1.3 Nýskráning

Útg.nr: 9          Útg.dags: 04.03.2016

Skoðun ökutækis fyrir skráningu: Áður en heimilt er að nýskrá ökutæki verður að framkvæma á því skoðun. Skráningarviðurkennt ökutæki skal hafa staðist skráningarskoðun á faggiltri skoðunarstofu. Nýtt gerðarviðurkennt ökutæki skal hafa staðist fulltrúaskoðun viðurkennds fulltrúa umboðs eða samanburðarskoðun á skoðunarstofu. Nánari reglur um skráningarskoðun er að finna í Skoðunarhandbók, reglur um samanburðarskoðun er að finna í Skráningarreglum fyrir skoðunarstofur og reglur um fulltrúaskoðun er að finna í Skráningarreglum fyrir fulltrúa umboðanna.

Skráningarstaður ökutækis: Ökutæki sem hefur staðist fulltrúaskoðun má aðeins nýskrá hjá Samgöngustofu. Ökutæki sem hefur staðist skráningarskoðun eða samanburðarskoðun á skoðunarstofu má nýskrá hjá skoðunarstofu og hjá Samgöngustofu.

Nýskráningarbeiðni: Framvísa ber nýskráningarbeiðni í frumriti áður en ökutæki er nýskráð.

Undirritun og vottun: Nýskráningarbeiðni skal vera undirrituð af innflytjanda (umráðamanni á forskrá) og eiganda (kaupanda) ökutækis. Einnig skal hún undirrituð af meðeiganda og umráðamanni ef við á. Undirskriftir skulu vottaðar af a.m.k. einum vitundarvotti. Ef um er að ræða fulltrúaskoðað ökutæki skal beiðnin undirrituð af viðurkenndum fulltrúa umboðs með fulltrúaréttindi B ( US.350 ). Skráningaraðili skal ganga úr skugga um að sá sem undirritar sé skráður með fulltrúaréttindi B. Ef nýskráningarbeiðni berst með tölvupósti eða í biðskrá er gengið úr skugga um réttar undirskriftir í eftirliti með nýskráningum. Ef aðrir en ofangreindir aðilar undirrita beiðni samkvæmt umboði skal umboð fylgja með.

Umboð: Í umboði skal koma fram efni umboðs, fastanúmer ökutækis, nafn og kennitala umboðsmanns, undirritun umbjóðanda og tveir vitundarvottar. Umbjóðandi, umboðsmaður og vitundarvottar skulu vera orðnir 18 ára.

Tilkynnandi: Við nýskráningu skal skrá upplýsingar um tilkynnanda þ.e. þann millilið sem óskar eftir nýskráningu t.d. skoðunarstofa eða umboð. Ef gögnum er framvísað milliliðalaust í afgreiðslu Samgöngustofu skal skrá Samgöngustofu sem tilkynnanda.

Fulltrúi umboðs: Ef um er að ræða nýtt gerðarviðurkennt ökutæki sem er nýskráð af umboði, þ.e. umboð er tilkynnandi, er nauðsynlegt að tilgreina nafn fulltrúans er undirritaði nýskráningarbeiðnina.

Meðeigandi eða umráðamaður: Ef óskað er skráningar meðeiganda eða umráðamanns við nýskráningu skal tilgreina þá á nýskráningarbeiðni og skulu þeir undirrita beiðnina. Ef meðeigandi er yngri en 18 ára þarf samþykki sýslumanns (yfirlögráðanda) fyrir skráningu hans sem eiganda. Ef nýskráningarbeiðni berst með tölvupósti eða í biðskrá skal tilgreina í athugasemdum beiðninnar að staðfesting sýslumanns liggi fyrir. Gengið er úr skugga um réttar undirskriftir í eftirliti með nýskráningum. Ef ritað er undir fyrir hönd meðeiganda eða umráðamanns skal vottað umboð fylgja með.

Aldur eiganda: Ef eigandi ökutækis er yngri en 18 ára þarf samþykki sýslumanns (yfirlögráðanda) fyrir skráningu hans sem eiganda. Ef nýskráningarbeiðni berst með tölvupósti eða í biðskrá er nægilegt að tilgreint sé í athugasemdum beiðninnar að samþykki sýslumanns liggi fyrir.

Tryggingafélag: Á beiðni um nýskráningu skal tilgreina tryggingafélag ökutækis, nema ökutæki sé eftirvagn eða tengitæki og er tryggingafélagið skráð í ökutækjaskrá við nýskráningu.

Tollafgreiðsla: Ökutæki skal vera tollafgreitt áður en óskað er eftir nýskráningu. Óheimilt er að nýskrá ökutæki án tollafgreiðslu nema fyrir liggi skrifleg heimild frá tollstjóra. Ef nýskráningarbeiðni berst í biðskrá skal skrifleg heimild tollstjóra send á myndsendi áður en ökutæki er nýskráð. Á nýskráningarbeiðni sem berst í tölvupósti skal tilgreina í athugasemdum að skrifleg heimild tollstjóra liggi fyrir.

