1.7.1 Skráning úr umferð
1.7.1 Skráning úr umferð
Skráning úr umferð: Eigandi og umráðamaður ökutækis geta óskað eftir því að það verði tímabundið skráð úr umferð með því að afhenda skráningarmerki ökutækisins. Ef ökutæki ber tvö skráningarmerki skal afhenda þau bæði.
Notkun óheimil: Óheimilt er að nota ökutæki sem hefur verið skráð úr umferð í ökutækjaskrá. Bann við notkun ökutækis miðast við móttöku beiðni um skráningu úr umferð.
Beiðni um skráningu: Framvísa skal beiðni um skráningu úr umferð (US.159) hjá Samgöngustofu eða á skoðunarstofu og skal hún vera undirrituð af eiganda, meðeiganda eða umráðamanni ökutækis (aðrir þurfa umboð).
Dagsetning skráningar: Dagsetning skráningar úr umferð miðast við móttökudag tilkynningar hjá Samgöngustofu eða skoðunarstofu. Óheimilt er að skrá ökutæki úr umferð aftur í tímann nema gegn staðfestri kvittun, sambærilegri sönnun á móttöku tilkynningar um skráningu úr umferð eða skráningarmerkja hjá Samgöngustofu eða skoðunarstofu.
Skráningarmerki eða miði: Þegar ökutæki er skráð úr umferð skal annaðhvort taka skráningarmerki af ökutækinu og afhenda Samgöngustofu eða skoðunarstofu eða setja miða með áletruninni "Notkun bönnuð" yfir skoðunarmiða á skráningarmerki. Ef ökutæki ber eldri gerð skráningarmerkja skal setja miða í framrúðu ökutækisins í stað skoðunarmiða. Bann við notkun ökutækis miðast við móttöku á beiðni um skráningu úr umferð, óháð því hvenær miði er límdur á skráningarmerki eða rúðu ökutækis. Nánar er fjallað um innlögn skráningarmerkja í kafla 3.5.
[ Athugið: Hafa skal í huga þegar ökutæki er skráð úr umferð með miða að ekki er tryggt að bifreiðagjöld og tryggingar falli niður líkt og þegar númer eru lögð inn. Þá er lögreglu heimilt að klippa skráningarmerki af ökutækjum sem skráð eru úr umferð með miða sem standa á lóðum við almannafæri, á götum og í almennum bifreiðastæðum. Ökutæki sem skráð er úr umferð með miða er eins ástatt og ökutæki sem er án skráningarmerkja. ] 1)
Innlögn á einu merki: Ekki er leyfilegt að leggja inn eitt skráningarmerki. Hafi merki glatast skal panta og greiða fyrir nýtt skráningarmerki. Þegar merki kemur úr framleiðslu er unnt að leggja bæði merkin inn (ekki má taka við einu merki meðan hitt er í framleiðslu). Ef lagt er inn eitt skráningarmerki af eldri gerð er því hent og skal þá panta tvö ný skráningarmerki. Þegar nýju merkin koma úr framleiðslu eru þau skráð í innlögn. Ef merkjum er skilað inn af lögreglu eða tryggingafélagi er heimilt að skrá úr umferð þrátt fyrir að aðeins einni plötu hafi verið skilað.
Förgun merkja: Skráningarmerki eru geymd í eitt ár en að þeim tíma liðnum er heimilt að farga þeim. Á kvittun sem afhent er við móttöku merkja kemur fram athugasemd um að merkjunum verði fargað eftir ár í geymslu. Einungis eigandi, meðeigandi eða umráðamaður að ökutæki getur tekið merki úr geymslu.
Beiðni með pósti eða myndsendi. Hægt er að senda beiðni um skráningu úr umferð með pósti (með eða án skráningarmerkja). Ef óskað er eftir afhendingu á miða er einnig hægt að senda beiðnina með myndsendi og er hann þá sendur í pósti að lokinni skráningu ökutækisins úr umferð og skal hann límdur á skráningarmerki eða í framrúðu ökutækis. Óheimilt er að nota ökutækið frá móttöku beiðni um skráningu úr umferð hjá Samgöngustofu eða skoðunarstofu, óháð því hvenær miðinn er límdur á skráningarmerki.
