Séraðstoð

Fatlaðir eiga rétt á að njóta þess að ferðast flugleiðis og stendur sú þjónusta sem þörf er á fólki yfirleitt til boða endurgjaldslaust

1.  Upplýsingar fyrir fatlaða flugfarþega


Fatlaðir og hreyfihamlaðir flugfarþegar sem ekki komast auðveldlega um eiga rétt á að fá aðstoð á flugvöllum sér að kostnaðarlausu. 

Dæmi um farþega sem eiga rétt á aðstoð:

 • Farþegar sem geta ekki auðveldlega gengið langar vegalengdir, t.d. sjúkir, slasaðir eða aldraðir.
 • Farþegar í hjólastól.
 • Heyrnalausir og heyrnaskertir.
 • Blindir og sjónskertir.
 • Greindarskertir.

ESB hefur gefið út leiðbeiningar um túlkun reglugerðarinnar sem má finna  hér.

2.  Aðstoð við fatlaða


Aðstoð við fatlaða og hreyfihamlaða einstaklinga felst m.a. í að gera þeim kleift að:

 • Fara í gegnum innritun og öryggisleit á flugvelli.
 • Komast um borð í loftfar.
 • Koma farangri fyrir um borð í loftfari.
 • Ná tengiflugi á flugvelli.
 • Komast úr loftfari í gegnum landamæraeftirlit.
 • Fara í gegnum tollskoðun á komustað.
 • Endurheimta farangur á komustað.

Frekari aðstoð felst til að mynda í aðstoð við meðhöndlun og frágang hjálpartækja og stoðtækja, auk miðlun nauðsynlegra upplýsinga.

3. Hvernig og hvar er hægt að panta slíka þjónustu?Í einhverjum tilfellum er hægt að panta slíka þjónustu á bókunarsíðum flugfélaga á netinu eða í gegnum söluskrifstofur þeirra eða ferðaskrifstofur.

Við bókun eða beiðni um slíka aðstoð er nauðsynlegt að farþegar noti sérstök tákn, sem sjá má hér að neðan í lið 4, til að skilgreina hverjar þarfir þeirra eru og hvers eðlis fötlunin er.

Mikilvægt er að flugfarþegar fái staðfestingu fyrir því að beiðni þeirra um aðstoð eða þjónustu hafi verið móttekin.

4. Tákn, til skilgreiningar á tiltekinni fötlun

 • WCHR Farþegar sem eru færir um að ganga upp og niður stiga og ganga um í farþegarými flugvélarinnar en þurfa hjólastól eða önnur ferlihjálpartæki til að komast á milli flugvélarinnar og flugstöðvarbyggingarinnar (terminal), til að ganga þar um og til að ferðast á milli komu- og brottfararstaðar á þeirri hlið byggingarinnar, sem snýr að borginni.
 • WCHS Farþegar sem eru ófærir um að fara upp og niður stiga en geta gengið um í farþegarými flugvélarinnar og þurfa hjólastól til að komast á milli flugvélarinnar og flugstöðvarbyggingarinnar, til að ganga þar um og til að ferðast á milli komu- og brottfararstaða á þeirri hlið byggingarinnar, sem snýr að borginni.
 • WCHC Farþegar sem eru algjörlega ófærir um gang, sem ferðast allar sínar ferðir í hjólastól eða öðrum hjálpartækjum og þurfa aðstoð allan tímann, frá komu til flugvallarins við brottför alla leið að sæti sínu í flugvélinni eða í sérstaklega útbúið sæti, ef svo ber undir. Sama gildir, þegar vélin er komin á leiðarenda.
 • DEAF Farþegar sem eru heyrnarlausir eða daufdumbir.
 • BLIND Farþegar sem eru blindir.
 • DEAF/BLIND Farþegar sem eru heyrnarlausir eða daufdumbir og blindir sem geta eingöngu ferðast með aðstoðarmanni.
 • STCR Farþegar sem einungis má flytja á sjúkrabörum.
 • MAAS Allir aðrir farþegar, sem þurfa á séraðstoð að halda (mæta og aðstoða).
 • VIÐBÓTARFLOKKUR Fyrir utan ofangreindar skammstafanir gera leiðbeiningar “ECAC Doc 30“ ráð fyrir öðrum flokki, sem hefur þó ekki verið viðurkenndur á alþjóðavísu:
  Farþegar sem eru með hreyfihömlun í neðri útlimum en eru þrátt fyrir það færir um að hugsa um sig sjálfir; þeir þurfa þó aðstoð við að komast um og frá borði og geta einungis hreyft sig í farþegarými flugvélarinnar með hjálp “on-board” hjólastóls.

