1.3.1 Nýskráning eftir listum

Útg.nr: 1            Útg.dags: 05.12.2005

Umboð með viðurkennda fulltrúa geta sent lista yfir þau ökutæki sem þau vilja fá nýskráð tiltekinn dag. Um meðferð lista gilda eftirfarandi reglur:

Tímamörk lista: Listarnir verða að berast eigi síðar en kl. 9 að morgni þess dags sem þeir skulu afgreiddir, en best er að þeir berist deginum áður. Listar sem berast fyrir kl. 9 að morgni er afgreiddir fyrir hádegi sama dag enda komi ekki upp nein vandkvæði við vinnslu listanna. Listar sem berast eftir kl. 9 eru afgreiddir næsta dag.

Upplýsingar á lista: Á lista skal tilgreina réttan eiganda, ásamt umráðamanni og/eða meðeiganda ef við á. Að auki skal tilgreina tryggingarfélag ökutækis og stöðu akstursmælis (kílómetrafjölda). Ef þessar upplýsingar vantar á listann eða eru rangar verður hluta listans eða honum öllum hafnað.

Skráningarmerki: Skráningarmerki þeirra ökutækja sem eru á lista verða að vera staðsett hjá umboði. Ef skráningarmerki hafa ekki verið pöntuð eða eru ranglega staðsett er skráningu hafnað.

Gjöld og kvittun: Greiða verður nýskráningargjald fyrir ökutæki samkvæmt lista en heimilt er að skuldfæra þau á viðkomandi umboð. Aðeins er gefin út ein kvittun vegna nýskráningargjalda allra ökutækja á lista. Staðgreiða verður bifreiðagjöld allra ökutækja á lista í einu lagi og Samgöngustofa gefur aðeins út eina kvittun vegna listans í heild, en gjöldin eru sundurliðuð á hvert ökutæki. Ef þess er óskað að hver afgreiðsla verði afgreidd með sérstakri kvittun verður að framkvæma skráninguna með hefðbundnum hætti með framvísun gagna í þjónustuveri.

Höfnun lista: Ef upplýsingar á listum eru ekki fullnægjandi eru þau ökutæki sem eitthvað er að ekki skráð. Verður þá að senda þau aftur á lista næsta dags eða láta skrá þau með hefðbundnum hætti í þjónustuveri (þ.e. framvísa nýskráningargögnum).

Nýskráningargögn: Nýskráningargögn vegna ökutækja sem skráð eru eftir listum verða að berast sama dag og skráning eftir listum er framkvæmd. Ef gögnin berast ekki innan sama dags er skráningin felld niður.

Önnur skilyrði: Að öðru leyti gilda almenn skilyrði um nýskráningu sbr. skjal 1.3 Nýskráning.


Var efnið hjálplegt? Nei