3.10.6 Fornmerki

Útg.nr: 10           Útg.dags: 24.08.2016


Heimild til fornmerkja

Fornbifreið:

Fornmerki mega vera á fornökutækjum sem eru með fyrsta skráningardag 31.12.1988 eða fyrr. Gerð fornmerkja skal vera í samræmi við aldur ökutækja. Bifreið skal vera skráð í notkunarflokkinn "Fornbifreið" og uppfylla skilyrði um fornbifreið ( 1.9.3).

Skilgreining á fornbifreið:

Bifreið sem ekki er ætluð til almennrar notkunar og telst vera safngripur og er orðin 25 ára gömul.

Dráttarvélar og  bifhjól:

Dráttarvélar og bifhjól sem eru með fyrsta skráningardag 31.12.1988 eða fyrr mega bera fornmerki.

Gerðir fornmerkja:

Fornmerki skulu vera í samræmi við þær reglur er giltu um hinar eldri gerðir fornmerkja (sjá gerðir fornmerkja hér að neðan).

Afgreiðsla fornmerkja

Umsókn um fornmerki:

Framvísa skal umsókn um fornmerki á fornbifreið ( US.156).

Skráning á rétthafa fornmerkis:

Samgöngustofa úthlutar áletrun á fornmerki og skráir umsækjanda sem rétthafa að áletrun í ökutækjaskrá. Við úthlutun áletrunar á fornmerki hlýtur sá réttinn sem fyrstur sækir skriflega um. Ekki er heimilt úthluta áletrun sem þegar er í notkun á skráningarmerki. Heimilt er að færa fornmerki yfir á eftirlifandi maka rétthafa á grundvelli leyfis til setu í óskiptu búi. Framvísa verður búsetuleyfi sem er staðfest af sýslumanni.

Áletrun á fornmerki:

Heimilt er að taka upp áletrun sem er samhljóða eldra skráningarmerki sem ekki er í notkun. Áletrun á fornmerki má aðeins innihalda bókstafi og tölustafi, engin tákn eru heimil t.d. punktar, kommur eða bandstrik. Eldra skráningarmerki telst ekki lengur í notkun ef ökutæki sem bar merkið hefur verið afskráð eða ökutækið er komið á fastanúmer.  Ekki er heimilt að hafa áletrun sem er 2 bókstafir og 3 tölustafir, eða 3 bókstafir og 2 tölustafir þ.e. eins og fastanúmer. Ekki er heimilt að taka upp áletrun á fornmerki sem er samhljóða áletrun á öðru skráningarmerki í notkun, hvort sem það er fornmerki, einkamerki eða eldri tegund skráningarmerkja.

Fastanúmer ökutækis:

Við umsókn um fornmerki skal tilgreina fastanúmer ökutækis sem á að bera fornmerki. Ökutæki skal uppfylla kröfur um viðkomandi gerð fornmerkja.

Fornmerki stofnað í plötugeymslu:

Fornmerki eru ekki skráð í pöntunarkerfi ökutækjaskrár og því þarf að stofna þau sérstaklega í plötugeymslu. Velja skal rétta plötugerð miðað við aldur ökutækis. Geymslustaður skal vera Samgöngustofa og plötustaða skal vera "Í geymslu".

Plötugerðir:

Þegar merki eru stofnuð í plötugeymslu skal velja rétta plötugerð miðað við aldur ökutækisins og gerð fornmerkja.

Framleiðsla merkja:

Rétthafi lætur sjálfur framleiða fornmerkin. Áður en heimilt er að afhenda fornmerki á ökutæki verður að framvísa þeim hjá Samgöngustofu þar sem metið er hvort merkin uppfylla settar kröfur. Ef merkin uppfylla kröfur um gerð fornmerkja eru þau skráð á ökutæki. Merkin eru einungis afhent á skoðunarstofu

Samþykki fornmerkja:

Áður en fornmerki eru afhent á ökutæki þarf að framvísa þeim hjá Samgöngustofu þar sem þau eru metin og samþykkt.

