Fara beint í efnið

Réttindi flugfarþega

Á þessari síðu

Hér er yfirlit yfir réttindi þín þegar þú ert að fljúga.

Við kaup á farmiða

Flugfélagið þitt eða ferðaskrifstofa verður að veita þér skýrar og auðskiljanlegar upplýsingar um ferðaskilmála þína þegar þú kaupir flugfarmiða. Þú ættir að athuga þetta vandlega.

Flugfélög og ferðaskrifstofur sem selja flugfarmiða verða að gefa upp fullt verð fyrir öll lögboðin gjöld, svo sem skatta, við bókun. Þau verða að gera grein fyrir hvers kyns viðbótarkostnaði vegna valkvæðra aukahluta. Til dæmis fyrir farangursheimild eða sætisval.

Á flugvellinum

Fatlaðir farþegar og hreyfihamlaðir eiga rétt á sérstakri aðstoð á flugvellinum að kostnaðarlausu. Þetta felur í sér aðstoð við að:

  • fara um flugvöllinn

  • fara um borð í flugvélina

  • setjast í sæti

  • fara úr flugvélinni

  • komast milli flugvéla

Þú þarft ekki að leggja fram vottorð til að sanna þörf þína fyrir sérstakri aðstoð.

Þú átt rétt á að hafa meðferðis hjálpartæki (allt að 2 stykki) þér að kostnaðarlausu, auk leyfilegrar farangursheimildar.

Flugfélög bera ábyrgð á að miðla nauðsynlegum upplýsingum um flugöryggi á aðgengilegu formi, til dæmis blindraletri, hljóði eða stóru letri.

Ef eitthvað kemur upp á

Flugfarþegar hafa mikil réttindi innan Evrópska Efnahagssvæðisins (EES). Upplýsingarnar hér að neðan eiga aðeins við um flug sem:

  • eru innan EES

  • koma til EES og er framkvæmt af EES flugfélagi

  • fer frá EES til lands utan EES

  • flýgur frá ríki utan EES og er framkvæmt af EES flugfélagi

Réttur til upplýsinga

Ef þú verður fyrir töfum eða aflýsingu á flugi, eða þér er neitað um far, verða flugfélög að veita þér upplýsingar um réttindi þín, þar á meðal hvenær þú átt rétt á aðstoð, endurgreiðslu og skaðabótum.

Þjónusta og stuðningur

Ef fluginu þínu var aflýst eða þér var neitað um far og þú ert að bíða eftir öðru flugi, eða það er mikil seinkun (að minnsta kosti 2 klukkustundir) á fluginu þínu, verður flugfélagið að veita þér þjónustu og stuðning, svo sem máltíð eða hressingu.

Ef aflýsing eða seinkun þýðir gistinótt átt þú rétt á hótelgistingu og flutningi milli flugvallar og gististaðar.

Tafir á flugi

Ef flugið þitt kemur á áfangastað meira en 3 klukkustundum of seint, og seinkunin er af völdum flugfélagsins, átt þú rétt á bótum. Upphæðin sem þú átt rétt á fer eftir lengd flugsins.

Bætur eru ekki greiddar ef seinkunin stafar af aðstæðum sem flugfélagið hefur ekki stjórn á. Dæmi um sérstakar aðstæður geta til dæmis verið slæmt veður, náttúruhamfarir, tafir vegna ákvarðana flugumferðarstjórnar, verkföll eða ófyrirséð öryggisvandamál.

Aflýsing flugs

Ef flugfélagið aflýsir fluginu þínu, átt þú rétt á að velja á milli:

  • endurgreiðslu á farmiða

  • annað flug á áfangastað

Ef flugi þínu var aflýst innan 14 daga frá áætluðum brottfarartíma gætirðu einnig átt rétt á bótum. Þetta fer eftir því með hve miklum fyrirvara þú fékkst tilkynnt um aflýsinguna og þeim valmöguleikum sem eru í boði um annað flug.


Óheimilt er að greiða bætur ef aflýsing stafar af aðstæðum sem flugfélagið hefur ekki á valdi sínu, svo sem slæmt veður, náttúruhamfarir, tafir vegna ákvarðana flugumferðarstjórnar, verkföll eða ófyrirséð öryggisvandamál.

Flýting flugs

Ef fluginu þínu er flýtt um 1 klukkustund eða meira, skilgreinist það sem aflýsing flugs. Þú hefur sömu réttindi og við aflýsingu flugs.

Neitun á fari

Ef þér er ekki hleypt í flugið sem þú hefur bókað, til dæmis vegna yfirbókunar flugfélagsins, verður flugfélagið að leyfa þér að velja á milli:

  • endurgreiðslu á farmiða

  • velja annað flug á áfangastað

Þú átt líka rétt á bótum.

Þetta er frábrugðið því að vera neitað um borð af skynsamlegum ástæðum, svo sem truflandi hegðun eða ófullnægjandi ferðaskjölum.

Týndur, skemmdur eða seinkun á afhendingu farangurs

Flugfélög bera ábyrgð á týndum eða skemmdum farangri, miðað við verðmæti farangurs þíns.

Ef farangur þinn seinkar á meðan þú ert að heiman munu flest flugfélög endurgreiða þér nauðsynlega hluti sem þú þarft. Athugaðu þetta hjá flugfélagi þínu.

Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa taka til meðferðar mál sem varða týndan, skemmdan eða seinkun á afhendingu farangurs.

Skemmdir eða tap á hjálpartækjum

Ef hjólastóllinn þinn eða annar hreyfibúnaður týnist eða skemmist á ferðalagi verður flugfélagið að veita þér skaðabætur. Þú gætir líka fengið tímabundinn búnað, eða ráðstafanir gerðar fyrir áframhaldandi ferðalag þitt.

Að leysa mál og hvernig á að kvarta

Ef þér finnst flugfélagið þitt ekki hafa uppfyllt skyldur sínar, ættir þú að leggja fram kvörtun beint til þeirra í gegnum vefsíðu þeirra, síma eða smáforrit. Flugfélagið hefur 6 vikur til að svara beiðni þinni.

Ef þú ert ósammála niðurstöðunni getur þú vísað kvörtuninni til Samgöngustofu.

Ársskýrslur

Nánari upplýsingar

Sérfræðingar SGS veita upplýsingar í síma tvisvar í viku: þriðjudaga og föstudaga frá kl. 09 til 11. Einnig er hægt að senda fyrirspurnir á netfangið apr@samgongustofa.is

Þjónustuaðili

Samgöngu­stofa