1.1.2 Þjóðgerðarviðurkenning

Útg.nr: 02           Útg.dags: 30.08.2005

Þjóðargerðarviðurkenning: Innflytjandi nýrra raðsmíðaðra ökutækja, annarra en fólksbifreiða, getur sótt um þjóðargerðarviðurkenningu fyrir viðkomandi gerð ökutækis. Með umsókn um þjóðargerðarviðurkenningu skal leggja fram upplýsingar um gerð og búnað viðkomandi gerðar ökutækis og að því búnu skal fulltrúi færa til skoðunar ökutæki af viðkomandi gerð. Á grundvelli niðurstöðu gerðarskoðunar frá faggiltri skoðunarstofu og fyrirliggjandi gagna er þjóðargerðarviðurkenning gefin út. Sækja má um þjóðargerðarviðurkenningu fyrir bifreið (þó ekki fólksbifreið), bifhjól, torfærutæki, dráttarvél, eftirvagn og tengitæki.

Einkaréttur: Þjóðargerðarviðurkenning er eign umsækjanda og aðeins hann getur fengið ökutæki skráð á grundvelli hennar.

Vsk-kröfur: Framvegis verða skráðar upplýsingar um vsk-kröfur í gerðarlýsingu sendi- og hópbifreiða, þ.e. ef ökutæki uppfyllir vsk-kröfur er skráð um það athugasemd í gerðarskrá viðkomandi gerðar. Ef skráð er í gerðarskrá að bifreið uppfylli vsk-kröfur getur viðurkenndur fulltrúi látið skrá bifreiðina á vsk-merki á grundvelli fulltrúaskoðunar, án sérstakrar skoðunar á skoðunarstofu.

Fulltrúi: Fulltrúi er aðili sem ábyrgist innflytjanda gagnvart Samgöngustofu varðandi gerðarviðurkenningu og skráningu ökutækja. Fulltrúinn skal vera viðurkenndur af Samgöngustofu og skráður á lista fyrir viðurkennda fulltrúa ( US.350 ). Hann skal hafa góða þekkingu á lögum og reglum er varða skráningu ökutækja og hann skal vera vel að sér um ábyrgð og þær skyldur sem gerðarviðurkenning hefur í för með sér. Fulltrúi með fulltrúaréttindi A hefur rétt til að annast gerðarviðurkenningu og forskráningu gerðarviðurkenndra ökutækja.

Umsókn um þjóðargerðarviðurkenningu: Sækja skal um þjóðargerðarviðurkenningu til Samgöngustofu. Almenn umsókn um gerðarviðurkenningu ökutækja er á eyðublaðinu US.400 en umsókn um gerðarviðurkenningu torfærutækja er á eyðublaðinu US.401. Umsókn skal vera undirrituð af fulltrúa sem hefur fulltrúaréttindi A ( US.350). Umsóknin skal vera vélrituð, nákvæmlega og fullkomlega útfyllt og henni skulu fylgja tilskilin gögn. Á umsókn skulu koma fram upplýsingar um nafn, kennitölu og heimilisfang umsækjanda. Eftirtalin gögn skulu fylgja umsókn um gerðarviðurkenningu ökutækis:

[ Upprunavottorð frá framleiðanda:
Upprunavottorð skal uppfylla eftirfarandi skilyrði:
- [Upprunavottorð getur átt við eitt eða fleiri ökutæki en á því skal koma fram verksmiðjunúmer þeirra ökutækja sem viðkomandi vottorð á við. ] 2)
- Æskilegt er að upprunavottorð innihaldi frekari upplýsingar sem innflytjanda ber að útvega, t.d. merkingu tákna í verksmiðjunúmeri.
- Upprunavottorð þarf að vera í frumriti og vera undirritað af framleiðanda eða aðila sem hefur til þess heimild.
Eftirfarandi upplýsingar skulu koma fram í upprunavottorði:
- upplýsingar um að viðkomandi gerð ökutækis uppfylli skilyrði í reglugerð um gerð og búnað ökutækja sbr. upplýsingaskjal um fylgigögn með umsókn um gerðarviðurkenningu ( US 301 ),
- upplýsingar um burðargetu einstakra ása og leyfða heildarþyngd,
- upplýsingar um mestu leyfðu heildarþyngd eftirvagns/tengitækis sem tengja má við ökutækið (með og án hemla) og
- upplýsingar um slagrými og afköst hreyfils ökutækis] 1)

Teikning með öllum aðalmálum: Ef um er að ræða hópbifreið skal framvísa málsettri teikningu í mælikvarðanum 1:20 eða 1:25, í hliðar- og ofanvarpi, sem sýnir skipan farþegasvæðis, stærð og staðsetningu farangursgeymslna, ásamt fyrirkomulagi og stærð útganga.

Myndir af ökutæki: Myndir sem sýna ökutækið annars vegar á ská framan frá og aðra hliðina, og hins vegar á ská aftan frá og hina hliðina.

Leiðbeiningabók: Leiðbeiningabók eða sambærilegar upplýsingar.