Ástæða skráningar úr umferð: Nauðsynlegt er að skrá ástæðu þess að ökutæki er skráð úr umferð. Ef eigandi (umráðamaður) óskar eftir skráningu úr umferð og leggur inn skráningarmerki skal ástæðan vera "Úr umferð (innlögn)" en ef afhentur er miði skal hún vera "Úr umferð (miði)". Ef ökutæki er skráð tjónabifreið skal ástæðan vera "Úr umferð vegna tjóns" (óheimilt er að skrá úr umferð vegna tjóns nema ökutæki sé skráð tjónabifreið). Ef skráningarmerki ökutækis hafa verið afklippt af lögreglu skal tilgreina þá afklippingarástæðu sem við á í samræmi við upplýsingar frá lögreglu.
Gjaldtaka: Við móttöku á beiðni eiganda (umráðamanns) um skráningu úr umferð er innheimt gjald samkvæmt gjaldskrá Samgöngustofu. Ef beiðnin er send í pósti skal leggja gjaldið inn á reikning Samgöngustofu eða gefa upp greiðslukortanúmer. Ef beiðni hefur borist í pósti eða á myndsendi og gjald er ekki greitt er samt sem áður heimilt að skrá ökutækið úr umferð en gjaldið er þá innheimt þegar ökutækið er skráð í umferð að nýju. Ekki er innheimt gjald fyrir skráningu úr umferð ef skráningarmerki eru afklippt af lögreglu eða ef ökutæki er skráð úr umferð vegna tjóns og skráð sem tjónabifreið.
Kvittun: Að lokinni skráningu úr umferð skal afhenda eða senda kvittun fyrir greiddu gjaldi. Á kvittun skal koma fram að eigandi, meðeigandi eða umráðamaður verði að framvísa beiðni um að ökutæki verði skráð í umferð á ný. Ef skráningarmerki voru lögð inn skal einnig koma fram að merkjunum verði fargað eftir eitt ár í innlögn.
Afklipping lögreglu: Lögregla skal taka skráningarmerki af ökutæki ef tiltekin skilyrði eru fyrir hendi og tilkynna samdægurs til Samgöngustofu eða skoðunarstofu um bann við notkun ökutækis. Ef skoðunarstofa fær tilkynningu frá lögreglu um bann við notkun (afklippingu) skal hún samdægurs senda Samgöngustofu tilkynningu þess efnis. Lögreglan afhendir skráningarmerki ásamt upplýsingum um ástæðu afklippingar og er ástæðan skráð í ökutækjaskrá um leið og ökutæki er skráð úr umferð. Ef ástæða afklippingar er fleiri en ein og ein af ástæðunum er skoðun skal skrá merkin afklippt vegna skoðunar.
[ Athugið: Afhendi lögregla plötu/plötur sem klipptar hafa verið af ökutæki sem þegar hefur verið skráð úr umferð skal ógilda umferðarskráninguna. Fyrri skráningu úr umferð er eytt og ökutækið skráð úr umferð frá því að afklippta platan/plöturnar berast. ] 2 )
Tjónabifreið: Ef skráningarmerki tjónabifreiða eru afhent til geymslu skal skrá bifreiðina úr umferð v/tjóns. Aðeins skal skrá ástæðuna "úr umferð v/tjóns" ef bifreið er skráð sem tjónabifreið. Ekki skal innheimt geymslugjald við innlögn skráningarmerkja ef bifreið er skráð sem tjónabifreið. Ef bifreið hefur lent í tjóni en er ekki skráð sem tjónabifreið skal skrá ökutæki úr umferð að beiðni eiganda eða tryggingafélags (innlögn). Innheimta skal geymslugjald en hafi skráningarmerkjum verið skilað inn af lögreglu skal skrá merkin "afklippt v/vanbúnaðar" og ekki innheimta geymslugjald. Berist tilkynning um tjónabifreið eftir að skráningarmerki hafa verið lögð inn skal breyta ástæðu skráningar úr umferð í "úr umferð v/tjóns".
Dísel ökutæki með ökumæli: Ef ökutæki er með ökumæli er nauðsynlegt að lesa af mæli við skráningu úr umferð og tilkynna álestur til RSK (sjá eyðublað Ríkisskattstjóra).
Umboðsaðilar: Skoðunarstofur og umboðsmenn skulu samdægurs tilkynna Samgöngustofu um allar beiðnir er þeim berast um skráningu úr umferð. Tilgreina skal ástæðu skráningar úr umferð og kennitölu þess er óskar eftir skráningu úr umferð (ef annar en eigandi eða umráðamaður þarf að staðfesta sérstaklega móttöku á umboði).
1) 21.05.2010
2) 10.10.2012