. grein

Afhending innlagðra skráningarmerkja ef niðurstaða skoðunar er "Notkun bönnuð"

Skoðunarstofum er óheimilt að afhenda innlögð skráningamerki eða setja þau á ökutæki ef niðurstaða skoðunar er "Notkun bönnuð"

Samanber 19. grein - f-liður 1. málsgrein 

Málskot

Sá sem ekki vill una niðurstöðu skoðunar ökutækis í skoðunarstofu getur, að undangenginni umfjöllun stjórnenda skoðunarstofunnar, skotið niðurstöðunni til Samgöngustofu innan mánaðar frá því að viðkomandi var tilkynnt um niðurstöðu skoðunarstofu (frá því að ökutækið var fært til skoðunar). Hið sama gildir um endurskoðunarverkstæði.

Athugið að málskot á einungis við um lögbundnar skoðanir, ekki söluskoðun/ástandsskoðun. Það athugast að málsmeðferð Samgöngustofu lýtur aðeins að því hvort lögbundin skoðun hafi verið framkvæmd í samræmi við reglugerð um skoðun ökutækja og skoðunarhandbók. Ekki er tekin afstaða til mögulegs bótaréttar í einstökum málum.

Finna má eyðublað til málskots á vef Samgöngustofu.

Samanber 47. grein

Málskot vegna skoðunar ökutækis - eyðublað

Ríkari kröfur til skoðunarstofa, skoðunarmanna og endurskoðunarverkstæða

Ríkari kröfur eru nú gerðar til skoðunarstöðva, skoðunarmanna, endurskoðunarverkstæða og tæknilegra stjórnenda.

Samanber 12. grein , 15. grein26. grein og 27. grein

 

Eftirfarandi breytingar og nýmæli eiga erindi við eigendur og umráðamenn tiltekinna ökutækja:

Bifhjól og létt bifhjól í flokki II

Nýtt skoðunartímabil bifhjóla og léttra bifhjóla í flokki II
Bifhjól og létt bifhjól í flokki II skal færa til skoðunar eins og þau hefðu 5 í endastaf skráningarmerkis. Það þýðir að skoðunarmánuður er maí og skal færa ökutækið til skoðunar fyrir lok júlímánaðar. 

Samanber 7. grein

Húsbílar, hjólhýsi, fellihýsi og tjaldvagnar

Nýtt skoðunartímabil húsbíla, hjólhýsa, fellihýsa og tjaldvagna
Húsbíla, hjólhýsi, fellihýsi og tjaldvagna skal færa til skoðunar eins og þau hefðu 5 í endastaf skráningarmerkis. Það þýðir að skoðunarmánuður er maí og skal færa ökutækið til skoðunar fyrir lok júlímánaðar.

Samanber 7. grein

Ný skoðunartíðni þyngri hjólhýsa, fellihýsa og tjaldvagna

Hjólhýsi, fellihýsi og tjaldvagnar yfir 3.500 kg að leyfðri heildarþyngd (eftirvagnar III og IV í notkunarflokknum hjólhýsi, fellihýsi eða tjaldvagn) þurfa nú að fara í árlega skoðun (1-1-1-1...) en áður þurftu þau að fara í fyrstu skoðun fjórum árum eftir skráningu og annað hvert ár eftir það (4-2-2-2...).

Samanber 6. grein - d-liður 1. málsgrein


Ferðavagnar sem fengu fyrstu skráningu 2004 og á slétttöluári fyrir það en voru skoðaðir árið 2021 þurfa ekki að mæta aftur í skoðun fyrr en 2024.
Eftir það eiga þeir að fara í reglubundna skoðun annað hvert ár.

Samanber 7. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í Stjórnartíðindum.

Dráttarvélar og eftirvagnar þeirra

Dráttarvélar notaðar á vegum skoðunarskyldar
Dráttarvélar sem komast hraðar en 40 km/klst. og eru aðallega notaðar á opinberum vegum eru nú skoðunarskyldar og þurfa þær nú að fara í reglubundna skoðun innan fjögurra ára eftir að ökutækið var fyrst skráð, að skráningarárinu frátöldu, síðan á 24 mánaða fresti næstu tvö skipti og eftir það á 12 mánaða fresti eftir það (4-2-2-1...) Eigendur eða umráðamenn slíkra dráttarvéla þurfa að skrá vélarnar í þar til gerðan notkunarflokk ef ætlunin er að nota þær á opinberum vegum. 

