1.10.1 Fulltrúaskoðun

Útg. nr: 7           Útg. dags: 8.2.2016

Fulltrúi:
Fulltrúi er aðili sem ábyrgist innflytjanda gagnvart Samgöngustofu varðandi gerðarviðurkenningu og skráningu ökutækja. Fulltrúi skal vera viðurkenndur af Samgöngustofu. Hann skal hafa góða þekkingu á lögum og reglum er varða skráningu ökutækja og hann skal vera vel að sér um þá ábyrgð og þær skyldur sem gerðarviðurkenning hefur í för með sér. Fulltrúaréttindi skiptast í þrjá flokka, A, B og C. Fulltrúi A hefur rétt til að annast gerðarviðurkenningu, forskráningu og nýskráningu, fulltrúi B hefur rétt til að framkvæma fulltrúaskoðun og annast nýskráningu og fulltrúi C hefur rétt til að annast fulltrúaskoðun og skráningu á gerðarviðurkenndum tengibúnaði.

Skilyrði fulltrúaréttinda:
Til að öðlast fulltrúaréttindi þarf umsækjandi að sitja námskeið á vegum Samgöngustofu og standast skriflegt próf að því loknu [með einkunnina 7.0 að lágmarki] 3. [Fulltrúaréttindi gilda í tvö ár. Fulltrúi, sem endurnýjar réttindi sín og hefur ekki fengið athugasemd(ir) frá Samgöngustofu frá síðasta námskeiði, fær réttindi sem gilda í þrjú ár.] 8  Til að viðhalda fulltrúaréttindum þarf fulltrúi að sækja upprifjunarnámskeið annað hvert ár og standast skriflegt próf/ [verkefni ] 6 að því loknu. Alvarleg eða ítrekuð mistök af hálfu fulltrúa í starfi getur leitt til sviptingar á fulltrúaréttindum. [Ef fulltrúi hefur verið sviptur réttindum sínum tvisvar sinnum, mun hann ekki geta öðlast réttindin á nýjan leik.]  [Að loknu hverju námskeiði skal fulltrúi undirrita staðfestingu á því að hann hafi setið námskeið, að hann gangist við þeirri ábyrgð sem fylgir starfi fulltrúa og þeim viðurlögum sem Samgöngustofu er unnt að beita séu reglur brotnar.] 7

Fulltrúaskoðun ökutækis - fulltrúi B:
Fulltrúi B hefur rétt til að framkvæma fulltrúaskoðun ökutækis. Einungis má framkvæma fulltrúaskoðun á ökutæki sem er skráð á grundvelli gerðar sem er skráð á viðkomandi umboð (sjá kafla 1.1.1). Við framkvæmd skoðunar skal fulltrúi skoða neðangreind atriði (sjá Framkvæmd fulltrúaskoðunar). Niðurstaða fulltrúaskoðunar skal vera án athugasemda en þó er í vissum tilvikum heimilt að leiðrétta skráningu ökutækis í samræmi við niðurstöðu fulltrúaskoðunar.

Frávik við fulltrúaskoðun:
Ef fulltrúaskoðun leiðir í ljós frávik sem ekki er unnt að leiðrétta við nýskráningu skal hafna skoðun og er þá óheimilt að nýskrá ökutækið. Í þessum tilvikum þarf að hafa samband við Samgöngustofu þar sem frávik er skoðað. Ef frávik stafar af mistökum hjá Samgöngustofu eru þau leiðrétt án tafar. Ef frávik stafar af vali á rangri gerð eða röngum upplýsingum í gerðarskráningu þarf annaðhvort að sækja um nýja gerð eða leiðréttingu/breytingu á viðkomandi gerð. Að lokinni skráningu á nýrri gerð þarf að sækja um breytingu á skráningu viðkomandi ökutækis til samræmis við hina nýju gerð ( US.406). Ef frávik leiðir af mistökum fulltrúa er það skráð í eftirlitskerfi Samgöngustofu.

Staðfesting og skráning fulltrúaskoðunar:
Ef ökutæki stenst skoðun samkvæmt framansögðu skal sá fulltrúi sem framkvæmdi skoðunina staðfesta hana með undirritun sinni á staðfestingu á fulltrúaskoðun ökutækis [...] 8. Fulltrúinn er skráður skoðunarmaður við fulltrúaskoðun og birtist í skoðunarferli ökutækis í ökutækjaskrá.

[Niðurstaða fulltrúaskoðunar:
Niðurstaða fulltrúaskoðunar skal vera án athugasemda en þó er í vissum tilvikum heimilt að leiðrétta skráningu ökutækis í samræmi við niðurstöðu fulltrúaskoðunar. Niðurstöðum fulltrúaskoðunar sem og nýskráningarbeiðni (sem skal vera tilbúin við skráningu) skal skilað til Samgöngustofu innan 10 virka daga til SGS. Ef um rafræna nýskráningu er að ræða þarf ekki að skila pappír, þær skráningar eru alfarið rafrænar. ] 1

[...] 8

Framkvæmd fulltrúaskoðunar

Ökutæki:
Fulltrúaskoðun má framkvæma á nýjum gerðarviðurkenndum ökutækjum sem eru forskráð á nafn umboðs með viðurkenndan fulltrúa.

