1.4 Afskráning ökutækja

Útg.nr: 05           Útg.dags: 04.11.2010

Heimild til afskráningar: Heimilt er að afskrá ökutæki ef ólíklegt þykir að það verði tekið í notkun á ný hér á landi.

Afskráningarbeiðni: Framvísa skal afskráningarbeiðni ( US.109 ). Tilgreina skal fastanúmer ökutækis, nafn og kennitölu eiganda, dagsetningu og ástæðu afskráningar. Nánar er fjallað um afskráningarástæðurnar hér að neðan.

Afskráning eiganda - undirritun afskráningarbeiðni: Meginreglan er sú að skráður eigandi (aðaleigandi eða meðeigandi) skal sjálfur undirrita afskráningarbeiðni. Foreldrum ófjárráða barna er þó heimilt að undirrita beiðni fyrir þeirra hönd. Framkvæmdastjóra og prókúruhafa er heimilt að undirrita beiðni fyrir hönd fyrirtækis. Ef skráður eigandi er látinn getur maki eða erfingjar óskað afskráningar en með afskráningarbeiðni skal framvísa búsetuleyfi, einkaskiptaleyfi eða eignaskiptagerð (skjölin verða að vera staðfest af sýslumanni). Sýslumaður getur undirritað beiðni um afskráningu eða veitt erfingjum sérstaka heimild til afskráningar. Ef aðrir en ofangreindir aðilar undirrita beiðni skal umboð fylgja með.

[ Umboð: Í umboði skal koma fram efni umboðs, fastanúmer ökutækis, nafn og kennitala umboðsmanns, undirritun umbjóðanda og tveir vitundarvottar. Umbjóðandi, umboðsmaður og vitundarvottar skulu vera orðnir 18 ára. Umboð getur einnig komið fram í einkaskiptaleyfi erfingja og er það þá staðfest af sýslumanni.]

Afskráning Umferðarstofu - án samþykkis eiganda: Samgöngustofu er heimilt að afskrá ökutæki án samþykkis eiganda [ef staðfest er af þar til bærum aðila að skilyrði til afskráningar hafi verið uppfyllt.] 2 Skilyrðum afskráningar af hálfu Samgöngustofu er nánar lýst í köflum um ástæður afskráningar. [Áður en ökutæki er afskráð án samþykkis eiganda skal gefa honum mánaðar frest til að mótmæla afskráningunni.] 2

Ástæða afskráningar: Á afskráningarbeiðni skal alltaf tilgreina ástæðu afskráningar. Ástæða afskráningar getur verið Úrvinnsla, Týnt, Úr landi, [Ónýtt] 2 eða Fornökutæki.

Afskráð til úrvinnslu: Þegar óskað er afskráningar vegna úrvinnslu verður að framvísa skilavottorði frá viðurkenndri söfnunarstöð. Ef Samgöngustofa afskráir ökutæki samkvæmt þessari ástæðu án samþykkis eiganda skal að auki liggja fyrir staðfesting frá þar til bærum aðila um að ökutækið uppfylli ekki settar reglur um öryggisbúnað og vart sé talið mögulegt að koma því í lögmælt ástand. Að auki skal liggja fyrir staðfesting á því að skráðum eiganda hafi verið tilkynnt um fyrirhugaða afskráningu með minnst mánaðar fyrirvara. Staðfesting á því að ökutæki uppfylli ekki reglur um öryggisbúnað skal almennt koma frá skoðunarstofu, tryggingafélagi eða viðurkenndu verkstæði (sjá kafla um leiðréttingu á afskráningarástæðu). Heimilt er að afskrá ökutæki til úrvinnslu ef afskráningarbeiðni fylgir yfirlýsing frá viðurkenndu slökkviliði þar sem því er lýst yfir að ökutækið verði notað við æfingar og flakinu skilað til úrvinnslustöðvar að lokinni æfingu.

