1.1.1 Heildarviðurkenning

Útg.nr: 02           Útg.dags: 05.06.2013

Evrópsk heildargerðarviðurkenning: Framleiðandi nýrra raðsmíðaðra ökutækja getur sótt um heildargerðarviðurkenningu fyrir tiltekna gerð ökutækis. Gefnar eru út heildargerðarviðurkenningar fyrir [...] 1bifreiðar, dráttarvélar og bifhjól. Heildargerðarviðurkenning er staðfesting á því að viðkomandi gerð ökutækis uppfylli nauðsynlegar Evrópukröfur um gerð og búnað ökutækja. Heildargerðarviðurkenning er veitt af viðurkenningaryfirvaldi aðildarríkis EES svæðisins og byggist á prófunum og skoðunum tækniþjónustu á ökutæki tiltekinnar gerðar.

CoC-vottorð: Í framhaldi af heildargerðarviðurkenningu tiltekinnar gerðar af ökutæki gefur framleiðandi ökutækisins út vottorð með hverju framleiddu ökutæki sem staðfestir samræmi ökutækisins við heildargerðarviðurkenningu. Vottorðið nefnist samræmingarvottorð eða CoC-vottorð (Certificate of Confirmity).

Fulltrúi: Fulltrúi er aðili sem ábyrgist innflytjanda gagnvart Samgöngustofu varðandi gerðarviðurkenningu og skráningu ökutækja. Fulltrúinn skal vera viðurkenndur af Samgöngustofu og skráður á lista yfir viðurkennda fulltrúa ( US.350 ). Hann skal hafa góða þekkingu á lögum og reglum er varða skráningu ökutækja og vera vel að sér um þá ábyrgð og þær skyldur sem gerðarviðurkenning hefur í för með sér. Fulltrúi með fulltrúaréttindi A hefur rétt til að annast gerðarviðurkenningu og forskráningu gerðarviðurkenndra ökutækja.

Skráning gerðar: Þegar sótt er um skráningu á heildargerðarviðurkenndu ökutæki til skráningardeildar Samgöngustofu er nauðsynlegt að framvísa CoC-vottorði með umsókn fyrir hvert ökutæki. Ef sú gerð sem skráningar er óskað eftir hefur ekki áður verið skráð í ökutækjaskrá er umsókninni vísað til gerðarviðurkenningardeildar sem stofnar nýja gerð í ökutækjaskrá á grundvelli upplýsinga úr heildargerðarviðurkenningunni og af CoC-vottorði. Upplýsingar um gerðarviðurkenningarnúmer eru skráðar á umsóknina og að því búnu er umsóknin send aftur til skráningardeildar.

Gilt CoC-vottorð: Framvísa skal gildu CoC-vottorði með hverju ökutæki sem óskað er eftir að verði skráð á grundvelli heildargerðarviðurkenningar. CoC-vottorð skal vera upprunavottorð (frumrit) og prentað á vatnsmerktan pappír eða með litagrafík til að koma í veg fyrir fölsun. Upplýsingar á vottorðinu skulu vera réttar. Ef villa er í lykilsvæðum CoC-vottorðsins er því hafnað. Lykilsvæðin eru Type, Variant, Version, Type Approval númer (e-númer) og verksmiðjunúmer (VIN). Ef villa finnst í almennum upplýsingasvæðum þá er gerð athugasemd við innflytjanda enda er hægt að finna réttar upplýsingar í heildargerðarviðurkenningunni.

Auðkenni gerðar: Til að greina á milli gerða eru í ökutækjaskrá notuð hugtökin gerðarviðurkenningarnúmer og viðbót en á CoC-vottorði eru notuð hugtökin Type, Variant, Version og Type Approval númer (e-númer).

Gerðarviðurkenningarnúmer og viðbót: Þegar ný gerð er skráð í gerðarskrána fær hún gerðarviðurkenningarnúmer og viðbót. Gerðarviðurkenningarnúmer er raðnúmer. Viðbótin er einnig raðnúmer sem byrjar í 0 fyrir hverja gerð og telur áfram. Dæmi um þetta getur verið 750 - 10.

