1.7.2 Skráning í umferð

Útg.nr: 3           Útg.dags: 20.04.2005

Skráning í umferð: Eigandi eða umráðamaður ökutækis sem skráð hefur verið tímabundið úr umferð getur óskað eftir því að það verði skráð í umferð á ný.

Bann við notkun: Óheimilt er að nota ökutæki sem hefur verið skráð úr umferð fyrr en það er skráð í umferð að nýju og skráningarmerki hafa verið sett aftur á það eða skoðunarmiði. Skoðunarmiði skal vera í samræmi við gilda skoðun ökutækisins og settur yfir miða um að notkun þess sé bönnuð.

Beiðni um skráningu: Framvísa skal beiðni um skráningu í umferð (US.160) hjá Samgöngustofu eða skoðunarstofu og skal hún vera undirrituð af eiganda, meðeiganda eða umráðamanni ökutækis. Ef aðrir en ofangreindir aðilar undirrita beiðni skal umboð fylgja með.  

Umboð: Í umboði skal koma fram efni umboðs, fastanúmer ökutækis, nafn og kennitala umboðsmanns, undirritun umbjóðanda og tveir vitundarvottar. Umbjóðandi, umboðsmaður og vitundarvottar skulu allir að vera orðnir 18 ára.  

Skráningarmerki eða miði: Að lokinni skráningu ökutækis í umferð skal afhenda skráningarmerki ökutækisins eða skoðunarmiða sem er í samræmi við skoðun ökutækisins. Óheimilt er að nota ökutækið fyrr en skráningarmerki hafa verið sett aftur á það eða skoðunarmiði hefur verið settur yfir miða um að notkun þess sé bönnuð. Ef beiðni um skráningu í umferð berst með pósti skal senda eiganda/umráðamanni skráningarmerki ökutækis eða nýjan skoðunarmiða, viðtakandi greiðir sjálfur kostnað við sendingu skráningarmerkja.

Dagsetning skráningar: Dagsetning skráningar í umferð miðast við móttökudag beiðni um skráningu í umferð hjá Samgöngustofu eða skoðunarstofu séu öll skilyrði skráningar uppfyllt.

Staðfesting á tryggingu: Áður en ökutæki er skráð í umferð þarf að liggja fyrir staðfesting á vátryggingu ökutækisins. Nægilegt er að það komi fram í ökutækjaskrá að ökutæki sé tryggt en annars þarf að framvísa sérstakri staðfestingu frá tryggingafélagi.

Staða skoðunar: Áður en ökutæki er skráð í umferð þarf að ganga úr skugga um að það hafi gilda aðalskoðun og að skráningarmerki beri skoðunarmiða í samræmi við síðustu skoðun. Athugið þó heimild til að veita akstursheimild í næsta lið.

Akstursheimild: Ef ökutæki hefur ekki gilda aðalskoðun er heimilt að veita viku frest til að færa það til skoðunar. Þetta er þó ekki heimilt ef skráningarmerki voru afklippt vegna vanbúnaðar eða skoðunar. Þegar veittur er frestur til skoðunar skal eigandi/umráðamaður undirrita yfirlýsingu um að hann telji ökutækið í lögmætu ástandi og hæft til skoðunar og að það verði fært til skoðunar innan viku. Starfsmaður Umferðarstofu eða umboðsaðila staðfestir akstursheimildina með dagsetningu, undirritun og stimpli Samgöngustofu og skráir í ökutækjaskrá (dagbók) að akstursheimild hafi verið gefin út. Akstursheimildin skal ávallt vera sýnileg í ökutækinu (í glugga).

Greiðsla opinberra gjalda: Áður en heimilt er að skrá ökutæki í umferð þarf að greiða áhvílandi bifreiðagjöld og þungaskatt og að auki áætluð gjöld fyrir það sem eftir stendur af gjaldtímabili. Ef beiðni hefur borist með pósti er unnt að leggja inn á reikning Samgöngustofu og er kvittun þá send með skráningarmerkjum eða miða.