Gjöld sem þarf að greiða fyrir nýskráningu: Áður en heimilt er að nýskrá ökutæki skal greiða nýskráningargjald, umferðaröryggisgjald, gjaldfallin vörugjöld, áætluð bifreiðagjöld fyrir eftirstandandi tímabil og áætlaðan þungaskatt ef við á. Við nýskráningu í afgreiðslu og í biðskrá eru bifreiðagjöld og þungaskattur greidd fyrir nýskráningu. Við nýskráningu að beiðni skoðunarstofa er heimilt að líta fram hjá bifreiðagjöldum og þungaskatti, enda skal skoðunarstofan móttaka umrædd gjöld fyrir nýskráningu og er gengið úr skugga um greiðslu gjaldanna í eftirliti með skráningum. Starfsmaður Samgöngustofu skal ávallt ganga úr skugga um að gjaldfallin vörugjöld séu greidd fyrir nýskráningu. Heimilt er að taka gilda kvittun frá tollstjóra/sýslumanni fyrir greiddum vörugjöldum og skal hún þegar við á send á myndsendi til Samgöngustofu fyrir nýskráningu.

25% álag á þungaskatt: Við nýskráningu skal greiða 25% álag á þungaskatt af sendibifreiðum sem eru á vsk-merkjum, sendibifreiðum á stöð, hópbifreiðum I í atvinnurekstri og leigubifreiðum. Álagið leggst á við nýskráningu ef ökutæki uppfyllir framangreind skilyrði og ber Samgöngustofu, umboðum og skoðunarstofum að innheimta gjaldið við nýskráningu. Þar sem það getur verið erfitt í vissum tilvikum að fylgjast með skilyrðum um 25% álag er Samgöngustofu heimilt samkvæmt samkomulagi við RSK að líta fram hjá vangreiddu álagi í eftirliti með nýskráningum. Í slíkum tilvikum mun RSK fylgja eftir innheimtu gjaldsins. Samgöngustofa getur gengið úr skugga um að ógreidd gjöld séu með 25% álagi með notkun sérstaks reikniforrits frá RSK.

Eigin þyngd: Ef eigin þyngd hefur ekki verið skráð við forskráningu, þ.e. skráð núll, er skylt að skrá þyngdina við nýskráningu. Skoðunarstofa skal tilgreina eigin þyngd í nýskráningarbeiðni og skráningaraðili skrá þyngdina í ökutækjaskrá við nýskráningu.

Breyting á eigin þyngd: Ef ökutæki hefur farið í breytingaskoðun fyrir nýskráningu og breyting hefur orðið á eigin þyngd frá því sem skráð var við forskráningu skal tilgreina sérstaklega í nýskráningarbeiðni að ökutækið hafi farið í breytingaskoðun og breyting hafi orðið á eigin þyngd. Nýskráningaraðili skráir hækkun á eigin þyngd í samræmi við beiðnina. Lækkun á eigin þyngd má hins vegar ekki skrá nema með sérstöku samþykki Samgöngustofu. Ef beiðni berst um lækkun eigin þyngdar skal nýskrá ökutækið með óbreyttri þyngd en tilgreina í tölvupósti að senda þurfi sérstaka beiðni um lækkun eigin þyngdar til Samgöngustofu. Ef yfirlýsing um breytingaskoðun hefur borist og eigin þyngd verið hækkuð við nýskráningu skal senda afrit af nýskráningarbeiðni til umsjónaraðila breytingaskráninga á netfangið breyting@us.is.

Dagsetning nýskráningar: Nýskráningardagsetning er sú dagsetning þegar nýskráning er framkvæmd af starfsmanni Umferðarstofu. Óheimilt er að nýskrá ökutæki aftur í tímann.

Skattflokkur 70-79: Ef ökutæki er skráð í skattflokk á bilinu 70 - 79 er óheimilt að nýskrá ökutækið. Tollstjóri verður að aflétta skattflokki 70 áður en heimilt er að nýskrá ökutæki (sjá breytingalása). Þó er heimilt að aflétta lásnum og nýskrá ökutækið án samþykkis tollstjóra ef tilkynning berst frá sýslumanni um nauðungarsölu á ökutæki.

Tjónabifreið: Óheimilt er að nýskrá bifreið sem skráð er tjónabifreið. Áður en heimilt er að nýskrá bifreiðina verður að fella niður tjónaskráninguna eða breyta henni í "viðgerð tjónabifreið". Sjá nánar reglur um tjónaskráningu ( 1.9.9 ).

Staðsetning skráningarmerkja: Áður en unnt er að nýskrá ökutæki verða skráningarmerki að hafa verið móttekin hjá þeim er afhendir merkin á ökutækið. Það telst nægilegt að merki hafi verið móttekin hjá skoðunarfyrirtæki þótt þau séu skráð á annarri stöð en afhendir merkin.