Skilagjald vegna úrvinnslu: Ef bifreið hefur verið afskráð vegna úrvinnslu er skilagjald greitt til eiganda. Skilagjald er aðeins greitt af bifreiðum sem voru nýskráðar hér á landi eftir 1. janúar 1980. Skilagjaldið er að fjárhæð kr. 20.000 en frá því dragast gjöld sem hvíla á bifreiðinni samkvæmt upplýsingum frá ríkisbókhaldi. Skilagjaldið má aðeins greiðast skráðum eiganda eða meðeiganda. Við afskráninguna skal tilgreina reikningsnúmer í eigu skráðs eiganda eða meðeiganda og er skilagjaldið lagt inn á þann reikning.

Afskráð úr landi: Eigandi getur afskráð ökutæki sem verður flutt úr landi [ef hann framvísar staðfestingu á flutningi úr landi frá flutningsaðila eða tollstjóra. Samgöngustofa afskráir ökutæki ef staðfest er af þar til bærum aðila að það hafi hlotið skráningu í öðru landi.] 2 Samgöngustofa hefur heimild til að afskrá ökutæki [úr landi] 2 án samþykkis eiganda ef flutningur úr landi er staðfestur af þar til bærum aðila.

[ Álestur við afskráningu: Eiganda ökutækis er skylt að láta framkvæma álestur af ökurita ökutækis, sé slíkur búnaður fyrir hendi í ökutækinu, áður en afskráning á sér stað.] 4

Afskráð týnt: Eiganda er heimilt að afskrá ökutæki sem er týnt [...] 2 , [sé það staðfest af þar til bærum aðila.] 3 [Athugið að óheimilt er að hafa eigendaskipti að ökutæki sem afskráð hefur verið týnt, nema farið sé með það í endurskráningu fyrst. Þó er tryggingafélagi heimilt að hafa eigendaskipti að ökutæki yfir á sjálft sig þegar trygging hefur verið greidd út. ] 5

[ Afskráð ónýtt: Eiganda er heimilt að afskrá ökutæki sem var skráð úr umferð fyrir 1. júlí 2003 gegn yfirlýsingu um að ökutækinu hafi verið fargað en ekki unnt að fá útgefið skilavottorð.] 2

Afskráð fornökutæki: Eigenda er heimilt að afskrá ökutæki sem náð hefur 25 ára aldri, miðað við árgerð eða fyrstu skráningu ef því er lýst yfir að ökutækið verði varðveitt sem safngripur (sjá yfirlýsingu á afskráningarbeiðni).

Leiðrétting á afskráningu: Ef bifreið hefur verið afskráð af annarri ástæðu en vegna úrvinnslu er heimilt að breyta afskráningarástæðunni í "Úrvinnsla" ef framvísað er skilavottorði frá viðurkenndri söfnunarstöð.

Skráningarmerki: Við afskráningu skal skila inn skráningarmerkjum ökutækis og þeim fargað. Undanþágur frá þessari reglu eru ef merkin hafa glatast (sjá yfirlýsingu þess efnis), hafa verið flutt úr landi með ökutæki eða merkin eru skráð innlögð. Við afskráningu skal tilgreina afdrif skráningarmerkja.

Móttökukvittun: Á afskráningarbeiðni skal tilgreina móttökuaðila (Samgöngustofa eða skoðunarstofa), dagsetningu móttöku og upphafsstafi starfsmanns.

Dagsetning afskráningar: Afskráningardagsetning skal vera sú sama og móttökudagsetning afskráningarbeiðni hjá Samgöngustofu eða umboðsaðila hennar. Ef móttökudagsetning umboðsaðila er ekki skráð og staðfest skal miða við móttökudag hjá Samgöngustofu. Þegar staðfesting berst á skráningu ökutækis í öðru landi er heimilt að afskrá ökutæki frá og með skráningardegi erlendis.

Opinber gjöld: Ökutæki er afskráð þótt á því hvíli opinber gjöld enda falla gjöld ekki niður við afskráningu.

Álestur ökumælis: Ef ökutæki er með ökumæli vegna þungaskatts skal benda viðskiptavini á að láta lesa af ökumælinum, fylla út eyðublað ( RSK 10.33 ) og senda til RSK. Ef ekki er lesið af ökumæli við afskráningu áætlar RSK þungaskatt við næstu álagningu.

2) 15.09.2006
3) 10.01.2008
4) 16.06.2009
5) 04.11.2010


Var efnið hjálplegt? Nei