Ökunám og ökukennsla

Umferðarlög nr. 77/2019 tóku gildi þann 1. janúar 2020. Hér að neðan er samantekt á helstu nýmælum laganna er varða ökunám og ökukennslu. Ábendingar um framsetningu samantektarinnar má senda á vefur@samgongustofa.is.

Ökukennsla

Fært er í lög að ökukennarar þurfi að stunda nám og standast próf í viðkomandi ökutækjaflokki en kveðið hefur verið á um það í reglugerð hingað til. Gerð er sú krafa að ökukennarar þurfi að fullnægja kröfum um líkamlegt og andlegt hæfi sem gerðar eru til ökumanna sem annast farþegaflutninga í atvinnuskyni. Þá verður heimilt að synja þeim um starfsleyfi sem hefur hlotið dóm fyrir kynferðisbrot.

Samanber 64. grein laganna

Starfsleyfi til að annast ökukennslu má aðeins veita þeim sem:
hefur náð 21 árs aldri, hefur haft ökuréttindi samfellt síðustu þrjú árin í þeim flokki sem hann sækir um starfsleyfi fyrir, hefur stundað nám fyrir ökukennara í viðkomandi flokki og lokið prófum sem því námi fylgja, og fullnægir kröfum um líkamlegt og andlegt hæfi sem gerðar eru til ökumanna sem annast farþegaflutninga í atvinnuskyni.

Heimilt er að synja um starfsleyfi eigi ákvæði 2. mgr. 68. gr. almennra hegningarlaga við. Enn fremur er heimilt að synja þeim um starfsleyfi sem hlotið hefur dóm fyrir brot gegn ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga. Ráðherra setur nánari reglur um tilhögun ökukennaranáms og prófs.

Æfingaakstur

Leyfi skal gefið út á nafn nemanda og leiðbeinanda og til tiltekins tíma, mest 18 mánaða (var áður 15 mánuðir). Ökunám til B réttinda hefst þó aldrei fyrr en á 16 ára afmælisdaginn. 

Samanber 68. grein laganna 

Leyfi skal gefið út á nafn nemanda og leiðbeinanda og til tiltekins tíma, mest 18 mánaða. Leyfið fellur sjálfkrafa úr gildi þegar nemandi hefur öðlast ökuréttindi. Heimilt er að afturkalla leyfi ef sérstaklega stendur á. Leiðbeinandi skal hafa leyfið meðferðis við æfingaakstur og sýna það þegar lögreglan krefst þess.

Heilbrigðisskilyrði fyrir ökuréttindum

Í lögunum er ákvæði um að lögregla skuli afturkalla ökuréttindi ökumanns tímabundið í þrjá mánuði ef vafi leikur á að ökumaður uppfylli heilbrigðisskilyrði til að fá útgefið ökuskírteini. Ökumaður skal svo gangast undir mat á aksturshæfni sinni undir umsjón trúnaðarlæknis Samgöngustofu og verða ökuréttindi ekki gild að nýju fyrr en að loknu slíku mati.

Samanber 63. grein laganna

Lögreglan getur afturkallað ökuréttindi ef hlutaðeigandi fullnægir ekki lengur skilyrðum til að öðlast ökuskírteini.
Þegar afskipti eru höfð af ökumanni sem lögregla telur vafa leika á að fullnægi skilyrðum b-liðar 2. mgr. 58. gr. skal afturkalla ökuréttindin tímabundið í þrjá mánuði. Þau verða ekki gild að nýju fyrr en ökumaður hefur undirgengist mat á aksturshæfni undir umsjón trúnaðarlæknis Samgöngustofu.

Aftur á yfirlitssíðu nýrra umferðarlaga


Var efnið hjálplegt? Nei