1.6 Breytingaskráning

Útg.nr: 05           Útg.dags: 04.03.2016

Skilgreining breytingar: Breyta þarf skráningu ökutækis ef búnaður þess er ekki lengur í samræmi við skráðan ökutækisflokk, hafi ökutækinu eða notkun þess verið breytt frá því sem tilgreint er í [ökutækjaskrá] 5 eða á ökutækið hefur verið festur búnaður sem kallar á breytta skráningu.

Skoðun - skilyrði breytingar: Ef breyting verður á ökutæki þarf að færa það til breytingaskoðunar hjá skoðunarstofu innan 7 daga frá breytingu. Að auki ber skoðunarstofu að fylgjast með breytingum er kunna að hafa orðið á ökutæki við aðalskoðun og skráningarskoðun.

[ Ökutækisflokkur: Ökutæki sem flutt er á milli ökutækisflokka skal uppfylla öll skilyrði hins nýja ökutækisflokks. Áður en breyting er skráð skal framvísa gögnum[þ.m.t. gögnum um greiðslu opinberra gjalda,] 3) er staðfesta að ökutækið uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til hins nýja ökutækisflokks á þeim degi er ökutæki er fært til breytingaskoðunar.] 2)

Breyting á notkunarflokki án skoðunar: Heimilt er að skrá breytingar á notkunarflokkum sem ekki fela í sér breytingu á ökutæki eða búnaði þess án skoðunar á skoðunarstofu. Þannig má skrá ökutæki í notkunarflokkana Bílaleiga, Fornbifreið og Námubifreið án sérstakrar skoðunar ( US.115 ). Einnig má skrá bifreið í notkunarflokkinn Vsk-bifreið án skoðunar ef það kemur fram í gerðarlýsingu hennar að hún uppfylli vsk-kröfur. Þegar ökutæki er flutt á milli notkunarflokka þarf að gæta þess að skráningarmerki beri réttan skoðunarmiða. Sjá nánar um notkunarflokka ( 1.9.3 ).

Eigin þyngd: Heimilt er að skrá breytingu á skráðri eigin þyngd ökutækis í framhaldi af breytingaskoðun þar sem vigtarseðli hefur verið framvísað. Lækkun á eigin þyngd má þó ekki skrá nema með sérstöku samþykki Samgöngustofu. [Ekki þarf að skrá breytingu á eigin þyngd bifreiðar með heildarþyngd undir 3500 kg ef þyngdarbreyting er undir 50 kg.]

Hámarksþyngd eftirvagns: Við ákvörðun á þeirri þyngd eftirvagns sem ökutæki má draga skal miða við þá þyngd sem er lægri af eftirfarandi tveimur þyngdum: 1) þeirri þyngd sem ökutæki má draga og 2) þeirri þyngd sem tengibúnaður má draga. Á mörgum gerðum af innfluttum tengibúnaði fyrir bifreiðar er ekki skráð sú þyngd sem tengibúnaður, þ.e. ökutæki, má draga heldur er svokallað D-gildi skráð. Þetta gildi þarf að nota við útreikning á þeirri þyngd sem má draga samkvæmt eftirfarandi formúlu.
(Hþ X D) : (Hþ - D) = Leyfð þyngd eftirvagns.
Hþ = leyfð heildarþyngd bifreiðar
D = D- gildi í daN

Breyting við nýskráningu/endurskráningu: Ef ökutæki fer í breytingaskoðun fyrir nýskráningu eða endurskráningu og breyting verður á eigin þyngd, ökutæki breytist í sendibifreið eða ökutæki uppfyllir vsk-kröfur skal tilgreina upplýsingar um breytinguna í skráningarbeiðni. Skráningaraðili skal skrá þessar breytingar en senda að því loknu afrit af skráningarbeiðninni á umsjónaraðila breytingaskráninga á netfangið breyting@samgongustofa.is . Umsjónaraðili breytingaskráninga skal ganga úr skugga um að rétt gögn berist Samgöngustofu.

Leiðrétting: Ef í ljós kemur að upplýsingar um ökutæki eru rangt skráðar í ökutækjaskrá ber skoðunarstofu að tilkynna Samgöngustofu um leiðréttingu á skráningu ökutækis.

[Skráning tengibúnaðar: Tilkynna skal framleiðanda tengibúnaðar, sé færanlegur tengibúnaður samsettur úr hlutum frá fleiri en einum framleiðanda. Skoðunarstofu ber að tilkynna um þá alla. ] 4)

[Skráning þyngdar á tengibúnað: Skoðunarstofa skal tilkynna um mestu leyfðu heildarþyngd sem tengibúnaður má draga og eru þær upplýsingar fengnar af tengibúnaðinum sjálfum (frá framleiðanda hans). Ef tengibúnaður er samsettur úr mörgum hlutum (jafnvel frá fleiri en einum framleiðanda) er lægsta þyngdin notuð (veikasti hlekkurinn). Þyngdina ber að gefa upp í kg eða sem D-gildi.
Um kúlutengi gildir það sérákvæði að það má aldrei draga meira en 3500 kg og því má ekki tilkynna um meiri þyngd (jafnvel þótt framleiðandi þess gefi hærra gildi). Jafnframt gildir að gefi framleiðandi færanlegs tengibúnaðar upp fleiri en eitt gildi, t.d. merkt "Weight Distributing" og "Weight Carrying", á þeim hluta búnaðarins sem er varanlega festur við bílinn ber að nota lægsta gildið, nema til staðar sé færanlegur hluti sem má draga meira samkvæmt upplýsingum framleiðanda, þá er sú tala notuð (en þó ekki hærra en hæsta gildið, og aldrei hærra en 3500 kg). ] 4)

Gerðarviðurkenndur tengibúnaður: Ef ökutæki ber gerðarviðurkenndan tengibúnað er heimilt að skrá hann án skoðunar ef beiðni berst frá viðurkenndum fulltrúa C ( US.112 ). Í beiðni skal koma yfirlýsing fulltrúa um að tengibúnaðurinn sé í samræmi við tilgreinda gerðarviðurkenningu.

Tengibúnaður af ökutæki: Það telst vera breyting á ökutæki þegar tengibúnaður hefur verið fjarlægður af bifreið. Færa skal ökutækið til skoðunar á skoðunarstofu sem skal tilkynna um breytinguna til Samgöngustofu. Breytingin er skráð í ökutækjaskrá [...] 5.

Tilkynning breytinga og leiðréttinga: Skoðunarstofu ber að tilkynna Samgöngustofu um allar breytingar er verða á ökutæki og koma í ljós við breytingaskoðun, aðalskoðun eða endurskoðun. Einnig ber að tilkynna Samgöngustofu um leiðréttingu vegna rangra upplýsinga í ökutækjaskrá. Breytingar og leiðréttingar ber að tilkynna á eyðublaðinu US.111.

Mat á breytingu og leiðréttingu: Starfsmaður Samgöngustofu metur hvort um er að ræða breytingu eða leiðréttingu. Ef mat Samgöngustofu á því hvort um er að ræða breytingu eða leiðréttingu er ekki í samræmi við tilkynningu skoðunarstofunnar ber að tilkynna skoðunarstofunni um það.

Dagsetning skráningar: Dagsetning breytinga miðast við skráningardag í ökutækjaskrá.

[...] 5

Gjald fyrir skráningu á breytingu: Fyrir hverja breytingaskráningu skal greiða gjald samkvæmt gjaldskrá. Ekki þarf að greiða fyrir leiðréttingar.

2) 27.05.2004
3) 17.08.2007
4) 24.09.2007
5) 04.03.2016


Var efnið hjálplegt? Nei