Samræmi við gerðarviðurkenningu:
Ganga skal úr skugga um að ökutæki sé í samræmi við þá gerð sem það er skráð eftir að því er varðar hönnun, innréttingu og búnað. Ef fulltrúi verður var við frávik frá gerð eða sérstaka annmarka á ökutækinu, t.d. vegna tjóns, skal hafna skoðun og skráningu.

Verksmiðjunúmer:
Bera skal saman verksmiðjunúmer á ökutæki og í ökutækjaskrá. Mikilvægt er að bera saman alla stafi verksmiðjunúmersins. Ef um frávik er að ræða skal hafna skoðun og skráningu.

Þyngdartölur:
Bera skal saman þyngdartölur á ökutæki og í ökutækjaskrá. Ef um frávik er að ræða skal hafna skoðun og skráningu.

Ljósabúnaður:
Athuga skal virkni ljósabúnaðar og ljós skulu vera rétt stillt. Ef um frávik er að ræða skal hafna skoðun og skráningu.

Viðvörunarþríhyrningur:
Í öllum bifreiðum skal vera viðvörunarþríhyrningur (ekki nauðsynlegur í öðrum ökutækjum) [sem uppfyllir kröfur í reglugerð um gerð og búnað ökutækja.] 2  Ef viðvörunarþríhyrningur er ekki til staðar skal hafna skoðun og skráningu.

[ Skermun hjóla:
Hjól bifhjóls skulu búin hjólhlífum sem uppfylla reglugerð um gerð og búnað ökutækja. Ef kröfur um hjólhlífar eru ekki uppfylltar skal hafna skoðun og skráningu.] 2

Litur ökutækis:
Bera skal saman skráðan lit og lit á ökutæki.  Ef litur er rangur í ökutækjaskrá skal réttur litur tilgreindur á nýskráningarbeiðni og er hann skráður í ökutækjaskrá við nýskráningu.

Sætafjöldi:
Bera skal saman skráðan sætafjölda og sætafjölda í ökutæki. Öll sæti verða að hafa öryggisbelti. Ef um frávik er að ræða skal hafna skoðun og skráningu.

Hjólbarðastærð:
Bera skal saman hjólbarðastærð ökutækis og skráða hjólbarðastærð. Ef hjólbarðastærð ökutækis er röng en rétt stærð er skráð í athugasemdareit beiðninnar er nægilegt að merkja við rétta stærð á beiðninni. Ef rétt stærð er ekki skráð á nýskráningarbeiðni skal hafna skoðun og skráningu.

Staða akstursmælis:
Við fulltrúaskoðun skal tilgreina stöðu akstursmælis í km á nýskráningarbeiðni. Ef ökutæki er með heildarþyngd 5000 kg eða minna og staða mælis er 1000 km eða meira eða ef ökutæki er með heildarþyngd meiri en 5000 kg og staða mælis er 2500 km eða meira skal breyta stöðu ökutækis úr "Nýtt gvk" í "Notað gvk. skv. mæli".

Tengibúnaður:
Ef um er að ræða þjóðargerðarviðurkenndan tengibúnað skal framvísa beiðni um skráningu tengibúnaðar með nýskráningarbeiðni ( US.112 eða US.112-1 ). Ef tengibúnaður er ekki gerðarviðurkenndur skal framvísa staðfestingu á breytingaskoðun tengibúnaðar hjá skoðunarstofu með nýskráningarbeiðni.

Notkunarflokkur:
Notkunarflokkur er almennt skráður sem "Almenn notkun". Ef ætlunin er að nota ökutækið sem bílaleigubifreið getur fulltrúi umboðs óskað eftir slíkri skráningu. Ef skrá á ökutæki sem kennslubifreið, leigubifreið eða í neyðarakstur skal færa það til skoðunar fyrir breytingu á notkunarflokki.

[...] 8

Skráningarflokkur:
Með skráningarflokki er átt við þann flokk sem skráningarmerki ökutækisins tilheyra t.d. almenn-, vsk- eða einkamerki. Mikilvægt er að tilgreina réttan flokk í samræmi við þau merki sem sett hafa verið á ökutækið.

Skráningarnúmer:
Tilgreina skal þá áletrun sem er á skráningarmerkjum ökutækisins. Mikilvægt er að tilgreina rétta áletrun.

Fulltrúaskoðun tengibúnaðar:
Fulltrúi C hefur rétt til að annast fulltrúaskoðun og skráningu á gerðarviðurkenndum tengibúnaði. Ef ökutæki ber þjóðargerðarviðurkenndan tengibúnað er heimilt að skrá hann á grundvelli skoðunar fulltrúa. Í beiðni um skráningu tengibúnaðar ( US.112 eða US.112-1 ) skal koma fram yfirlýsing fulltrúa um að tengibúnaður sé í samræmi við tilgreinda gerðarviðurkenningu.

1) 12.10.2005
2) 10.10.2006
3) 10.01.2008
4) 10.09.2008
5) 16.03.2009
6) 21.04.2009
7) 17.04.2012
8) 08.02.2016


Var efnið hjálplegt? Nei