Kortin
Ökuritakortin eru svokölluð gjörvakort og hafa því örgjörva sem getur átt samskipti við ökuritann og vistað upplýsingar á kortin
Kortin eru mjög örugg og framleidd samkvæmt ströngum öryggiskröfum.
Svokölluð vottorð og dulkóðunarlyklar ásamt vissum hlutum af örflögunni gera hvert kort einstakt og því er fræðilega séð ómögulegt að breyta því eða hafa áhrif á það. Grunninum að þessari öryggistækni, hinum svokölluðu rótarlyklum, er úthlutað af "European Root Certificate Authority" (ERCA), sem starfar miðlægt í Evrópu. Rótarlyklarnir eru síðan notaðir með lyklum og vottorðum sem eru sérstök í hverju landi fyrir sig.
Fjórar gerðir korta
Um er að ræða fjórar gerðir ökuritakorta. Veldu viðeigandi kort til að fá nánari upplýsingar. Nálgast má umsóknareyðublað fyrir ökuritakort.
Ökumannskort
Ökumannskort eru afhent einstökum ökumönnum. Þau notast af ökumanni samkvæmt lögum og reglum um rafræna ökurita. Kortið getur geymt tölvutækar upplýsingar sem snerta aksturs- og hvíldartíma, aðra vinnu, hvíld, o.fl. Kortið inniheldur nafn, undirskrift og mynd bílstjórans. Einnig má finna gildistíma, kortanúmer, strikamerki og örgjörva. Ökumannskortið skal ekki notast af öðrum en þeim ökumanni sem kortið er gefið út á.
Fyrirtækjakort
Fyrirtækjakort eru ætluð fyrirtækjum sem gera út bíla með rafrænum ökuritum. Með kortinu geta fyrirtækin lesið úr ökuritunum og prentað út eða afritað eigin upplýsingar úr ökuritanum. Fyrirtækið ákveður sjálft hvaða starfsmenn hafa afnot af kortinu. Kortið inniheldur upplýsingar um nafn fyrirtækis, gildistíma korts, útgefanda, kortanúmer, strikamerki og rafrænt skírteini.
Verkstæðiskort
Verkstæðiskortum er úthlutað til löggildra verkstæða. Verkstæðum er skylt að halda utan um hvaða starfsmaður notar tiltekið kort. Kortið veitir réttindi til að virkja, stilla og gæðaskoða ökurita. Hverju verkstæðiskorti fylgir pin-númer og er kortið ónothæft kunni menn ekki skil á pin-númerinu. Verkstæðiskort gilda aðeins í eitt ár og geta þau geymt rafrænar upplýsingar um uppsetningar og niðurstöður eftirlits.

Eftirlitskort
Eftirlitskort eru notuð af eftirlitsaðilum (lögreglu/vegagerð). Kortin eru notuð til að kanna aksturs- og hvíldartíma ásamt því að kanna ástand ökuritans. Eftirlitsaðilar eru ábyrgir fyrir eftirlitskortunum og hvernig þau eru notuð.