Reglur um handfarangur

Handfarangur er farangur sem farþega er heimilt að bera um borð í flugvélar

Í gildi eru reglur sem takmarka það sem farþegum er heimilt að bera með sér í handfarangri inn fyrir öryggishlið. Reglurnar gilda um allt millilandaflug til og frá Íslandi og um öll flug innan Evrópusambandalagsins og EFTA ríkjanna. Innanlandsflug á Íslandi er undanþegið reglunum.

Mikilvægt er að kynna sér reglur um vökva og bannaða hluti í handfarangri.

Hægt er að skoða reglurnar í bæklingi. Bæklingurinn liggur frammi á Keflavíkurflugvelli, Egilsstaðaflugvelli, Akureyrarflugvelli og á helstu ferðaskrifstofum.

Leyfilegt er að hafa hárblásara og krullujárn í handfarangri.

Viðbótarkröfur um skimun handfarangurs í millilandaflugi

Þann 1. mars 2015 tóku gildi viðbótarkröfur um skimun handfarangurs í millilandaflugi á Íslandi sem og í öðrum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu.

Umræddar kröfur fela í sér að aukinn fjöldi handfarangurs verður tekinn í handleit með slembiúrtaki til viðbótar við hefðbundna skimun með gegnumlýsingu, eða að handfarangur verður skimaður með svokölluðu ETD-tæki (Explosive Trace Detection). ETD-tækið nemur það ef leifar sprengiefna eru á handfarangrinum. 

Aukin slembiúrtaksleit með handleit eða ETD getur tekið örlítið lengri tíma án þess að teljandi töf verði á skimuninni frá því sem nú er. Farangurinn mun ekki bíða tjón af þessu.

Ekki er um að ræða breytingu á gildandi reglum um hvaða hluti er heimilt að hafa með sér í flug. 



Var efnið hjálplegt? Nei