1.9.9.3 Endurmat tjónabifreiða

Útg.nr: 1           Útg.dags: 31.05.2005

Endurmat á tjónabifreið getur eingöngu farið fram áður en viðgerð hefst.

Markmið: Markmiðið er að kanna hvort tjón bifreiðar getur haft áhrif á aksturseiginleika hennar og akstursöryggi. Tjón telst geta haft þessi áhrif ef burðarvirki og/eða hjólabúnaður hefur skemmst með ákveðnum hætti. Burðarvirki er sá hluti bifreiðar sem tengir saman hjólabúnað hennar sem þýðir að skemmdir á burðarvirki geta haft áhrif á hjólastöðu hennar.

Burðarvirki bifreiðar: Til burðarvirkis bifreiðar heyrir sjálfberandi yfirbygging, grind þar sem það á við, öryggisbúr farþega og burðar- og öryggisbitar.

Burðarvirki bifreiðar með sjálfberandi yfirbyggingu: Hér er það sjálf yfirbyggingin sem er burðarvirkið. Ákveðnir hlutar yfirbyggingarinnar eiga þó stærri hlut að máli en aðrir. Þau atriði sem tilheyra burðarvirkinu eru skemmdir á hjólafestingum og meginbitum yfirbyggingar milli hjóla. Afmarkaðar skemmdir framan við framhjólafestingar og aftan við afturhjólafestingar valda því ekki burðarvirkisskemmdum.

Framtjón: Við framtjón taka grindarbitar við álaginu og leiða það aftur eftir bílnum. Lítið tjón veldur eingöngu skemmdum fyrir framan hjólafestingar en stærra tjón getur valdið skekkju á burðarvirki, tjóni á festingum og burðarvirki þar fyrir aftan. Bifreið telst tjónabifreið ef skemmdir eru á hjólafestingum og þar fyrir aftan. Ef vafi leikur á hvort bifreið sé tjónabifreið er best að horfa eftir sprungnu lakki og sprungum í samsetningum á grindarbitum og upp við hvalbak. Athuga ber að framhluti bifreiða aftur að vélar- eða hjólafestingum og afturhluti fram að hjólafestingum er nú síðari ár krumpusvæði og ætlast til að beyglist til að dempa högg við árekstur.

Hliðartjón: Við hliðartjón taka síls og hurðarstafir við álaginu. Þessir hlutir tilheyra burðarvirkinu en þess ber þó að gæta að mjög gjarnan eru hlífar utan við sjálfan burðarbitann. Erfitt getur verið að sjá þetta enda eru hlífarnar mjög gjarnan sambyggðar bitanum. Nái skemmd inn í bitann er um tjónabifreið að ræða en annars ekki.

Afturtjón: Í slíkum tilfellum taka langbitarnir við álaginu ásamt þverbitanum á milli þeirra. Nái skemmdin að hjólafestingum eða fram fyrir þær er um tjónabifreið að ræða. Í vafa er best að horfa eftir sprungum í lakki og sprungum í samsetningum.

Almennt og annað tjón: Annað tjón getur verið velta og högg víðsvegar á yfirbyggingu. Þegar slíkar skemmdir eru á burðarbitunum sjálfum er um tjónabifreið að ræða. Eingöngu skemmdir á hlífum og þekjandi málmflötum yfirbyggingar á milli burðarbita, s.s. á þaki, gólfi, brettum, o.s.frv., þýða að bifreið er ekki tjónabifreið.

Þegar sýnileg merki eru um snúning á yfirbyggingu er um tjónabifreið að ræða. Misfellur í götum fyrir framrúðu og hurðir gefa vísbendingu um slíkt tjón. Þverbrot í þaki (burðarbita í þaki) er öruggt merki um skekkju í burðarvirki (brotið er oft sýnilegt ofan við aftari framhurðarstaf) og veldur slíkt tjónaskráningu. Hafa ber þó í huga að skemmdir vegna smávægilegra högga á yfirbygginguna á þessum stöðum valda ekki tjónaskráningu.

Burðarvirki bifreiðar með yfirbyggingu á grind: Hér er það grindin sem er burðarvirkið og hvílir yfirbyggingin á grindinni þ.e. hægt er að fjarlægja yfirbygginguna frá grindinni. Miklar skemmdir geta verið á yfirbyggingunni án þess að það hafi áhrif á burðarvirkið (grindina) en alltaf er hætta á að slíkar skemmdir valdi snúningi á grindinni.

Framtjón: Við framtjón taka grindarbitarnir mjög gjarnan við álaginu en stundum kemur yfirbyggingin þar fyrir framan og tekur þar af leiðandi við högginu. Allt slíkt álag leiðir þó alltaf  í grindina og því verður að skoða festingar grindar og yfirbyggingar vel. Tjón sem einskorðast við grindina fyrir framan hjólafestingar veldur ekki tjónaskráningu. Best er að meta skemmdir á framanverðri grindinni með því að leita eftir sprungum í lakki, ryðvörn og samsetningum.

Hliðartjón: Við hliðartjón tekur yfirbyggingin yfirleitt við álaginu og leiðir það svo niður í festingar yfirbyggingarinnar við grindina. Þessar festingar verður því að skoða vel og sérstaklega verður að hafa í huga að slíkt tjón gæti valdið snúningi á grindinni og því þarf að skoða alla grindina m.t.t. skemmda. Ef högg hefur komið á sjálfa grindina er örugglega um tjónabifreið að ræða.

Afturtjón: Við afturtjón eru það yfirleitt grindarbitarnir sem taka við álaginu. Skemmdir aftan við hjólafestingar valda ekki tjónaskráningu. Skoða verður vandlega grindina og best er að horfa eftir sprungum í lakki, ryðvörn og samsetningum.

Annað tjón: Um er að ræða veltu og högg á grindina. Við veltu getur yfirbyggingin undist og beygt grindina um leið. Slíkar skemmdir, sem leiða niður í grind, valda alltaf tjónaskráningu. Högg á sjálfa grindina valda alltaf tjónaskráningu nema skemmdirnar séu fyrir framan fremri hjólafestingar eða aftan við aftari hjólafestingar.

Hjólabúnaður bifreiðar: Hjólabúnaður bifreiðar er alltaf festur við burðarvirkið. Margar útfærslur eru af festingum en það eru alltaf a.m.k. fjórar festingar við burðarvirkið. Allar festingar sem talið er að hafi orðið fyrir hnjaski í viðkomandi tjóni þarf að skoða og hafa ber í huga að högg á hjólabúnað leiðir alltaf áfram og upp í burðarvirkið. Skemmdir í festingum í burðarvirkinu valda alltaf tjónaskráningu en skemmdir í hjólabúnaðinum sjálfum, þar sem hlutir brotna eða beyglast, valda ekki tjónaskráningu. Því geta stífur, spyrnur, demparar, fjaðrir og gormar, festingar þessara hluta við ása og hjól brotnað, beyglast eða færst úr stað án þess að það valdi tjónaskráningu, svo fremi sem burðarvirkið hafi ekki orðið fyrir skemmdum. Mikilvægt er að skoða festingasvæðin vel og leita eftir sprungum í lakki, ryðvörn og þess háttar.


Var efnið hjálplegt? Nei