Samanber 5. grein i-liður 1. málsgrein

Skrá dráttarvél í notkunarflokk 180

Eftirvagnar dráttarvéla sem notaðir eru á vegum einnig skoðunarskyldir
Eftirvagnar (dráttarvéla) sem hafa hámarkshraða yfir 40 km/klst og notaðir eru á opinberum vegum eru nú einnig skoðunarskyldir.

Samanber 5. grein - h-liður 1. málsgrein

Aðrar dráttarvélar áfram undanþegnar skoðun
Dráttarvélar sem komast ekki hraðar en 40 km/klst. og þær dráttarvélar sem ekki eru notaðar á opinberum vegum eru áfram undanþegnar skoðun eins og áður var.

Samanber 5. grein - a og b liður 2. málsgrein

Fornökutæki

Nýtt skoðunartímabil fornökutækja
Fornökutæki skal færa til skoðunar eins og þær hefðu 5 í endastaf skráningarmerkis. Það þýðir að skoðunarmánuður er maí og skal færa ökutækið til skoðunar fyrir lok júlímánaðar. 

Samanber 6. grein - f-liður 1. málsgrein

Fornökutæki skal skoðað á 24 mánaða fresti og miðast nú skoðunarár við árið sem ökutækið var fyrst skráð (miðaðist áður við nýskráningarár).

Fornökutæki sem eru í umferðinni í dag og þar sem fyrsta skráningarár og nýskráningarár eru ekki bæði annað hvort á oddatöluári eða slétttöluári fá aukaár þar til þau þurfa að mæta næst í skoðun til að þau falli inn í tímabil miðað við fyrstu skráningu þeirra.

Samanber 8. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í Stjórnartíðindum.

Eyjaökutæki - Ökutæki í Hrísey, Grímsey og Flatey á Breiðafirði

Undanþága vegna eyjaökutækja
Eigendur ökutækja sem öllum stundum eru staðsett í Hrísey, Grímsey eða Flatey á Breiðafirði geta nú sótt um undanþágu frá skoðunarskyldu. Ef umsóknin er samþykkt fá þau þar með undanþágu frá skoðunarskyldu. 

Ef ökutækið er flutt á meginlandið fellur undanþágan úr gildi og ber þá að færa ökutækið án tafar til reglubundinnar skoðunar á næstu skoðunarstofu sem ásamt því að skoða ökutækið, tekur ökutækið úr notkunarflokknum „eyjaökutæki“.

Samanber 5. grein - 3. málsgrein

 Umsókn um undanþágu vegna eyjaökutækis

Ökutækjaleigur

 Ný skoðunartíðni ökutækja í notkunarflokknum „ökutækjaleiga

Ökutæki sem skráð eru í notkunarflokkinn ökutækjaleiga frá og með
1. janúar 2022 fá nýja skoðunartíðni. Skal færa þau fyrst til reglubundinnar skoðunar innan þriggja ára frá því ökutækið var fyrst skráð, að frátöldu skráningarári, á 24 mánaða fresti næstu tvö skipti og árlega upp frá því.  Skoðunartíðnin verður því 3-2-2-1... en var áður 4-2-2-1...

Samanber 6. grein - b-liður 1. málsgrein

Skoðunarskylda við breytingu á notkunarflokki
Ef ökutæki er fært í nýjan notkunarflokk sem hefur rýmri skoðunartíðni en sá sem ökutækið var áður í, t.d. þegar ökutæki er fært úr notkunarflokki ökutækjaleiga í almenna notkun, þarf að færa ökutækið til skoðunar áður en breyting á notkunarflokki getur átt sér stað, þ.e. hafi það ekki þegar verið fært til skoðunar (reglubundinnar skoðunar, skráningarskoðunar, samanburðarskoðunar eða fulltrúaskoðunar) á því ári.

Samanber 6. grein - 3. málsgrein

Ökukennsla

Ný skoðunartíðni ökutækja í notkunarflokknum „ökukennsla
Ökutæki sem skráð eru í notkunarflokkinn ökukennsla frá og með 1. janúar 2022 fá nýja skoðunartíðni. Skal færa þau fyrst til reglubundinnar skoðunar innan þriggja ára frá því ökutækið var fyrst skráð, að frátöldu skráningarári, á 24 mánaða fresti næstu tvö skipti og árlega upp frá því. Skoðunartíðnin verður því 3-2-2-1... en var áður 4-2-2-1...