5.  Þjónusta og aðstoð um borð í flugvélinni


Flugrekendum er ætlað að flytja stoð- og lækningatæki fyrir fatlaða þar með talið rafmagnshjólastóla. Flutningur stoð- og lækningatækja er þó háður því að tilkynning um ætlaðan flutning hafi borist innan settra tímamarka og að það sé laust pláss í loftfarinu.

Gerist þess þörf að fylgdarmaður sé með í för þá er flugrekanda ætlað að útvega viðkomandi sæti við hlið fatlaðs eða hreyfihamlaðs einstaklings, sé það mögulegt. Flugrekandi skal enn fremur gera nauðsynlegar ráðstafanir til að aðlaga sæti fatlaðs og hreyfihamlaðs einstaklings, sé þess óskað, þó með fyrirvara um öryggiskröfur og að slíkt sæti sé tiltækt.

6.  Þjónusta og aðstoð í Leifsstöð


Sé óskað eftir þessari þjónustu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar má nálgast frekari upplýsingar hér.

7.   Nánari upplýsingar í Reglugerð

Reglugerð nr. 475/2008 fjallar um vernd og aðstoð við fatlaða farþega í flugi. Reglugerðinni er ætlað að tryggja að rekstraraðilar flugvalla og flugrekendur veiti þessum farþegahópi nægilega aðstoð og sporna þannig gegn mismunun gagnvart þeim. Reglugerðin er innleiðing á reglugerð Evrópuþingsins og Evrópuráðsins nr. 1107/2006 frá 5. júlí 2006 um réttindi fatlaðs og hreyfihamlaðs fólks sem ferðast með flugi. Reglugerðin tekur til flugs innan landa Evrópusambandsins og evrópska efnahagssvæðisins. ESB hefur gefið út leiðbeiningar um túlkun reglugerðarinnar sem má finna hér.

8.  Almennt - flugið – undirbúningur og bókun


Til að allt gangi sem best er þó mikilvægt að skipuleggja ferðina vel.

Með góðum undirbúningi aukast líkur á því að þjónustan sé eins og best verður á kosið. Eftirfarandi atriði er gott að hafa í huga:

 • Gott er að safna saman öllum upplýsingum sem snerta ferðina áður en gengið er frá bókun.

 • Mikilvægt er að vera raunsær þegar kemur að sérþörfum, einkum þeim sem snúa að erfiðleikum við gang.

 • Æskilegt er að velja það flugfélag eða þá ferðaskrifstofu sem er best í stakk búin til að mæta þörfum ferðalangs.

 • Gott er að hafa samband við flugfélagið/ferðaskrifstofuna og ganga úr skugga um að starfsfólk þekki, skilji og sé hæft til að veita þá þjónustu sem nauðsynleg er.

 • Mikilvægt er að panta þjónustuna fyrirfram, helst með sjö daga fyrirvara en þó ekki skemur en 48 klst fyrir áætlaða brottför.

 • Gott er að endurstaðfesta bókun og athuga hvort þjónustan hafi verið skráð með pöntun.

 • Gott er að leiðbeina starfsfólki um hvernig það geti sinnt þjónustunni sem best, t.d. þegar kemur að því að lyfta farþega.

 • Mikilvægt er að ganga úr skugga um það fyrir ferð hvort ferðatryggingin nái einnig til hreyfi- eða stoðtækja og kaupa aukatryggingu sé þess þörf.

 • Brýnt er að taka fram í bókun ef þörf er á hjólastól flugfélagsins (on board wheelchair).

