3.10.10 Skammtímamerki

Útg.nr: 02           Útg.dags: 15.11.2006

Heimil notkun skammtímaskráningarmerkis: Heimilt er að nota skammtímaskráningarmerki á skráð ökutæki sem er án skráningarmerkja tímabundið, á forskráð ökutæki sem færa skal til nýskráningar og á skráningarskylt ökutæki sem hefur verið afskráð og færa skal til endurskráningar. Þetta á við í tilvikum þar sem flytja skal óskráð ökutæki milli staða í tengslum við skráningu. Þetta á við um flutning frá skipshliði að tollporti, frá tollporti að geymslustað innflytjanda, milli geymslustaða, til og frá verkstæði, til skoðunarstöðvar og til Samgöngustofu. Óheimilt er að geyma ökutæki við íbúðarhús að næturlagi en ökutækið skal geymt við starfsstöð innflytjanda eða á svæði er tengist skráningu eða undirbúningi skráningar. Hér að neðan er nánari lýsing á heimild til að nota skammtímaskráningarmerki.

Skráð ökutæki: Heimilt er að nota skammtímaskráningarmerki á skráð ökutæki sem er án skráningamerkja tímabundið. Þetta á t.d. við þegar mistök hafa orðið við pöntun merkja eða við aðrar aðstæður þar sem af óviðráðanlegum orsökum er ekki hægt að nota almenn skráningarmerki. Skráð ökutæki skulu bera hvít skammtímaskráningarmerki sbr. útlit merkja hér að neðan.

Afskráð ökutæki: Heimilt er að nota skammtímaskráningarmerki á afskráð ökutæki sem færa skal til endurskráningar. Áður en heimilt er að afhenda merkin þarf eigandi eða umráðamaður að undirrita yfirlýsingu um að ökutæki sé í lögmætu ástandi og hæft til skoðunar. Afskráð ökutæki skulu bera hvít skammtímaskráningarmerki sbr. útlit merkja hér að neðan.

Forskráð ökutæki: Heimilt er að nota skammtímaskráningarmerki á forskráð ökutæki sem færa skal til nýskráningar. Aðeins er heimilt til flytja ökutækið á milli staða vegna nýskráningar. Þetta á við um flutning frá skipshliði að tollporti, frá tollporti að geymslustað innflytjanda, milli geymslustaða, til og frá verkstæði, til skoðunarstöðvar og til Samgöngustofu. Óheimilt er að geyma ökutæki við íbúðarhús að næturlagi en ökutæki skal geymt við starfsstöð innflytjanda eða á svæði er tengist skráningu eða undirbúningi skráningar. Forskráð ökutæki skulu bera rauð skammtímaskráningarmerki sbr. útlit merkja hér að neðan.

Trygging: Áður en heimilt er að afhenda skammtímaskráningarmerki á ökutæki þarf staðfesting á tryggingu fyrir ökutækið að liggja fyrir. Nægilegt er að trygging komi fram í ökutækjaskrá.

Gjald: Við afhendingu skammtímamerkja skal greiða gjald fyrir hvern gildisdag merkjanna.

Útlit merkjanna: Skammtímaskráningarmerki eru pappamerki af stærðinni 297 x 105 mm með límmiða sem er hvítur eða rauður með merki Samgöngustofu í vatnsmerki. Á merkið er ritaður gildistími merkisins (lokadagur), fastanúmer ökutækis, verksmiðjunúmer, tegund og litur. Skráð ökutæki og afskráð ökutæki á leið til endurskráningar skulu bera hvít merki en forskráð ökutæki skulu bera rauð merki.

Skráning merkja: Áður en merki eru afhent eiganda/umráðamanni eru þau skráð á viðkomandi ökutæki. Ef merki eru afhent á skoðunarstofu skal skoðunarstofa senda tilkynningu um útgáfu og afhendingu merkjanna áður en þau eru afhent.

Ásetning merkja: Merki skulu fest á áberandi stað á ökutæki, eitt að framan og eitt að aftan.

Gildistími og förgun merkja: Að loknum gildistíma merkja er notkun þeirra óheimil og skal þeim fargað.


Var efnið hjálplegt? Nei