Hjólreiðar

Umferðarlög nr. 77/2019 tóku gildi þann 1. janúar 2020. Hér að neðan er samantekt á helstu nýmælum laganna er varða hjólreiðar. Ábendingar um framsetningu samantektarinnar má senda á vefur@samgongustofa.is.

Hjálmaskylda

Skylda barna til að nota hlífðarhjálm við hjólreiðar er færð í lög og nær nú til barna yngri en 16 ára í stað barna yngri en 15 ára.

Samanber 79. grein laganna

Barn yngra en 16 ára skal nota reiðhjólahjálm við hjólreiðar.
Ákvæði 1. mgr. á ekki við þegar barn hefur fengið læknisvottorð sem undanþiggur það notkun hlífðarhjálms af heilsufarsástæðum eða læknisfræðilegum ástæðum.
Lögregla og forsjármenn skulu vekja athygli barna á skyldu skv. 1. mgr.

Snjalltæki

Í lögunum eru ákvæði er varða snjalltæki og bann við notkun þeirra gert skýrt, jafnt fyrir ökumenn vélknúinna ökutækja sem og fyrir hjólreiðamenn.

Samanber 57. grein laganna

Hliðarbil ökutækja frá hjólreiðafólki að lágmarki 1,5 metrar

Kveðið er á um að þegar ekið er fram úr reiðhjóli eða léttu bifhjóli skal hliðarbil vera að lágmarki 1,5 metrar.

Samanber 23. grein laganna

Sá sem ekur fram úr öðru ökutæki skal hafa nægilegt hliðarbil milli ökutækis síns og þess sem ekið er fram úr. Sé ekið fram úr reiðhjóli eða léttu bifhjóli skal hliðarbil að lágmarki vera 1,5 metrar.

Hjólað á miðri akrein þar sem hámarkshraði er 30 km á klst. eða minna.

Hjólreiðamaður á almennt að halda sig hægra megin á þeirri akrein sem lengst er til hægri. Þó er óhætt að hjóla á miðri akrein á vegi þar sem hámarkshraði er ekki meiri en 30 km. á klst. Þá er hjólreiðamönnum gert að sýna sérstaka aðgát við vegamót og þar sem akbraut og stígar skerast. 

Samanber 43. grein laganna

Á vegi þar sem leyfður hámarkshraði er ekki meiri en 30 km á klst. er hjólreiðamanni heimilt að hjóla á miðri akrein, enda gæti hann fyllsta öryggis og haldi hæfilegum hraða. 

Hjólreiðamaður skal gefa hljóðmerki

Í lögunum er kveðið á um að hjólreiðamaður skal gefa hljóðmerki þegar hann nálgast gangandi vegfarendur ef ætla má að þeir verði hans ekki varir.

Samanber 43. grein laganna

Hjólreiðamaður á gangstétt, göngustíg eða göngugötu skal víkja fyrir gangandi vegfarendum. Hann skal gæta ýtrustu varkárni og ekki hjóla hraðar en svo að hann geti vikið úr vegi fyrir gangandi vegfarendum sem eiga leið um. Hann skal gefa hljóðmerki þegar hann nálgast gangandi vegfarendur ef ætla má að þeir verði hans ekki varir. 

Hjólastígur

Ef hjólastígur er samhliða gangstétt eða göngustíg skal að jafnaði notast við hjólastíga. Í slíkum tilvikum er aðeins heimilt að hjóla á gangstétt eða göngustíg á hraða sem er ekki meiri en eðlilegur gönguhraði.

Samanber 17. grein laganna

Þar sem sérstakar reinar eru fyrir mismunandi tegundir ökutækja mega þeir einir nota þá akrein sem ökutæki þeirra er ætluð en aðrir ekki. Þar sem merktar reinar eru fyrir hæga umferð skulu hægfara ökutæki nota þær reinar.
Veghaldara er heimilt, að fenginni umsögn lögreglu, að ákveða hvaða ökutæki megi almennt eða í einstökum tilvikum aka á sérreinum og skal sú ákvörðun tilgreind með umferðarmerkjum. Við ákvörðunina skal þess m.a. gætt að tekið sé tillit til umferðaröryggis vegfarenda, umhverfissjónarmiða og skilvirkni samgangna.

Ökumenn veiti hjólandi forgang þegar hjólarein er þveruð

Ökumaður sem ætlar að beygja þvert á hjólarein skal veita umferð hjólreiðamanna á reininni forgang.

Samanber 26. grein laganna

Þegar ökumaður ætlar að beygja þvert á hjólarein ber honum að veita forgang umferð hjólreiðamanna á hjólareininni.

Göngugötur

Hugtakið göngugata er skilgreint í lögunum og sérstakt ákvæði sett um reglur sem gilda skulu í göngugötum. Þannig er umferð vélknúinna ökutækja í göngugötum almennt óheimil með ákveðnum undanþágum.

Samanber 10. grein laganna

Umferð vélknúinna ökutækja um göngugötu er óheimil. Þó er umferð vélknúinna ökutækja akstursþjónustu fatlaðra, handhafa stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða, lögreglu, slökkviliðs og sjúkraflutninga heimil. Þá er heimil umferð vélknúinna ökutækja í þeim tilgangi að afhenda verslunum, veitingastöðum og sambærilegum aðilum vörur á skilgreindum vörulosunartímum sem gefnir eru til kynna með skilti.

 

Aftur á yfirlitssíðu nýrra umferðarlaga


Var efnið hjálplegt? Nei