Gerðarviðurkenningarnúmer eftir ökutækisflokkum:
Ökutækisflokkur (kóði):
gerðarviðurkenningarnúmer (frá - til)
Fólksbifreið (BI1): 500 - 2999
Dráttarvél (DI7): 3000 - 3999
Þungt bifhjól (HJ3): 4000 - 4499
Létt bifhjól (HJ2): 4500 - 4999
Type, Variant og Version: Öllum gerðum er lýst á CoC-vottorði eins og áður sagði með Type, Variant og Version sem eru lýsingar framleiðanda á ökutækinu.

Type Approval númer (e-númer): Type Approval númerið er evrópskt auðkenni á heildargerðarviðurkenningu viðkomandi gerðar. Það er byggt upp af fjórum þáttum sbr. eftirfarandi dæmi: e1*98/14*0250*25 þar sem e1 er númer landsins sem gefur út heildarviðurkenninguna, 98/14 er ártal og númer reglugerðarinnar sem heildarviðurkenningin byggist á, 0250 er teljari sem byrjaði í 0001 með fyrstu heildarviðurkenningunni í viðkomandi landi og 25 er seinni tíma viðbót við heildarviðurkenninguna.

Útgefin gerðarviðurkenning: Ef umboð óskar eftir skráningu á heildargerðarviðurkenningu sem umboðið hyggst nota til fulltrúaskoðunar á ökutæki er gefið út gerðarviðurkenningarskjal ( US.403 ) með greiningu og lýsingu viðkomandi gerðar. Umboð greiðir fyrir skráningu á gerð með þessum hætti.

Gerðarlisti: Umboð fær sendan lista yfir þær gerðir sem það hefur sótt um skráningu á samkvæmt framansögðu. Listinn er hugsaður til að auðvelda fulltrúum forskráningu á ökutækjum. Þegar fulltrúi biður um forskráningu ökutækis þarf hann að velja rétt gerðarviðurkenningarnúmer og viðbótarnúmer af lista og skrá á beiðni um forskráningu.

Notkun á skráðri gerð: Sá sem fer fram á og greiðir fyrir stofnun gerðar sem byggir á evrópskri heildargerðarviðurkenningu hefur ekki einkarétt á afnotum af henni. Ef aðrir aðilar óska eftir skráningu á ökutæki á grundvelli sömu gerðar er það heimilt, enda sé framvísað CoC-vottorði. Í slíkum tilvikum verður þó að færa ökutæki til samanburðarskoðunar. Ef annað umboð með fulltrúa vill geta framkvæmt fulltrúaskoðun á grundvelli sömu gerðar verður það einnig að láta stofna gerðina fyrir sig á venjulegan hátt.

Gjald fyrir gerðarskráningu: Fyrir skráningu á gerð og útgáfu á gerðarviðurkenningu og gerðarlista til fulltrúaskoðunar á ökutæki skal umboð greiða gjald fyrir gerðarskráningu samkvæmt gjaldskrá Samgöngustofu. Ef sótt er um skráningu á grundvelli tiltekinnar gerðar í einstöku tilviki til samanburðarskoðunar er ekki greitt fyrir skráningu gerðar.

Skipt um gerðarviðurkenningu: Ef óskað er eftir því að ökutæki verði nýskráð í samræmi við aðra gerðarviðurkenningu en það er forskráð eftir skal sækja um breytingu á viðurkenningu ökutækis ( US.406 ). Það sama gildir ef ökutæki er ekki lengur í samræmi við neina gerðarviðurkenningu, en þá skal sótt um að það verði skráningarviðurkennt. Fyrir breytingu á viðurkenningu ökutækis skal greiða gjald fyrir breytingaskráningu.

 1) 05.06.2013


Var efnið hjálplegt? Nei