2.6.8 Eigendaskipti samkvæmt afsali

Útg.nr: 02           Útg.dags: 24.02.2012

Heimild til skráningar samkvæmt afsali: Heimilt er að skrá eigendaskipti á grundvelli afsals ef ekki er unnt að fá undirritun aðila með öðrum hætti t.d. vegna þess að aðili er fluttur úr landi, finnst ekki eða neitar að skrifa undir tilkynningu.

Eigendaskiptatilkynning og afsal: Ef óskað er skráningar eigendaskipta á grundvelli afsals skal leggja fram eigendaskiptatilkynningu og afrit afsals. Eigendaskiptatilkynning skal fyllt út að öðru leyti en því að undirritun annars aðilans vantar. Í afsalinu skulu koma fram upplýsingar um nafn og kennitölu beggja aðila, fastanúmer ökutækis og dagsetning kaupsamnings. Afsalið skal undirritað af báðum aðilum og vottað af tveimur vottum er rita nafn sitt og kennitölu. Ef eitthvað er tilgreint í afsalinu um afhendingar- eða eignafyrirkomulag sem mælir gegn skráningu eigendaskipta skal ekki skrá eigendaskiptin.

Gjald fyrir skráningu: Við móttöku eigendaskiptatilkynningar og afsals skal innheimta gjald fyrir skráningu eigendaskipta.

Skráning: Skráning eigendaskipta samkvæmt afsali fer fram hjá Samgöngustofu líkt og venjuleg skráning eigendaskipta.

Aðili finnst ekki eða neitar að skrifa undir: Ef sá sem ekki hefur skrifað undir er með skráð lögheimili á Íslandi skal honum sent ábyrgðarbréf þar sem gefinn er viku frestur til að mótmæla skráningu eigendaskiptanna. Eigendaskiptin eru sett í bið meðan fresturinn líður. Berist ekki mótmæli innan 7 daga frá dagsetningu bréfsins skal skrá eigendaskiptin. Berist hins vegar mótmæli skal hafna eigendaskiptatilkynningu og senda skráningarbeiðanda tilkynningu um höfnun skráningar. Með bréfinu skal senda afrit af afsali og eigendaskiptatilkynningu.

Aðili er skráður erlendis í þjóðskrá: Ef sá aðili sem ekki hefur skrifað undir er skráður erlendis í þjóðskrá er heimilt að skrá eigendaskipti strax. Prenta skal út úr þjóðskrá staðfestingu á búsetu erlendis og vista með gögnum málsins. [Ef því verður við komið, skal þó fyrst gefa viðkomandi aðila færi á að mótmæla skráningu eigendaskiptanna í samræmi við það sem að ofan greinir. ] 1

[Aðili er óskráður í hús: Ef sá aðili sem ekki hefur skrifað undir er "óskráður í hús" í þjóðskrá er heimilt að skrá eigendaskipti strax. Prenta skal út úr þjóðskrá staðfestingu á slíkri búsetu. Ef því verður við komið, skal þó fyrst gefa viðkomandi aðila færi á að mótmæla skráningu eigendaskiptanna í samræmi við það sem að ofan greinir. ] 1

Vistun gagna: Ef eigendaskipti eru skráð á grundvelli afsals skal hefta afrit af afsalinu við eigendaskiptatilkynninguna. Ef mótmæli hafa borist og eigendaskiptatilkynningu er hafnað skal vista tilkynninguna í höfnunarmöppu ásamt höfnunarbréfi.

1) 24.02.2012


Var efnið hjálplegt? Nei