Samanber 6. grein - b-liður 1. málsgrein 

Skoðunarskylda við breytingu á notkunarflokki
Ef ökutæki er fært í nýjan notkunarflokk sem hefur rýmri skoðunartíðni en sá sem ökutækið var áður í, t.d. þegar ökutæki er fært úr notkunarflokki ökukennsla í almenna notkun, þarf að færa ökutækið til skoðunar áður en breyting á notkunarflokki getur átt sér stað, þ.e. hafi það ekki þegar verið fært til skoðunar (reglubundinnar skoðunar, skráningarskoðunar, samanburðarskoðunar eða fulltrúaskoðunar) á því ári.

Samanber 6. grein - 3. málsgrein

Skólabifreiðar

Ný skoðunartíðni ökutækja í notkunarflokknum „skólabifreið
Ökutæki sem skráð eru í notkunarflokkinn skólabifreið frá og með 1. janúar 2022 fá nýja skoðunartíðni. Þau ökutæki þurfa nú að fara árlega í reglubundna skoðun (skoðunartíðnin 1-1-1-1...) en áður þurfti að færa þau fyrst til skoðunar innan fjögurra ára frá skráningu, að frátöldu skráningarári, á 24 mánaða fresti næstu tvö skipti og árlega upp frá því (4-2-2-1...).

Samanber 6. grein - 1. málsgrein c-liður

Skoðunarskylda við breytingu á notkunarflokki
Ef ökutæki er fært í nýjan notkunarflokk sem hefur rýmri skoðunartíðni en sá sem ökutækið var áður í, t.d. þegar ökutæki er fært úr notkunarflokki skólabifreið í almenna notkun, þarf að færa ökutækið til skoðunar áður en breyting á notkunarflokki getur átt sér stað, þ.e. hafi það ekki þegar verið fært til skoðunar (reglubundinnar skoðunar, skráningarskoðunar, samanburðarskoðunar eða fulltrúaskoðunar) á því ári.

Samanber 6. grein - 3. málsgrein

Ökutæki til flutnings hreyfihamlaðra í atvinnuskyni

Ný skoðunartíðni ökutækja í notkunarflokknum „flutningur hreyfihamlaðra í atvinnuskyni
Ökutæki sem skráð eru í notkunarflokkinn flutningur hreyfihamlaðra í atvinnuskyni frá og með 1. janúar 2022 fá nýja skoðunartíðni. Þau ökutæki þurfa nú að fara árlega í reglubundna skoðun (skoðunartíðnin 1-1-1-1...) en áður þurfti að færa þau fyrst til skoðunar innan fjögurra ára frá skráningu, að frátöldu skráningarári, á 24 mánaða fresti næstu tvö skipti og árlega upp frá því (4-2-2-1...).

Samanber 6. grein - 1. málsgrein c-liður

Skoðunarskylda við breytingu á notkunarflokki
Ef ökutæki er fært í nýjan notkunarflokk sem hefur rýmri skoðunartíðni en sá sem ökutækið var áður í, t.d. þegar ökutæki er fært úr notkunarflokknum ökutæki til flutnings hreyfihamlaðra í atvinnuskyni í almenna notkun, þarf að færa ökutækið til skoðunar áður en breyting á notkunarflokki getur átt sér stað, þ.e. hafi það ekki þegar verið fært til skoðunar (reglubundinnar skoðunar, skráningarskoðunar, samanburðarskoðunar eða fulltrúaskoðunar) á því ári.

Samanber 6. grein - 3. málsgrein

Leigubifreiðar

Skoðunarskylda við breytingu á notkunarflokki
Ef ökutæki er fært í nýjan notkunarflokk sem hefur rýmri skoðunartíðni en sá sem ökutækið var áður í, t.d. þegar ökutæki er fært úr notkunarflokknum leigubifreið í almenna notkun, þarf að færa ökutækið til reglubundinnar skoðunar áður en breyting á notkunarflokki getur átt sér stað, þ.e. hafi það ekki þegar verið fært til skoðunar (reglubundinnar skoðunar, skráningarskoðunar, samanburðarskoðunar eða fulltrúaskoðunar) á því ári.

Samanber 6. grein - 3. málsgrein

Eyðublöð/umsóknarform

Eyðublöð/umsóknarform má nálgast þessari undirsíðu.

Tenglar á reglugerðina og Evróputilskunina

Reglugerð 414/2021 um skoðun ökutækja.

Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/45/ESB frá 3. apríl 2014 um reglubundnar prófanir á aksturshæfni vélknúinna ökutækja og eftirvagna þeirra. EES-viðbætur 2015/EES/55/21.

 


Var efnið hjálplegt? Nei