Fyrir innritun

Öryggisleit

Gott er að undirbúa sig vel þegar pakkað er niður og í aðdraganda öryggisleitar svo allt gangi snurðulaust fyrir sig þegar að brottför kemur

Hvað þarf að gera áður en mætt er til innritunar í brottfararsal flugstöðvar?

Þegar pakkað er niður fyrir ferðalag ætti að hafa í huga að snyrtitöskum, tannkremi, hárvörum, ilmvatnsglösum, kremi, rakspíra, svitalyktareyði, sápum, raksápu og öðrum sambærilegum hlutum er best fyrir komið í innrituðum farangri.

Mikilvægt er að pakka einnig hlutum í innritunarfarangur sem ekki eru leyfðir í handfarangri, svo sem skærum, naglaþjölum og vasahnífum.

Hvernig má flýta fyrir öryggisleit?

Gott er að hafa brottfararspjald og vegabréf (eða önnur skilríki) tilbúin til skoðunar hjá öryggisvörðum. Um leið og komið er að færibandi gegnumlýsingarvélar er gott að setja handfarangur í plastbakka, séu þeir fyrir hendi. Enn fremur skyldi farþegi vera búinn að:

  • Taka plastpoka með vökva úr handfarangri.

  • Taka fartölvu og önnur stærri rafmagnstæki upp úr tösku.

  • Fara úr yfirhöfn.

  • Taka af sér belti og tæma vasa.

Hvað gerist ef bannaðir hlutir finnast i handfarangri?

Ef bannaðir hlutir finnast við öryggisleit fær farþeginn ekki að fara með þá inn fyrir öryggishlið. Athuga ber að þegar farþegi er kominn í öryggisleit er of seint að koma bönnuðum hlutum fyrir í áður innrituðum farangri. Aðstaða til að geyma bannaða hluti er ekki fyrir hendi í flugstöðvum á Íslandi.


Var efnið hjálplegt? Nei