Afhending skráningarmerkja: Við nýskráningu eru skráningarmerki skráð afhent á ökutæki. Ef nýskráningarbeiðni berst með tölvupósti skal tilgreint í beiðninni hvaða merki voru afhent á ökutækið og þau merki skráð á ökutækið.

Vsk-merki: Aðeins er heimilt að afhenda vsk-merki á sendibifreið og vörubifreið I (að heildarþyngd undir 5000 kg) sem uppfyllir vsk-kröfur. Ef það kemur fram í gerðarlýsingu að sendibifreið uppfylli vsk-kröfur er heimilt að afhenda vsk-merki á bifreiðina án frekari skoðunar. Ef það kemur hins vegar ekki fram í gerðarlýsingu að ökutæki uppfylli vsk-kröfur þarf að færa ökutækið til skoðunar á skoðunarstofu. Í beiðni skoðunarstofunnar um skráningu skal tilgreina að ökutæki standist vsk-kröfur. Ef fólksbifreið hefur verið breytt í sendibifreið fyrir skráningu skal skoðunarstofan jafnframt tilgreina að bifreiðin hafi farið í breytingaskoðun og sé sendibifreið sem uppfylli vsk-kröfur. Skráningaraðili skal breyta ökutækinu í sendibifreið áður en vsk-merki eru afhent.

Skoðunarmiðar: Við nýskráningu skal afhenda skoðunarmiða á skráningarmerki í samræmi við skoðunarreglur. Fjallað er um skoðunarreglur í kafla um afhendingu skráningarmerkja ( 3.4 ). Skoðunarmiðar eru afhentir í afgreiðslu við nýskráningu ökutækja þar. Skoðunarstofur kaupa skoðunarmiða af Samgöngustofu og annast afhendingu þeirra við skráningu hjá þeim. Umboð sem framkvæma nýskráningar í gegnum biðskrá kaupa skoðunarmiða hjá Samgöngustofu og annast afhendingu þeirra við skráningu í gegnum biðskrá.

[...] 1

Samanburður fyrir notkun: Þegar ökutæki hefur verið nýskráð og áður en það er tekið í notkun skal fulltrúi eða faggild skoðunarstofa ganga úr skugga um að verksmiðjunúmer og skráningarmerki ökutækisins séu í samræmi við það sem skráð er í [ökutækjaskrá] 1 og réttur skoðunarmiði hafi verið límdur á skráningarmerki skoðunarskyldra ökutækja.

Höfnun nýskráningar: Ef ofangreind skilyrði eru ekki uppfyllt skal hafna nýskráningu. Ef nýskráningarbeiðni berst með tölvupósti eða biðskrá skal senda tilkynningu um höfnun með tölvupósti ásamt ástæðu höfnunar. Ef skráningarbeiðni hefur verið hafnað er ekkert frekar aðhafst í málinu nema ný beiðni um skráningu berist.

Niðurfelling nýskráningar: Heimilt er að fella niður skráningu ef beiðni berst um það sama dag og skráning var framkvæmd. Fyrir niðurfellingu á nýskráningu skal innheimta gjald samkvæmt gjaldskrá Samgöngustofu. Nýskráningargjald er ekki endurgreitt við niðurfellingu skráningar.

Leiðrétting nýskráningar: Heimilt er að leiðrétta skráningu eiganda/umráðamanns í eina viku frá skráningardegi. [Framvísa skal sérstakri] beiðni um leiðréttingu sem skal vera undirrituð af innflytjanda, eiganda og umráðamanni þar sem við á. Fyrir leiðréttingu á skráningu skal innheimta gjald samkvæmt gjaldskrá Samgöngustofu.

Staða akstursmælis: Við nýskráningu nýrra bifreiða og bifhjóla skal tilgreina stöðu akstursmælis. Stöðuna skal skrá í ökutækjaskrá í kílómetrum. Ef staðan er tilgreind í mílum skal umreikna hana yfir í kílómetra (1 míla er 1.6 km). Ef staða akstursmælis er hærri en 1000 km skal breyta innflutningsástandi ökutækisins úr "nýtt" í "notað skv. mæli" eða úr "nýtt gvk" í "notað gvk skv. mæli". Bifreiðar með heildarþyngd yfir 5000 kg mega hafa stöðu á akstursmæli allt að 2500 km áður en þær fara í flokkinn "notað skv. mæli".

[Aldur ökutækja: Við nýskráningu á notuðum ökutækjum er nauðsynlegt að skrá aldursviðmið ökutækja. Ef ekki hafa verið skráðar upplýsingar um fyrsta skráningardag skal skrá framleiðsluár ökutækisins við nýskráningu. Upplýsingar um framleiðsluár skulu koma fram í beiðni skoðunarstofu um nýskráningu en skoðunarstofa skal lesa þær af ökutækinu við skráningarskoðun. ]

1) 04.03.2016


Var efnið hjálplegt? Nei