Álestur: Ef ökutæki greiðir þungaskatt skv. ökumæli og ekki hefur verið lesið af ökutæki við eða eftir innlögn skráningarmerkja skal framkvæma álestur og greiða þungaskatt samkvæmt þeim álestri ef komið er fram yfir álestrartímabil (ný gjaldtímabil hefjast 11. febrúar, 11. júní og 11. október).

Gjald fyrir skráningu: Almennt þarf ekki að greiða gjald fyrir skráningu úr umferð við skráningu í umferð en gjaldið er innheimt við skráningu úr umferð. Ef beiðni um skráningu hefur verið send með pósti eða myndsendi og geymslugjaldið ekki greitt við skráningu úr umferð skal innheimta gjaldið við skráningu í umferð. Í þessum tilvikum á að vera miði á skráningarmerkjum um að gjaldið skuli innheimt og einnig á að vera skráð athugasemd í dagbók um geymslugjaldið. Ef beiðni hefur borist með pósti er unnt að leggja inn á reikning Samgöngustofu og er kvittun þá send með skráningarmerkjum eða miða.

[Afklipping lögreglu - skilyrði skráningar í umferð: Til að skrá ökutæki í umferð sem hefur verið skráð úr umferð vegna afklippingar lögreglu þarf í öllum tilfellum að sýna fram á staðfesta vátryggingu ökutækis, nóg er að trygging komi fram í ökutækjaskrá, og greiða öll áhvílandi og áætluð opinber gjöld. Ef ökutæki er komið fram yfir skoðun skal afhenda tímabundna akstursheimild og ökutæki skal fært til skoðunar innan viku frá skráningu í umferð.

Ásamt þessum föstu skilyrðum þarf í eftirfarandi tilfellum einnig að uppfylla ákveðnar kröfur til að hægt sé að skrá ökutæki í umferð:

  • Ef klippt var af vegna skoðunar eða vanbúnaðar þarf að færa ökutæki til aðalskoðunar (óheimilt er að veita akstursheimild í þessum tilvikum). 
  • Ef klippt var af vegna eigendaskipta skal framvísa eigendaskiptatilkynningu. ]

Tjónabifreið: Óheimilt er að skrá ökutæki í umferð ef það er skráð sem tjónabifreið. Áður en heimilt er að skrá það í umferð verður að fella niður tjónaskráningu eða breyta henni í "viðgerð tjónabifreið".  Ef tilkynning um skráningu í umferð berst með tölvupósti er nægilegt að tilgreint sé í athugasemdum beiðninnar að vottorð um viðgerð liggi fyrir en nauðsynlegt er að tilgreina þá sem gefa út og undirrita vottorðin. Ef tilgreint er vottorð um viðgerð frá viðurkenndu réttingaverkstæði (US.358) skal ógilda athugasemdina "tjónabifreið". Ef tilgreind eru skoðunarstaðfesting, hjólastöðu- og/eða burðarvirkisvottorð (US.355) skal ógilda athugasemdina "tjónabifreið" og skrá athugasemdina "viðgerð tjónabifreið". Ef skráningaraðili breytir tjónaskráningu skal senda afrit af skráningarbeiðninni til umsjónaraðila tjónaskráninga á netfangið tjon@us.is. Ef gögn hafa borist í afgreiðslu skal skila þeim til umsjónaraðila.

Úttekt og afhending samtímis: Hafi ný skráningarmerki verið pöntuð á ökutæki sem er skráð úr umferð og með skráningarmerki í geymslu má ekki afhenda nýju merkin nema ökutækið sé um leið skráð í umferð. Gömlu merkjunum skal fargað.

Umboðsaðilar: Skoðunarstofur og umboðsaðilar Samgöngustofu skulu samdægurs tilkynna Samgöngustofu um allar beiðnir um skráningu í umferð er þeim berast. Nauðsynlegt er að tilgreina kennitölu þess er óskar eftir skráningu (ef um annan en eiganda eða umráðamann er að ræða þarf að staðfesta móttöku á umboði).


Var efnið hjálplegt? Nei