Dæmi um spurningar vegna þjónustu við fatlaða í flugi

 • Hvaða tegund af fötlun háir þér?
 • Ertu fær um að ganga í gegnum alla flugstöðvarbygginguna eða þarftu hjólastól/kerru?
 • Ef þú þarft hjólastól, munt þú þá nota þinn eigin stól?
 • Er hægt að leggja stólinn saman eða er hann vélknúinn? Ef rafknúinn, hvaða tegund rafhlöðu er notast við?
 • Þarftu aðstoðarmann frá flugfélaginu til að ýta hjólastólnum þínum?
 • Ertu fær um að ganga upp og niður landgöngustiga eða þarftu hjálp við að komast í og úr vélinni?
 • Getur þú flutt þig upp úr hjólastólnum án aðstoðar?
 • Ertu fær um að hreyfa þig inni í flugvélinni eða þarftu til þess hjólastól flugfélagsins?
 • Þarftu að fá upplýsingar um það hvort salerni um borð séu aðgengileg fyrir hjólastóla flugfélagsins?
 • Hvers konar aðstoðar þarfnast þú um borð?
 • Hvaða tegund af sætum henta þér best?
 • Hefur þú lækningatæki meðferðis?
 • Þjáist þú af astma eða öðrum öndunarerfiðleikum?

Athuga ber að ef þú ert með alvarlegan sjúkdóm þarftu að láta flugfélagið vita. Það gæti verið að þú þyrftir að leggja fram staðfestingu þess að heilbrigðisástand þitt leyfi flugferð, svokallað “Fitness to Fly” vottorð.

Flugið sjálft – um borð

Til að dvölin um borð sem og flutningur til og frá borði gangi sem best er gott að hafa eftirfarandi atriði í huga.

 • Nauðsynleg lyf ber að hafa í handfarangri og þess skal gætt að nóg sé haft meðferðis ef flugi skyldi seinka.

 • Sé heyrn eða sjón farþega skert ber starfsfólki að útskýra öryggisreglur og aðstoða við opnun matarpakka.

 • Athuga ber að þjónustuliðar geta ekki veitt aðstoð við að mata farþega, lyfta þeim, sjá um boðskipti við aðra, gefa farþegum lyf eða hjálpað þeim við salernisferðir. Ef slíks er þörf ber farþega að hafa með sér aðstoðarmann.

 • Glími farþegi við öndunarerfiðleika og þarfnast auka súrefnis á meðan á fluginu stendur, útvegar flugfélagið súrefnistæki, stundum gegn greiðslu mun flugfélagið láta þig fá súrefnistæki.

 • Athuga ber að óheimilt er að ferðast með eigin súrefniskút.

Að fara um borð og frá borði

Þeir farþegar sem notast við handstýrðan hjólastól sem fella má saman hafa leyfi til að fara um í sínum eigin hjólastól alla leið að flugvéladyrunum. Að sama skapi ætti stóllinn að vera til reiðu við útgang vélarinnar þegar komið er á áfangastað. Ef hentugt pláss er til staðar inni í farþegarými er stóllinn geymdur í farþegarýminu, ella í farangursrými. Athugið að rafknúnir hjólastólar eru ávallt geymdir í farangursrými.

Fari eitthvað úrskeiðis þegar kemur að fyrirfram pantaðri þjónustu ber að tilkynna það. Kvörtunum skal beint til yfirmanns farþegaþjónustu viðkomandi flugfélags og/eða rekstraraðila flugvallarins. 

Ef upp rís ágreiningur ber að snúa sér til Samgöngustofu sem hefur eftirlitshlutverki að gegna skv.reglugerð nr.  475/2008. Eftirlit Samgöngustofu hefur ekki áhrif á rétt fatlaðra einstaklinga til að leita réttar síns hjá dómstólum samkvæmt landslögum.

Synjun á flutningi

Flugrekandi, umboðsmaður hans eða ferðaskrifstofa skal ekki synja farþega á grundvelli fötlunar um farskráningu í flug til eða frá flugvelli hér á landi og að fara um borð í loftfar á flugvelli hér á landi hafi farþegi gilda farskráningu og farseðil. Þó er flugrekanda heimilt að synja um farskráningu í flug eða synja farþega um að fara um borð í flugvél á grundvelli fötlunar í þeim tilvikum þar sem flugöryggiskröfur krefjast þess eða þegar stærð loftfarsins, dyr þess eða aðstæður á meðan flutningi stendur koma í veg fyrir að flutningur sé mögulegur.

Við synjun skal flugrekandi, umboðsmaður hans eða ferðaskrifstofa gera ráðstafanir til að leggja farþega til viðunandi kost á flutningi. Fatlaður einstaklingur og fylgdarmaður hans, sem neitað hefur verið um að fara um borð á grundvelli fötlunar, skal eiga rétt á endurgreiðslu eða að flugleið sé breytt eins og nánar er kveðið á um í reglugerð nr.  1048/2012.Var efnið hjálplegt? Nei