Almennt um tjónaökutæki

Skilgreiningar og almennar upplýsingar um ferli tjónaökutækis

Skilgreiningar


Tjónaökutæki

Ökutæki sem orðið hefur fyrir tjóni sem getur haft áhrif á aksturseiginleika þess og akstursöryggi. Hafi slíkt tjón orðið á ökutæki skal skilgreina og skrá ökutækið sem tjónaökutæki og notkun þess bönnuð.

Tjónaökutæki I

Ökutæki sem lent hefur í óhappi og tilkynnt hefur verið af lögreglu eða Skattinum (áður tollstjóra) til Samgöngustofu. Hægt er að óska eftir endurmati innan 20 daga, sé það ekki gert breytist skráningin í tjónaökutæki II.

Tjónaökutæki II

Ökutæki sem lent hefur í óhappi og tilkynnt hefur verið af tryggingafélagi til Samgöngustofu. Ennfremur tjónaökutæki I þar sem frestur til endurmats er runninn út. Ekki má taka tjónaökutæki II í notkun á ný nema að fram fari viðgerð á því af viðurkenndu réttingaverkstæði.

Viðgert tjónaökutæki

Ökutæki sem hefur fyrir 1. ágúst 2017 verið viðgert af öðrum en viðurkenndu réttingaverkstæði.

Margar tjónaskráningar

Ef ökutæki sem er skráð viðgert tjónaökutæki þann 1. ágúst 2017, lendir aftur í tjóni þannig að það teljist sem tjónaökutæki II, skráist það með margar tjónaskráningar óháð viðgerðaraðila.

Endurmat tjónaökutækis

Hægt er að óska eftir endurmati á tjónaökutæki I innan 20 virkra daga frá skráningu í ökutækjaskrá. Endurmat skal fara fram áður en viðgerð hefst og skal vera studd gögnum, það er greinargerð, ljósmyndum og/eða mælingum. Endurmat getur leitt til niðurfellingar á tjónaskráningu eða að ökutæki teljist tjónaökutæki II. Faggiltar skoðunarstofur framkvæma endurmat. Gögn skulu send til Samgöngustofu sem skráir upplýsingarnar í ökutækjaskrá.

Viðurkennt réttingaverkstæði

Verkstæði sem er búið viðeigandi tækjabúnaði til viðgerða á ökutækjum eftir fyrirmælum framleiðanda og hafa heimild til að gefa út vottorð um viðgerð á tjónaökutæki. Sjá nánar kafla um viðurkennd réttingaverkstæði.

Samþykktur úttektaraðili

Aðili sem hefur verið samþykktur af Samgöngustofu til þess að framkvæma úttektir á réttingaverkstæðum sem vilja vera viðurkennd af Samgöngustofu.

Burðarvirkisvottorð

Staðfesting mælingarmanns á að burðarvirki ökutækis sé innan marka framleiðanda þess.

Hjólastöðuvottorð

Staðfesting mælingarmanns á að hjólastaða ökutækis sé innan þeirra marka sem framleiðandi þess setur og að stilling þess hafi verið framkvæmd samkvæmt fyrirmælum framleiðanda þess eða framleiðanda þess ökutækis sem ásar voru notaðir úr.

Ferli tjónaökutækis


Ökutæki er skráð tjónaökutæki I

Ef eigandi ökutækis er sammála tjónaskráningu lögreglu eða skattsins (áður tollstjóra) um að skrá skuli ökutækið sem tjónaökutæki skal það fært til viðgerðar á viðurkennt réttingaverkstæði.

Ef eigandi ökutækis er ósammála tilkynningu lögreglu eða Skattsins um að skrá skuli ökutækið sem tjónaökutæki er hægt að óska eftir endurmati. Endurmat á tjónaökutæki I skal fara fram innan 20 virkra daga frá skráningu í ökutækjaskrá. Endurmat skal fara fram áður en viðgerð hefst og skal vera studd gögnum, það er greinargerð, ljósmyndum og/eða mælingum. Endurmat getur leitt til niðurfellingar á tjónaskráningu eða að ökutæki teljist tjónaökutæki II. Gögn skulu send til Samgöngustofu sem skráir upplýsingarnar í ökutækjaskrá. Nánari upplýsingar má sjá í Skoðunarhandbók ökutækja.

Ökutæki er skráð tjónaökutæki II

Þegar ökutæki hefur verið skráð sem tjónaökutæki II þarf að fara fram viðgerð á því á viðurkenndu réttingaverkstæði eigi að skrá það aftur í umferð.

