Viðurkennd réttingaverkstæði

Upplýsingar til viðurkenndra réttingaverkstæða og úttektaraðila

Skilgreiningar


Tjónaökutæki

Ökutæki sem orðið hefur fyrir tjóni sem getur haft áhrif á aksturseiginleika þess og akstursöryggi. Hafi slíkt tjón orðið á ökutæki skal skilgreina og skrá ökutækið sem tjónaökutæki og notkun þess bönnuð.

Tjónaökutæki I

Ökutæki sem lent hefur í óhappi og tilkynnt hefur verið af lögreglu eða Skattinum (áður tollstjóra) til Samgöngustofu. Hægt er að óska eftir endurmati innan 20 daga, sé það ekki gert breytist skráningin í tjónaökutæki II.

Tjónaökutæki II

Ökutæki sem lent hefur í óhappi og tilkynnt hefur verið af tryggingafélagi til Samgöngustofu. Ennfremur tjónaökutæki I þar sem frestur til endurmats er runninn út. Ekki má taka tjónaökutæki II í notkun á ný nema að fram fari viðgerð á því af viðurkenndu réttingaverkstæði.

Viðgert tjónaökutæki

Ökutæki sem hefur fyrir 1. ágúst 2017 verið viðgert af öðrum en viðurkenndu réttingaverkstæði.

Margar tjónaskráningar

Ef ökutæki sem er skráð viðgert tjónaökutæki þann 1. ágúst 2017, lendir aftur í tjóni þannig að það teljist sem tjónaökutæki II, skráist það með margar tjónaskráningar óháð viðgerðaraðila.

Endurmat tjónaökutækis

Hægt er að óska eftir endurmati á tjónaökutæki I innan 20 virkra daga frá skráningu í ökutækjaskrá. Endurmat skal fara fram áður en viðgerð hefst og skal vera studd gögnum, það er greinargerð, ljósmyndum og/eða mælingum. Endurmat getur leitt til niðurfellingar á tjónaskráningu eða að ökutæki teljist tjónaökutæki II. Faggiltar skoðunarstofur framkvæma endurmat. Gögn skulu send til Samgöngustofu sem skráir upplýsingarnar í ökutækjaskrá.

Viðurkennt réttingaverkstæði

Verkstæði sem er búið viðeigandi tækjabúnaði til viðgerða á ökutækjum eftir fyrirmælum framleiðanda og hafa heimild til að gefa út vottorð um viðgerð á tjónaökutæki. Sjá nánar kafla um viðurkennd réttingaverkstæði.

Samþykktur úttektaraðili

Aðili sem hefur verið samþykktur af Samgöngustofu til þess að framkvæma úttektir á réttingaverkstæðum sem vilja vera viðurkennd af Samgöngustofu.

Burðarvirkisvottorð

Staðfesting mælingarmanns á að burðarvirki ökutækis sé innan marka framleiðanda þess.

Hjólastöðuvottorð

Staðfesting mælingarmanns á að hjólastaða ökutækis sé innan þeirra marka sem framleiðandi þess setur og að stilling þess hafi verið framkvæmd samkvæmt fyrirmælum framleiðanda þess eða framleiðanda þess ökutækis sem ásar voru notaðir úr.

Viðurkennd réttingaverkstæði


Viðurkennt réttingaverkstæði hefur verið samþykkt sem aðili sem getur gert við ökutæki samkvæmt fyrirmælum framleiðanda þannig að ökutæki sé í sama ástandi og það var fyrir tjón. Viðurkennt réttingaverkstæði getur óskað eftir að fella niður tjónaskráningu ökutækis með því að senda inn vottorð um viðgerð á tjónaökutæki í gegnum rafrænt viðmót á vef Samgöngustofu. Viðurkennd réttingaverkstæði skulu uppfylla þau skilyrði sem lýst er hér að neðan.

Aðeins viðurkennd réttingaverkstæð hafa heimild til þess að senda inn vottorð um viðgerð á tjónaökutæki.

Heimild til útgáfu vottorða um viðgerð á tjónaökutæki

Aðeins réttingaverkstæði sem hafa verið viðurkennd af Samgöngustofu hafa heimild til að senda inn vottorð um viðgerð á tjónaökutæki.