Upplýsingar um verksmiðjunúmer: Upplýsingar um merkingu hvers tákns eða samstöðu tákna í verksmiðjunúmeri og gerðarnúmeri.

Kerfismynd af hemlakerfi: Kerfismynd af hemlakerfi ásamt nægjanlega ýtarlegri lýsingu á vinnsluferli þess. Ef ökutækið er búið hleðslustýrðum hemlajöfnunarloka skulu fylgja upplýsingar um þrýsting hemlalofts eða hemlavökva frá hemlajöfnunarloka miðað við hleðslu.

Viðbótarfylgigögn: Krefjast má viðgerðarbókar, teikninga, útreikninga og annarra upplýsinga, svo sem staðfestinga eða vottorða umfram það sem tilgreint er hér að framan í þeim mæli sem Samgöngustofa telur hagkvæmt að leggja til grundvallar fyrir gerðarviðurkenningu í stað þess að prófa sjálft ökutækið. Framleiðandi eða óháður rannsóknaraðili getur gefið út slíka staðfestingu eða vottorð.

Staðfesting á fylgigögnum: Staðfestingar, vottorð og önnur gögn frá framleiðanda eða innflytjanda skal fulltrúi undirrita og stimpla með nafni umsækjanda.

Gerðarskoðun: Fulltrúi skal færa ökutæki af þeirri gerð, sem sótt er um viðurkenningu á, til gerðarskoðunar á skoðunarstofu. Ökutækið skal vera í eftirfarandi ásigkomulagi:
- hreint að utan sem innan,
- límmiðar og áletranir á rúðum eða annars staðar á ökutækinu skulu fjarlægð,
- frágengið á sama hátt og viðskiptavinur fær það í hendur en án ryðvarnar hérlendis,
- ástand þess og búnaður skal vera í samræmi við ákvæði í lögum og reglugerðum að því marki sem umsækjandi getur metið slíkt,
- eldsneytisgeymir skal vera fullur og önnur vökvaforðabúr með rétt vökvamagn,
- hreyfill, aflrás, stýrisbúnaður, hjólaupphengjur, hjól o.fl. skulu vera stillt eftir fyrirmælum framleiðanda,
- ljós skulu vera stillt samkvæmt gildandi reglum,
- ökutækið skal fullnægja þeim kröfum sem gerðar eru samkvæmt reglugerð um gerð og búnað ökutækja.

Skoðunarvottorð: Framvísa skal skoðunarvottorði frá faggiltri skoðunarstofu um niðurstöðu gerðarskoðunar (númer).
Þjóðargerðarviðurkenningar frá öðrum ríkjum EES: Heimilt er að samþykkja þjóðargerðarviðurkenningu frá öðru aðildarríki EES sem íslenska gerðarviðurkenningu fyrir ökutæki í einum af ofangreindum ökutækisflokkum, ef gerðarviðurkenningin er framkvæmd á fullnægjandi hátt að mati Samgöngustofu. Þjóðargerðarviðurkenning dráttarvélar sem framkvæmd er á grundvelli EBE tilskipunar nr. 75/150 með síðari breytingum skal samþykkt sem íslensk gerðarviðurkenning. Þjóðargerðarviðurkenning bifhjóls sem framkvæmd er á grundvelli EBE tilskipunar nr. 92/61 skal samþykkt sem íslensk gerðarviðurkenning.

Gerðarviðurkenning: Gerðarviðurkenning er gefin út af Samgöngustofu til umsækjanda og gildir fyrir ökutæki af sömu gerð og það sem fært var til skoðunar. Aðili sem gerðarviðurkenningin er gefin út á ábyrgist að skyldur sem viðurkenninguna varða verði haldnar.

Gerðarviðurkenningarnúmer: Ökutæki fá úthlutað gerðarviðurkenningarnúmeri í samræmi við innflutningsástand og ökutækjaflokk. Hér að neðan má finna númer einstakra ökutækisflokka.
Ökutækisflokkur (kóði): gerðarviðurkenningarnúmer (frá - til)
Þungt bifhjól (HJ3): 5000 - 5499
Létt bifhjól (HJ2): 5500 - 5699
Torfæruhjól (TO2): 5700 - 5999
Sendibifreið (BI4): 6000 - 7499
Dráttarvél (DI1): 7500 - 7999
Tjaldvagn(TE2): 8000 - 8999
Vélsleði (TO1): 9000 - 9999
Skipt um gerðarviðurkenningu: Ef óskað er eftir því að ökutæki verði nýskráð í samræmi við aðra gerðarviðurkenningu en það er forskráð eftir skal sækja um breytingu á viðurkenningu ökutækis ( US 406). Það sama gildir ef ökutæki er ekki lengur í samræmi við neina gerðarviðurkenningu, en þá skal sótt um að það verði skráningarviðurkennt. Fyrir breytingu á viðurkenningu ökutækis skal greiða gjald fyrir breytingaskráningu.

1) 30.08.2005
2) 19.09.2005


Var efnið hjálplegt? Nei