Réttur á upplýsingum

Á flytjanda/flugrekanda hvíla margvíslegar skyldur til að upplýsa farþega um rétt sinn

Við innritunarborð skal sett upp auðlæsileg tilkynning þar sem farþegum er bent á að kynna sér skriflegar upplýsingar um rétt sinn einkum er varðar skaðabætur og aðstoð í þeim tilvikum sem farþega er neitað um far, flugi aflýst eða flugi seinkað um a.m.k. tvær klukkustundir.

Afhenda skal farþega sem verður fyrir framangreindum óþægindum skriflegar reglur um skaðabætur og aðstoð í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 1048/2012  um gildistöku reglugerðar EB nr. 261/2004, 14. gr. um sameiginlegar reglur um skaðabætur og aðstoð til handa farþegum sem neitað er um far og þegar flugi er aflýst eða mikil seinkun verður.

Sé um að ræða blinda eða sjónskerta farþega ber flytjanda/flugrekanda að kynna þeim efni reglnanna með viðeigandi hætti. (Sjá 14. gr. EB reglugerðar nr. 1048/2012)

Allir flytjendur sem selja eða annast loftflutninga á Íslandi eða til og frá landinu skulu láta farþegum í té skriflega á öllum sölustöðum, þ.m.t. við símsölu og við sölu á netinu, upplýsingar um:

  • Helstu ákvæði er gilda um bótaábyrgð á farþegum og farangri þeirra, þ.m.t. mörk bótaábyrgðar á lífs- og líkamstjóni, eyðileggingu, tapi eða skemmdum á farangri, auk tafa.
  • Frest til að gera kröfu um bætur.
  • Möguleika á því að setja fram sérstaka yfirlýsingu varðandi farangur á öllum sölustöðum.

Ferða- og samningsskilmálar skulu ávallt vera farþegum til reiðu á einfaldan og skýran hátt á vefsíðu og söluskrifstofum flytjanda, hjá umboðsaðilum hans, ferðaskrifstofum og við innritunarborð til brottfarar. (Sjá 202. gr. l. um loftferðir nr. 80/2022).


Var efnið hjálplegt? Nei