Útgáfa hjólastöðuvottorða

Útg.nr: 03           Útg.dags: 24.11.2021

Krafa um vottorð um hjólastöðu:

Gerð er krafa um framvísun á hjólastöðuvottorði við endurskoðun ökutækja ef dæmt hefur verið á hjólastillingu í almennri skoðun og við sérskoðun. Einnig getur Samgöngustofa óskað eftir hjólastöðuvottorði við breytingu á tjónaskráningu ökutækja. Ef um er að ræða breytingu á skráningu skal vottorð fylgja með til Samgöngustofu.

Heimild til útgáfu vottorða

Samgöngustofa heldur lista yfir þá aðila sem hún hefur viðurkennt til útgáfu á vottorðum um hjólastöðu, US.355. Þeir sem fá slíka heimild skulu uppfylla þau skilyrði sem lýst er hér að neðan.

Umsókn og heimild: 

Sækja skal um heimild til útgáfu vottorða um hjólastöðu til Samgöngustofu á eyðublaði, US.132. Samgöngustofa gefur út heimildina á nafn verkstæðis og mælingarmanns/-manna.

Kröfur um aðstöðu:

Verkstæði sem gefur út hjólastöðuvottorð skal búið hjólastillitæki og aðstöðu til hjólastillinga. Hjólastillitæki skal haldið í fullkomnu lagi og kvarðað og stillt samkvæmt fyrirmælum framleiðanda þess.

Ábyrgðarmaður verkstæðis:

Ábyrgðarmaður verkstæðis skal vera sveinn eða meistari í bifvélavirkjun eða bifreiðasmíði. Ábyrgðarmaður ber ábyrgð á mælingum sem framkvæmdar eru af mælingarmönnum verkstæðisins og búnaði sem notaður er. Ábyrgðaraðili verður að hafa setið námskeið í reglum um hjólastillingar á ábyrgð útgefanda á síðustu 5 árum. Ábyrgðarmaður skal tilkynna ef skráður mælingarmaður hættir störfum og ef nýr hefur störf, einnig ef breytingar verða á tækjabúnaði.

Kröfur til mælingarmanna:

Mælingarmaður skal vera bifvélavirki eða bílasmiður í föstu starfi hjá því verkstæði er fær heimild til útgáfu vottorða. Mælingarmaður skal hafa sótt viðurkennt námskeið í hjólastillingum hjá Iðunni Fræðslusetri. Til þess að viðhalda heimild þarf að sækja endurmenntun á fimm ára fresti. Hann skal hafa staðist úttekt á þau hjólastillitæki sem verkstæðið notar hjá aðila sem viðurkenndur er af Samgöngustofu.

Kröfur um verklag við mælingu: 

Hjólastilling skal vera framkvæmd samkvæmt fyrirmælum framleiðanda viðkomandi bifreiðar. Ef ás bifreiðar er tekinn úr annarri bifreið skal miða við gildi sem eru gefin fyrir þá bifreið sem viðkomandi ás kemur úr. Við stillingu skal yfirfara stýrisbúnað, ganga úr skugga um að ekki séu slit eða skemmd í búnaðinum og að allir hlutir séu í lagi. Ef um sérsmíðaða hluti er að ræða skal liggja fyrir vottorð frá óháðum aðila viðurkenndum af Samgöngustofu. Stilla skal bæði fram- og afturhjól bifreiðar.

Útgáfa vottorð og vistun gagna: 

Ekki skal gefa út vottorð nema stilling sé innan marka og skal hjólastöðuvottorð vera staðfesting á því að stilling sé innan marka framleiðanda. Útgáfuaðili skal geyma gögn um hjólastöðu og upplýsingar sem notaðar voru við stillingu í 5 ár. Halda skal skrá yfir viðhald og kvörðun stillitækja.

Eftirlit með aðilum og verklagi: 

Samgöngustofa hefur eftirlit með þeim sem hafa heimild til útgáfu hjólastöðuvottorða. Brot á reglum um útgáfu vottorða getur leitt til niðurfellingar á heimild. Aðilar sem hafa heimild til útgáfu vottorða verða að taka þátt í samanburðarskoðunum sé þess óskað.

Eyðublöð og umsóknir: 

Hægt er að nálgast umsóknir og eyðublöð vegna útgáfu hjólastöðuvottorða hér á vefnum.


 

 


Var efnið hjálplegt? Nei