Við innsendingu á vottorði um viðgerð á tjónaökutæki er gerð krafa um að tilkynnandi sé tæknistjóri eða staðgengill hans. Tilkynnandi er auðkenndur með rafrænum skilríkjum. Samgöngustofa heldur lista yfir viðurkennd réttingaverkstæði og tæknistjóra sem hafa heimild til að senda inn vottorð um viðgerð tjónaökutækja.

Vottorð um viðgerð á tjónaökutæki 

Með því að senda inn vottorð um viðgerð á tjónaökutæki staðfestir tæknistjóri (eða staðgengill hans) eftirfarandi fyrir hverja viðgerð:

  • Viðgerð á ökutæki fór fram á viðurkenndu réttingaverkstæði
  • Viðgerð hefur verið skjöluð (þar á meðal hjólastöðu- og burðarvirkisvottorð)
  • Aðeins voru notaðir viðurkenndir varahlutir við viðgerðina
  • Viðgerð var framkvæmd samkvæmt leiðbeiningum framleiðanda

Sé vottorð rétt út fyllt, réttingaverkstæði á lista yfir viðurkennd réttingaverkstæði og tæknistjóri (eða staðgengill hans) hefur auðkennt sig er tjónaskráning felld niður í ökutækjaskrá. Annars er vottorði hafnað.

Kröfur til viðurkenndra réttingaverkstæða


Viðurkennt réttingaverkstæði þarf að uppfylla eftirfarandi kröfur:

  • Hafa vottað gæðastjórnunarkerfi sem er tekið út af aðila sem samþykktur hefur verið af Samgöngustofu.
  • Uppfylla kröfur Samgöngustofu um skjölun gagna við viðgerð á tjónaökutækjum.
  • Hafa aðgang að leiðbeiningum frá framleiðanda um hvernig viðgerðir á ökutækjum skulu framkvæmdar.
  • Hafa starfsmann með gild réttindi til útgáfu á burðarvirkisvottorðum. Starfsmaður þarf einnig að hafa hlotið úttekt á réttingabekk viðkomandi fyrirtækis.
  • Hafa starfsmann með gild réttindi til útgáfu á hjólstöðuvottorðum eða samning við verkstæði sem hefur aðila með gild réttindi til útgáfu á hjólastöðuvottorðum. Aðili þarf einnig að hafa hlotið úttekt á hjólastillingartæki viðkomandi verkstæðis.
  • Hafa tæknistjóra (og staðgengil tæknistjóra ef við á) sem skal vera menntaður í bifvélavirkjun, bifreiðasmíði, tæknifræði eða verkfræði.
  • Réttingaverkstæðið skal búið viðeigandi tækjabúnaði til viðgerða á ökutækjum samkvæmt fyrirmælum framleiðanda.
  • Til að viðhalda viðurkenningu  skal réttingaverkstæðið standast árlega úttekt hjá samþykktum úttektaraðila.

Krafa er gerð um að réttingaverkstæði sem hafa hlotið viðurkenningu Samgöngustofu uppfylli ávallt upptalin skilyrði. Verði einhverjar breytingar á starfsemi, starfsmannamálum eða öðrum atriðum þannig að kröfur eru ekki lengur uppfylltar skal tilkynna það til Samgöngustofu.

Samgöngustofa hefur eftirlit með viðurkenndum réttingaverkstæðum og skulu þau afhenda Samgöngustofu gögn er varða viðgerð á tjónaökutæki sé óskað eftir þeim. Brot á reglum um tjónaökutæki og viðurkennd réttingaverkstæði getur leitt til þess að Samgöngustofa afturkalli viðurkenningu til réttingaverkstæða.

Tæknistjóri:

Tæknistjóri er tæknilegur ábyrgðarmaður verkstæðis. Skilyrði er að tæknistjóri (og eftir aðstæðum staðgengill hans) skuli vera menntaður í bifvélavirkjun, bifreiðasmíði, tæknifræði eða verkfræði. Tæknistjóri ber ábyrgð á því að viðgerð á tjónaökutækjum sé framkvæmd samkvæmt fyrirmælum framleiðanda ökutækis og að gögn sem viðkoma viðgerð séu skjöluð samkvæmt kröfum Samgöngustofu. Tæknistjóri ber einnig ábyrgð á að unnið sé eftir gildandi gæðastjórnarkerfi verkstæðis.

