1.2.1 Ferli forskráninga

Útg.nr: 06           Útg.dags: 25.06.2013

Umsókn um forskráningu: Fyrsta skrefið í skráningu ökutækis er að forskrá það og fá úthlutað fastanúmeri. Umsókn um forskráningu er skilað inn til Samgöngustofu ásamt viðeigandi fylgigögnum (sjá kafla 1.2.2). Miklu máli skiptir að öll tilskilin gögn fylgi umsókn og að um rétt umsóknareyðublað sé að ræða. Umsóknareyðublað US.101 um forskráningu ökutækja og upplýsingar um fylgigögn má finna hér.

Bifreiðaumboð með fulltrúa: Þegar umboð með fulltrúa A sækir um forskráningu á gerðarviðurkenndu ökutæki með skráða gerð í eigu viðkomandi umboðs, skilar fulltrúi inn umsókn US.106. Miklu skiptir að umsóknin sé rétt útfyllt og að rétt gögn fylgi með (sjá kafla 1.2.2). Hafi ökutæki ekki skráða gerð er þó hægt að fara þessa leið með heildargerðarviðurkennd ökutæki, ef merkt er við nýja gerð á umsóknareyðublaði og fá þar með gerðina skráða í leiðinni.

Innflytjandi skráður umráðamaður: Við forskráningu í ökutækjaskrá er innflytjandi ökutækis skráður sem umráðamaður. Heimilt er að breyta umráðamanni á forskrá (sjá nánar kafla 2.5).

Fastanúmer: Við forskráningu er hverju ökutæki úthlutað fastanúmeri af handahófi. Ekki er hægt að velja fastanúmer og þegar fastanúmeri hefur verið úthlutað mun það fylgja ökutækinu. [...] 5

Vinnsla: Biðtími forskráninga er háður verkefnastöðu hverju sinni og því að rétt gögn hafi fylgt umsókn og að umsókn hafi verið rétt fyllt út. Umsókn um forskráningu er skráð inn í afgreiðslukerfi forskráninga við innlögn umsóknar og mun umsækjanda berast tölvupóstur með fastanúmeri ökutækis um leið og forskráningu er lokið. Ef umsókn er ábótavant, ýmist vegna rangra fylgigagna eða rangt útfylltrar umsóknar, mun umsækjanda berast tölvupóstur þar sem látið er vita og beðist úrbóta.

Skráningarmerki: Við umsókn um forskráningu er gefinn kostur á því að panta skráningarmerki um leið og fastanúmeri hefur verið úthlutað og er þá greitt fyrir skráningarmerkin við umsókn um forskráningu. Á umsóknareyðublaði fyrir forskráningu er hægt að merkja við hvaða gerð og stærð skráningarmerkja umsækjandi vill panta á viðkomandi ökutæki. Þá eru skráningarmerkin framleidd um leið og fastanúmeri hefur verið úthlutað og tekur sú framleiðsla 2-3 virka daga.

Flýtimeðferð skráningarmerkja: Hægt er að greiða aukalega fyrir flýtimeðferð skráningarmerkja en í þeim tilfellum eru skráningarmerkin tekin af lager og eru því tilbúin til afgreiðslu um leið og fastanúmeri hefur verið úthlutað.

Nýskráningarbeiðni: Þegar forskráningu er lokið og fastanúmeri hefur verið úthlutað er prentuð út nýskráningarbeiðni. Umsækjandi velur á umsóknareyðublaði hvort hann vilji sækja nýskráningarbeiðnina, fá hana senda heim til sín eða senda á skoðunarstofu þar sem ökutækið verður skráningarskoðað og nýskráð. Fulltrúi umboðs getur valið um að fá nýskráningarbeiðni útgefna og er hún þá sett í hólf viðkomandi umboðs, en fulltrúi getur líka kosið að prenta nýskráningarbeiðnina sjálfur og er hún þá ekki prentuð út hjá Samgöngustofu.

Tollafgreiðsla: Þegar fastanúmeri hefur verið úthlutað er hægt að tollafgreiða ökutækið.

Sérstakar athugasemdir forskráningu:

Gögn vantar: Ef nauðsynlegar upplýsingar um skráningarviðurkennd ökutæki finnast í ökutækinu sjálfu og heimilt er að vísa í slíkar upplýsingar skal skráningaraðili skrá í athugasemdareit ökutækisins þær upplýsingar sem þarf að afla við skráningarskoðun. Upplýsingarnar skal skrá með stöðluðum athugasemdum úr heitatöflu.

