Öryggi í flugi
Bannlisti flugrekanda
Flugsamgöngur eru mjög öruggar og þrátt fyrir almenna aukningu í flugi þá fækkar dauðaslysum í flugi.
Það er margt sem liggur að baki þessari staðreynd en helst má þó telja til að flugiðnaðurinn býr við mjög strangar og samræmdar ytri kröfur í tilfelli Íslands þá koma þessar kröfur frá Alþjóðaflugmálastofnuninni ICAO og Flugöryggisstofnun Evrópu EASA.
Þessar kröfur eru notaðar við útgáfu leyfa til flugrekstrar, viðhalds flugvéla og útgáfu skírteina til einstaklinga. Það þýðir að allir aðilar sem vinna að flugi þurfa að uppfylla settar kröfur. Samgöngustofa sér um að gefa út þessi leyfi og skírteini og fylgist með að viðkomandi uppfylli allar kröfur.
Einnig sér Samgöngustofa um svokallaðar hlaðskoðanir SAFA sem er átak í Evrópu um að eftirlitsaðilar skoði hvort áhafnir og loftför með leyfi frá öðrum Evrópulöndum uppfylli settar reglur.
Eftir að reglubundnar hlaðskoðanir hófust hjá ríkjum í Evrópu kom í ljós að tiltekin ríki og tilteknir flugrekendur voru með óvenjumikil frávik í úttektum. Til að koma í veg fyrir þetta var ákveðið að setja fram sérstakan lista í formi reglugerðar yfir einstök ríki og flugrekendur sem bannað væri flug innan Evrópska efnahagssvæðisins, Bannlista Evrópusambandsins reglugerð.
Er það í samræmi við reglugerð nr. 474/2006 frá árinu 2006, en hún var innleidd í samræmi við aðgerðir Evrópusambandsins til að tryggja flugöryggi og skrá flugrekendur sem ekki uppfylla viðeigandi öryggiskröfur.
Bannlistinn var síðast uppfærður 10. desember 2015 og hefur enn ekki verið þýddur.
Um bannlista Evrópusambandsins
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og Evrópuþingið hafa tekið saman „svartan lista“ um þá flugrekendur sem ekki fullnægja alþjóðlegum öryggiskröfum.
Evrópsk flugmálayfirvöld gera úttektir á öryggi flugs frá þriðja ríki með óreglulegum skoðunum og færa niðurstöðurnar inn í Samevrópskan gagnagrunn. Flugmálayfirvöld aðildarríkjanna tilkynna einnig um flugrekendur sem ekki eru taldir uppfylla settar flugöryggiskröfur, til Evrópusambandsins. Þau atriði sem helst er litið til eru:
- Ófullnægjandi viðhald flugvéla.
- Flugrekandi hefur ekki burði í að gera þær umbætur sem þörf er á.
- Flugmálayfirvöld ríkis þar sem flugrekandi er skráður, hafa ekki næga burði til að takast á við það ástand sem skapast hefur.
Bæði einstakir flugrekendur sem og einstök lönd geta verið sett á listann. Ef flugmálayfirvöld í tilteknu landi standa ekki undir kröfum, geta allir flugrekendur þess lands verið útilokaðir frá flugvöllum aðildarríkja Evrópusambandsins.
Þó svo flug sé öruggasti ferðamátinn, mun tilvist listans beina spjótum að mikilvægi þess að halda uppi alþjóðlegum kröfum flugöryggis.
Listinn er uppfærður a.m.k. þriðja hvern mánuð af framkvæmdastjórninni. Komi upp alvarlegt tilvik er snertir öryggi, geta flugmálayfirvöld einstakra landa gefið út alþjóðlegt bann og óskað eftir því við Evrópusambandið að flugrekandi verði settur á listann.
Ef flugrekandi óskar eftir því að vera tekinn af listanum, kemur hann sér í samband við einstök flugmálayfirvöld eða framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.
Sérfræðingar Evrópusambandsins munu þá fara ítarlega í stöðu öryggismála hjá flugrekandanum áður en ákvörðun er tekin um hvort flugrekandinn skuli fjarlægður af listanum.
Gott ítarefni um öryggi í flugi er hægt að finna hjá Flight Safety Foundation