Kröfur um verklag við viðgerð:

Viðgerðin skal vera framkvæmd samkvæmt fyrirmælum framleiðanda viðkomandi ökutækis og skal fara fram á viðurkenndu réttingaverkstæði. 

Fara skal eftir kröfum Samgöngustofu um skjölun á öllum gögnum sem við koma viðgerð á tjónaökutæki. 

Skjölun gagna við viðgerð á tjónaökutæki


Við viðgerð á tjónaökutæki gerir Samgöngustofa kröfu um að eftirfarandi gögn séu skjöluð:

  • Greinagerð um viðgerð
  • Burðarvirkisvottorð ásamt mæliblöðum
  • Hjólastöðuvottorð ásamt mæliblöðum
  • Reikningar fyrir varahlutum
  • Leiðbeiningar framleiðanda

Frekari lýsingu má sjá hér fyrir neðan.

Samgöngustofa getur óskað eftir tilgreindum gögnum við eftirlitsaðgerðir og/eða niðurfellingu á tjónaskráningu ökutækis.


Greinagerð um viðgerð og myndir

Rita skal stutta greinagerð fyrir hverja viðgerð á tjónaökutæki, þar skal koma fram fastanúmer ökutækis, hvar tjón varð á ökutæki, lýsing á verki, upptalning á helstu hlutum sem skipt var um eða lagfærðir og önnur atriði eftir atvikum. Til stuðnings á greinagerð má skila inn myndum af ökutæki fyrir og eftir viðgerð og einnig á meðan viðgerð stendur. Gerð er krafa um ítarlegri greinagerð sé tjónaökutæki ekki fært í réttingarbekk.

Burðarvirkisvottorð

Við viðgerð á tjónaökutæki skal ávallt gefa út burðarvirkisvottorð sem fyllt er út af aðila sem hefur heimild til útgáfu á burðarvirkisvottorðum. Ásamt burðarvirkisvottorði skulu öll gögn og upplýsingar sem tilheyra burðarvirkismælingu vera skjöluð í 5 ár. Mæliblöð fyrir og eftir viðgerð, hvort sem um er að ræða handskrifuð mæliblöð eða gögn úr tölvu réttingabekks og skulu vera dagsett með upphafi og lok verks.

Sé tjón ökutækis þess eðlis að augljóst er að burðarvirki þess hafi ekki skekkst, sé innan marka framleiðanda og hægt sé að staðfesta það með gögnum út frá hjólastöðumælingu, myndum og ítarlegri greinagerð mælingarmanns er heimilt að gefa út burðarvirkisvottorð á þeim forsendum.
Útgáfuaðili skal geyma þau gögn í 5 ár og ber að afhenda þau óski Samgöngustofa eftir því. Athugið að það er aðeins heimilt að gefa út burðarvirkisvottorð með þessum forsendum í undantekningartilfellum fyrir ökutæki sem hafa ranglega verið skráð tjónaökutæki.

Hjólastöðuvottorð

Við viðgerð á tjónaökutæki skal ávallt gefa út hjólastöðuvottorð sem fyllt er út af aðila sem hefur heimild til útgáfu á hjólastöðuvottorðum. Ásamt hjólastöðuvottorði skulu öll gögn og upplýsingar sem tilheyra hjólastöðumælingu vera skjöluð í 5 ár. Mæliblöð fyrir og eftir hjólastillingu, hvort sem um er að ræða handskrifuð mæliblöð eða gögn úr tölvu hjólastillingartækis og skulu vera dagsett með upphafi og lok verks.

Reikningar

Við viðgerð á tjónaökutæki skal skjala alla reikninga sem viðkoma þeim varahlutum sem notaðir voru við viðgerð á ökutækinu. Á reikningum skal koma fram dagsetning og tegund ökutækis eða fastanúmer ökutækis. Ef varahlutir koma af öðru samskonar ökutæki skal koma fram fastanúmer þess ökutækis. Hafa skal í huga að við viðgerð á tjónaökutæki skal þannig gert við það að aksturseiginleikar hennar og akstursöryggi sé ekki lakara en á sambærilegu ökutæki óskemmdu. Það er á ábyrgð verkstæðis að meta hvort að umskiptir varahlutir uppfylli kröfur framleiðanda.