Afhending fornmerkja:

Áður en heimilt er að afhenda fornmerki á ökutæki skal samþykkja þau hjá Samgöngustofu. Aðeins er heimilt að skrá fornmerki á ökutæki sem uppfyllir skilyrði um fornmerki.

Almennum merkjum skilað inn:

Ef ökutæki var áður skráð á önnur skráningarmerki skal þeim skilað inn við afhendingu fornmerkja og þeim fargað.

Eldri merki sem fornmerki:

Ef skráningarmerkjum af eldri gerð er skilað inn vegna afskráningar eða þegar ökutæki fer yfir á fastanúmer, er eiganda heimilt að halda eldri merkjum sem fornmerkjum. Það er þó skilyrði að um leið sé framvísað umsókn um fornmerki á tiltekið ökutæki. Skráningarmerkin af eldri gerð eru skráð eyðilögð í ökutækjaskrá en stofnuð í plötugeymslu sem fornmerki. Að því búnu eru eiganda afhent merkin eða þau skráð á fornbifreið.

Framsal á fornmerki:

Framvísa skal eyðublaði ( US.157).

Gjald:

Fyrir skráningu, afhendingu, framsal og flutning á fornmerki skal greiða skráningargjald fornmerkja (gjaldið skal greitt fyrir hvern verklið).

Gerðir fornmerkja

Almennt:

Gerðir fornmerkja skulu vera í samræmi við þær reglur er giltu um eldri gerðir fornmerkja.

Bifreið fyrst skráð 31.12.1937 eða fyrr:  

Litur: Hvítt letur á svörtum grunni eða svart letur á hvítum grunni. Stærðir: Hæð 120 mm og lengd eftir fjölda stafa. Sjá sýnishorn á upplýsingaskjölum US.322 og US.323 .

Bifreið fyrst skráð 1.1.1938-31.12.1949:  

Merkin skulu vera rétthyrnd, aflöng spjöld, úr 2 mm þykku járni, 112 mm á hæð og lengd eftir fjölda stafa. Stafir skulu vera hvítir, málaðir eða glerjaðir með steinskrift á svartan málaðan eða gleraðan grunn og stærð stafa skal vera þessi: hæð 80 mm, breidd 50 mm og breidd strika 15 mm. Framan við tölurnar skal mála einkennisbókstaf lögsagnarumdæmis og skal vera strik á milli bókstafs og tölustafa sem er 22 mm langt og 12 mm breitt. Bil milli stafa skal vera að minnsta kosti 10 mm. Sjá sýnishorn á upplýsingaskjali ( US.324).

Bifreið fyrst skráð 1.1.1950-31.12.1988:  

Merkin skulu vera rétthyrnd, aflöng spjöld, 130 mm á hæð. Stafir skulu vera með steinskrift, þrykktir í spjaldið. Rönd skal vera á brúnum, 5 mm breið, þrykkt á sama hátt. Stafirnir og röndin skulu vera fægð og bera sama lit málmsins, en grunnur með svartri, gljálausri málningu. Stafir skulu vera 90 mm á hæð, 55 mm á breidd og breidd stafleggja 15 mm. Bil milli tölustafa skal vera 10 mm, en bil milli bókstafs og tölustafa 30 mm. Á stafi og rönd skráningarmerkis er heimilt að setja hvítt glitefni af gerð sem Samgöngustofa viðurkennir.  Sjá upplýsingaskjal ( US.325).

Létt bifhjól fyrst skráð 30.6.1970 eða fyrr:  

Merki af þessari gerð skulu vera rétthyrnd, aflöng spjöld, með rauðum stöfum á hvítum grunni. Hæð stafa skal vera 40 mm. Framan við tölurnar skal vera einkennisbókstafur lögsagnarumdæmis. 

Létt bifhjól fyrst skráð 1.7.1970-18.2.1976:  

Merki af þessari gerð skulu vera rétthyrnd, aflöng spjöld, 70 mm á hæð með hvítum stöfum á rauðum grunni. Hæð stafa skal vera 45 mm. Framan við tölurnar skal vera einkennisbókstafur lögsagnarumdæmis. 