Aldursskráning: Ef ökutæki er nýtt er nýskráningardagur (hér á landi) látinn gilda sem aldursviðmiðun. Ef ökutæki er notað eru upplýsingar um fyrsta skráningardag sóttar í erlent skráningarskírteini. Almennt eru upplýsingar um fyrstu skráningu ekki að finna í skráningargögnum frá Bandaríkjunum og Kanada en þess í stað eru upplýsingar [um framleiðsluár sóttar í ökutækin sjálf við skráningarskoðun og skráðar í ökutækjaskrá við nýskráningu ]. Sjá nánar reglur um aldursskráningu ökutækja (kafli 1.9.1).

Eigin þyngd: Upplýsingar um eigin þyngd gerðarviðurkenndra ökutækja koma fram í gerðarlýsingu ökutækjanna og er óheimilt að skrá aðra eiginþyngd við forskráningu. Ef upplýsingar um eigin þyngd skráningarviðurkenndra ökutækja koma fram í erlendum skráningargögnum skal skrá þær upplýsingar í ökutækjaskrá. Ef upplýsingarnar koma ekki fram í erlendum skráningargögnum skal skráningaraðili leita upplýsinganna í gögnum Samgöngustofu um viðkomandi ökutæki. Ef fullnægjandi upplýsingar eru ekki til um eigin þyngd ökutækis skal ekki skrá eigin þyngd við forskráningu en gera kröfu um vigtarseðil við skráningarskoðun ( US.114). Sjá nánar reglur um eigin þyngd ökutækja (kafli 1.9.2).

[ Skattflokkur: Almennt eru ökutæki skráð í skattflokk 00 við forskráningu. Bifreið með heildarþyngd 10.000 kg eða meira skal fara í skattflokk 01. Eftirvagn með heildarþyngd 10.000 kg eða meira skal fara í skattflokk 03.]

Notkunarflokkur: Almennt er ökutæki skráð í notkunarflokkinn "Almenn notkun" við forskráningu. Ef sótt er um skráningu á öðrum notkunarflokki skal framvísa eyðublaði ( US.115) eða færa ökutæki til skoðunar á skoðunarstofu ( 1.10.4). Um sendiráðsökutæki ( 1.8.3) gilda sérreglur.

Samanburðarskoðun: Ef nýtt heildargerðarviðurkennt ökutæki er flutt inn af öðrum en umboði með fulltrúa eða ef umboð hefur ekki fengið útgefna gerðarviðurkenningu fyrir gerðina (kafli 1.1.1) skal skrá inn stöðluðu athugasemdina "Samanburðarskoðun". Athugasemdin hefur þá þýðingu að færa þarf ökutækið til samanburðarskoðunar á skoðunarstofu fyrir nýskráningu (kafli 1.3).

Skipt um gerðarviðurkenningarnúmer: Ef gerðar eru breytingar á heildargerðarviðurkenndu ökutæki eftir forskráningu er heimilt að láta þjóðargerðarviðurkenna hið breytta ökutæki. Í framhaldinu er unnt að láta breyta gerðarviðurkenningarnúmeri þeirra ökutækja sem hafa undirgengist samskonar breytingar. Ökutækin eru forskráð á grundvelli tiltekinnar heildargerðarviðurkenningar en að lokinni breytingu ökutækjanna til samræmis við tiltekna þjóðargerðarviðurkenningu er óskað eftir breytingu á gerðarviðurkenningarnúmeri ökutækjanna á eyðublaðinu US.406. Þegar kemur að nýskráningu ökutækisins getur viðurkenndur fulltrúi umboðs framkvæmt hefðbundna fulltrúaskoðun á ökutækinu og staðfest samræmi þess við viðkomandi þjóðargerðarviðurkenningu. Fyrir breytingu á viðurkenningu ökutækis skal greiða gjald fyrir breytingaskráningu.

Farmbréf: Farmbréf eru áskilin við forskráningu ökutækja, eins og fram kemur í kafla 1.2.2. Hins vegar þarf farmbréf ekki að fylgja með innfluttum notuðum ökutækjum ef nafn innflytjanda er skráð á skráningarskírteini frá fyrra skráningarlandi og ber saman við umsókn um forskráningu.

4) 20.10.2009
5) 07.12.2011
6) 25.06.2013


Var efnið hjálplegt? Nei