Leiðbeiningar framleiðanda

Við viðgerð á tjónaökutæki skal ávallt fylgja leiðbeiningum framleiðanda þess um hvernig viðgerð á ökutæki skal fara fram. Krafa er gerð um að leiðbeiningar framleiðanda séu skjalaðar með öðrum gögnum sem við koma viðgerð ef tjón er þess eðlis að skipta þurfti um hluta burðarvirkis ökutækis. Ekki er gerð krafa um skjölun á leiðbeiningum framleiðanda fyrir algenga umskiptanlega hluti á borði við bretti, stuðara og hurðar.

Úttektir og viðurkenning réttingaverkstæða


Til þess að verkstæði komist á lista Samgöngustofu yfir viðurkennd réttingaverkstæði þurfa þau að standast úttekt hjá aðila sem Samgöngustofa hefur samþykkt til úttektar á starfsemi réttingaverkstæða. Hlutverk úttektaraðila er að tryggja að réttingaverkstæðið uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til viðurkenndra réttingaverkstæða og skjölun gagna við viðgerð á tjónaökutæki. Viðurkenningu skal haldið við með árlegum úttektum.

Samþykktir úttektaraðilar eru eftirfarandi:

Fyrsta skref réttingaverkstæða sem vilja vera viðurkennd af Samgöngustofu er að hafa samband við samþykktan úttektaraðila og óska eftir úttekt.

Tilkynningar úttektaraðila til Samgöngustofu


Aðilar sem Samgöngustofa hefur samþykkt til úttektar á gæðastjórnunarkerfi réttingaverkstæða, senda tilkynningu til Samgöngustofu á netfangið umferdarlistar@samgongustofa.is, þar sem eftirfarandi upplýsingar skulu koma fram:

  • Nafn verkstæðis
  • Heimilisfang
  • Póstnúmer
  • Sveitarfélag
  • Tæknistjóri
  • Netfang tæknistjóra
  • Staðgengill tæknistjóra (ef einhver er)
  • Dagsetning vottunar / endurnýjun vottunar
  • Gildistími vottunar (dagsetning)

Vanti upplýsingar eða úttektaraðili er ekki samþykktur af Samgöngustofu er skráningu hafnað.

Úttektaraðili skal ekki senda inn tilkynningu um úttekt á gæðastjórunarkerfi réttingaverkstæðis fyrr en að lokinni úttekt þar sem tryggt hefur verið að réttingaverkstæðið uppfylli kröfur sem gerðar eru til viðurkenndra réttingaverkstæða og skjölun gagna við viðgerð á tjónaökutæki.

Samgöngustofu skal veittur aðgangur að úttektarskýrslum og öðrum viðeigandi gögnum fyrir þá aðila sem hún viðurkennir. 

Eftirlit með viðurkenndum réttingaverkstæðum


Samgöngustofa framkvæmir reglulega eftirlit á viðurkenndum réttinga­verkstæðum. Við val á úrtaki í hefðbundnu eftirliti er litið til þeirra verkstæða sem eru umfangsmeiri en önnur ásamt því að niðurstöður úr fyrri eftirlitsaðgerðum getur haft áhrif á val úrtaks. Einnig eru framkvæmdar sértækar eftirlitsaðgerðir ef taldar eru líkur á að verkstæði séu ekki að uppfylla kröfur eða ábendingar þess efnis berast. 

Við eftirlitsaðgerðir er valið ökutæki af handahófi sem valið verkstæði hefur gert við og óskað er eftir þeim gögnum sem tilgreind eru hér fyrir ofan fyrir valið ökutæki. Við yfirferð á gögnum eru öll frávik skráð og eftir atvikum óskað eftir skýringum. Ásamt yfirferð á gögnum er einnig yfirfarið hvort að vottun verkstæðis sé gild og að á verkstæðinu sé aðili með heimild til útgáfu á burðarvirkisvottorðum og eftir atvikum hjólastöðuvottorðum. 

Aðgerðir vegna frávika geta verið athugasemdir/leiðbeiningar, aukið eftirlit eða að verkstæði missi viðurkenningu Samgöngustofu. Aðgerðir fara eftir fjölda og eða alvarleika frávika og eftir aðstæðum, niðurstöðum fyrri eftirlitsaðgerða. 


Var efnið hjálplegt? Nei