Algengar spurningar um handfarangur

Hér að neðan má sjá svör við algengum spurningum er varða handfarangur

Hvar kaupi ég gegnsæjan 1 lítra poka með plastrennilás?

Þessa poka er hægt að fá í helstu matvöruverslunum á Íslandi

Er leyfilegt að hafa hárblásara og krullujárn í handfarangri?

Já.

Er mikilvægt að hægt sé að loka plastpokanum með plastrennilás (eða sambærilegum lokunarbúnaði)?

Já. Allar 100ml vökvaumbúðir sem fara í 1 lítra poka verða að rúmast þægilega fyrir til að auðvelda skimun.

Get ég haft með mér lyf í vökvaformi?

Farþega er leyfilegt að hafa með sér lyf merkt notanda í magni sem dugir meðan á flugferð stendur. Farþegi gæti þurft að færa sönnur á innihald óski öryggisverðir eftir því.

Hvað með lyf í töfluformi?

Farþega er eftir sem áður heimilt að hafa með sér lyf í töfluformi svo lengi sem öryggisverðir telji enga ógn stafa af þeim.

Hvað með sérstakt mataræði samkvæmt læknisráði ?

Farþega er heimilt að hafa með sér matvæli vegna sérstaks mataræðis í magni sem dugir á meðan flugferð stendur. Farþegi gæti þurft að færa sönnur á innihald óski öryggisverðir eftir því.

Má ferðast með barnamat?

Farþega er heimilt að hafa með sér barnamat handa ungbarni í magni sem dugir á meðan flugferð stendur. Farþegi gæti þurft að færa sönnur á innihald óski öryggisverðir eftir því.

Undir hvað flokkast varalitur?

Varalitur flokkast ekki undir það að vera vökvi. Varagloss telst hins vegar til vökva.

Má ég ferðast með vökva í handfarangri (drykki, áfengi o.s.frv.) sem ég kaupi eftir að hafa farið í gegnum öryggisskoðun á Íslandi?

Farþegar geta eftir sem áður keypt allan vökva og aðrar vörur innan biðsvæðis flugstöðva Evrópska efnahagssvæðisins, en vörur sem seldar eru á því svæði hafa sætt sérstakri skoðun.

Hvað verð ég að hafa í huga ef ég flýg beint á áfangastað og held ekki áfram í tengiflug?

Ef flogið er beint á áfangastað frá Íslandi má vera með allan vökva í handfarangri sem keyptur er á biðsvæðinu.

Hvað verð ég að hafa í huga ef ég fer í tengiflug í Norður-Ameríku (Bandaríkjunum/Kanada)?

Ef farið er í tengiflug í Norður-Ameríku  verður að setja vökva, sem keyptur er í verslun eftir að farið er í gegnum öryggisskoðun eða um borð í flugvél, í innritaðan farangur áður en haldið er áfram í tengiflug. Tækifæri til þess gefst eftir að farþegar hafa farið í gegnum tollskoðun við komuna í flugstöð í Norður-Ameríku.

Má ég ferðast með vökva í handfarangri sem ég kaupi áður en ég fer í innritun fyrir flug frá Norður-Ameríku til Íslands?

Vökva, sem keyptur er áður en farþegi innritar sig, skal komið fyrir í innritunarfarangri.

Má ég ferðast með vökva í handfarangri sem ég kaupi í verslun eftir að ég hef farið í gegnum öryggisskoðun í Norður-Ameríku?

Nei. Ekki er heimilt að fara með vökva í handfarangri inn í flugstöð á Íslandi sem keyptur er í verslunum eftir að farið er í gegnum öryggisskoðun í Norður-Ameríku (Bandaríkjunum/Kanada) og öðrum ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Á þetta einnig við þótt vökvinn sé í innsigluðum umbúðum.

Get ég ferðast með vökva í handfarangri sem keyptur er um borð í flugvél?

Heimilt er að fara með vökva sem keyptur er um borð í flugvél skráðri í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins inn í flugstöð á Íslandi ef varan er í innsigluðum poka. Farþegi verður einnig að geta framvísað kvittun sem staðfestir innihald pokans og kaupdagsetningu sé þess óskað af öryggisvörðum.


Var efnið hjálplegt? Nei