Létt bifhjól fyrst skráð frá 19.2.1976-31.12.1988:

Merki af þessari gerð skulu vera rétthyrnd, aflöng spjöld, 70 mm á hæð og með hvítum, glituðum stöfum á rauðum grunni. Stafir skulu vera með steinskrift, þrykktir í spjaldið og 45 mm á hæð. Framan við tölurnar skal vera einkennisbókstafur lögsagnarumdæmis.

Þungt bifhjól skráð 31.12.1949 eða fyrr: 

Merki af þessari gerð skulu vera rétthyrnd, aflöng spjöld, úr 2 mm þykku járni, 90 mm á hæð og lengd eftir fjölda stafa. Stafir skulu vera hvítir, málaðir eða glerjaðir, með steinskrift á svartan málaðan eða gleraðan grunn. Stærð stafa skal vera þessi: hæð 65 mm, breidd 40 mm og breidd stafleggja 12 mm. Framan við tölurnar skal mála einkennisbókstaf lögsagnarumdæmis og skal vera strik á milli bókstafs og tölustafa sem er 18 mm langt og 10 mm breitt. Bil milli stafa skal vera að minnsta kosti 8 mm. Sjá sýnishorn á upplýsingaskjali ( US.326).

Þung bifhjól fyrst skráð 1.1.1950-31.12.1988:  

Merki af þessari gerð skulu vera rétthyrnd, aflöng spjöld, 70 mm á hæð og lengd eftir fjölda stafa. Stafir skulu vera hvítir, með steinskrift á svartan grunn. Stærð stafa skal vera þessi: hæð 50 mm, breidd 30 mm og breidd stafleggja 8 mm. Framan við tölurnar skal vera einkennisbókstafur lögsagnarumdæmis. Bil milli stafa skal vera að minnsta kosti 8 mm.  Sjá upplýsingaskjal ( US.327).

Dráttarvélar fyrst skráðar 31.12.1988 eða fyrr:  

Merki af þessari gerð skulu vera rétthyrnd, aflöng spjöld, 70 mm á hæð og lengd eftir fjölda stafa. Stafir skulu vera rauðir, með steinskrift á hvítan grunn. Stærð stafa skal vera þessi: hæð 50 mm, breidd 30 mm og breidd stafleggja 8 mm. Framan við tölurnar skal vera einkennisbókstafur lögsagnarumdæmis og bókstafurinn d. Stærð bókstafsins d skal vera: hæð 27 mm, breidd 16 mm og breidd stafleggs 5 mm. Sjá sýnishorn á upplýsingaskjali ( US.328 ).


Þessi númer voru í gildi frá 1938 – 31.12.1988:

A – Akureyrarkaupstaður og Eyjafjarðarsýsla
B – Barðastrandasýsla
D – Dalasýsla
E – Akraneskaupstaður
F – Siglufjarðarkaupstaður
G – Hafnarfjarðarkaupstaður og Gullbringu- og Kjósarsýsla
H – Húnavatnssýsla
Í – Ísafjarðarkaupstaður og Ísafjarðarsýsla
J – Íslenskir starfsmenn á Keflavíkurflugvelli
K – Sauðárkrókskaupstaður og Skagafjarðarsýsla
L – Rangárvallasýsla
M – Mýra- og Borgarfjarðarsýsla
N – Neskaupstaður
Ó – Ólafsfjarðarkaupstaður
P – Snæfells- og Hnappadalssýsla
R – Reykjavík
S – Seyðisfjarðarkaupstaður og Norður-Múlasýsla
T – Strandasýsla
U – Suður-Múlasýsla
V – Vestmannaeyjakaupstaður
X – Árnessýsla
Y – Kópavogur
Z – Skaftafellssýsla
Þ – Þingeyjarsýsla
Ö – Keflavíkurkaupstaður

Sérnúmer fyrir starfsmenn Varnarliðsins:
JO – Erlendir starfsmenn á Keflavíkurflugvelli
VL – Varnarliðið
VLE
– Ökutæki hermanna



Var efnið hjálplegt? Nei