Vottorð um viðgerð á tjónaökutæki

Að lokinni viðgerð senda viðurkennd réttingaverkstæði inn rafræna umsókn um að fella niður tjónaskráningu á ökutæki. Þar staðfestir tæknistjóri verkstæðis (eða staðgengill hans) framkvæmd viðgerðar og skjölun viðeigandi gagna. Sé umsókn samþykkt er tjónaskráning ökutækis felld niður í ökutækjaskrá.

Afhending skráningarmerkja

Að lokinni viðgerð á tjónaökutæki og samþykktu vottorði um viðgerð skal færa ökutæki til skoðunar á skoðunarstöð. Skráningamerki eru afhend að lokinni skoðun ef niðurstaða hennar er án athugasemda eða lagfæring og búið er að fella niður tjónaskráningu í ökutækjaskrá.

Hvenær telst ökutæki vera tjónaökutæki?

Ökutæki telst vera tjónaökutæki þegar það hefur orðið fyrir tjóni sem getur haft áhrif á aksturseiginleika þess og akstursöryggi. Hafi slíkt tjón orðið á ökutæki skal skilgreina og skrá ökutækið sem tjónaökutæki og notkun þess bönnuð. Ökutæki skráist almennt sem tjónaökutæki þegar það verður fyrir skyndilegu höggi af völdum árekstrar þannig að skekkja eða skemmd verður á burðarvirki og eða hjólabúnaði þess. Einnig ef öryggisbúnaður ökutækis virkjast við árekstur.

Eftirfarandi tafla er til viðmiðunar um hvenær ökutæki skuli vera skráð sem tjónaökutæki. Taflan er ekki tæmandi.

Telst vera tjónaökutæki Skýring
Líknarbelgir/loftpúðar sprungið út Á við um alla líknarbelgi/loftpúða ökutækis.
Ökutæki óökuhæft vegna skemmda á hjóla- eða stýrisbúnaðiHjólabúnaður eða stýrisbúnaður á einhvern hátt skemmdur sem veldur því að ökutækið telst óökuhæft. Sprungið dekk, ef felga sýnist óskemmd, veldur ekki eitt og sér skráningu.
Ökutæki hefur oltiðBeyglur og skemmdir verulegar víða á yfirbyggingu, hurðir gætu verið gengnar úr lagi, rúður brotnar eða farnar úr.
Verulegt hliðartjón á ökutækiAugljósar skemmdir á sílsum (bitanum undir hurðunum á hvorri hlið), oft með þeim afleiðingum að hurðir virka ekki eðlilega eða hefur aflögun á dyragötum í för með sér.
Rammar skemmst umhverfis límdar rúðurFramrúða ökutækis telst til burðarvirkis, sé hún límd, og má ramminn umhverfis hana ekki hafa skemmst. Sama gildir um aðrar límdar rúður sem eru hluti af burðarvirki ökutækis. Athuga að afmarkaðar skemmdir á límdum rúðum sem ekki eru hluti af stærra tjóni, t.d. stjarna eða sprunga eftir steinkast, valda ekki skráningu sem tjónaökutæki.
Öryggisbeltastrekkjarar virkjaðir eða teygst hefur á öryggisbeltiSést að öryggisbeltastrekkjarar hafa verið virkjaðir. Einnig ef teygst hefur á öryggisbelti (sést að saumar eru skemmdir eða ójafnir).
Hjól og stýrisbúnaður bognað eða færst úr staðÖxull/ás eða hjól hefur gengið til og sýnileg merki eru um að hjóla- eða stýrisbúnaður hafi bognað eða færst úr stað.
Burðarvirki bognað eða festingar gengið tilSýnileg merki eru um að burðarvirki yfirbyggingar eða sjálfstæð grind hafi bognað. Sérstaklega skal athuga festingar fyrir fjaðrabúnað og stýrisbúnað. Kýttur grindarendi myndar oftast skekkju á hjóla- og stýrisbúnaði.
Snúningur eða beygja á yfirbygginguSýnileg merki eru um snúning eða beygju á yfirbyggingu. Sést m.a. með því að bera saman hurðargöt og gluggagöt. Ef um hliðartjón er að ræða er hægt að bera saman hurðabil milli hurða á sömu hlið eða milli hliða (gengið út frá því að hurðabil sé alltaf það sama á óskemmdu ökutæki).
Þverbrot í þaki yfirbyggingarÞverbrot í þaki er öruggt merki um skekkju í burðarvirki (brotið er oft sýnilegt ofan við aftari framhurðarstaf).

Var efnið hjálplegt? Nei