Farangur
Seinkun, skemmdur eða tapaður farangur
Það vill gerast að þegar þú kemur á áfangastað, að farangurinn þinn birtist ekki á hringekjunni. Farangur tapast oftast ef þú ert í tengiflugi og þarft að skipta um flugfélag.
- Á grundvelli laga um loftferðir nr. 80/2022, alþjóðlegra samninga kennda við Varsjá frá 1929 auk samningsauka, viðbótarbókana og Montreal-samningsins frá 1999, ber flytjandi ábyrgð á tjóni sem verður af völdum tafa í flutningi á farþegum, farangri og farmi.
- Þó verður flytjandi ekki talinn bera ábyrgð á tjóni sem orsakast af töfum í flutningi, geti hann sannað að hann og starfsmenn hans og umboðsmenn hafi viðhaft þær aðgerðir sem sanngjarnt getur talist að viðhafðar séu eða að ógerlegt hafi verið að framkvæma þær.
Flytjandi ber ábyrgð á tjóni á farangri
- Sem verður ef innritaður farangur glatast, skemmist eða eyðileggst ef tjónsatburðurinn á sér stað í loftfari eða á meðan innritaður farangur er í vörslum flytjanda, starfsmanna hans eða umboðsmanna.
- Á óinnrituðum farangri, þar með töldum persónulegum eigum, ef tjón má rekja til sakar hans, starfsmanna hans eða umboðsmanna.
- Ef flytjandi viðurkennir að hafa glatað innrituðum farangri eða innritaður farangur kemur ekki fram innan 21 dags eftir að áætlað var að hann kæmi á áfangastað.
Flytjandi er ekki ábyrgur ef tjón á farangri má rekja til eðlislægra galla eða ástands farangurs.
Ábyrgð flytjanda er takmörkuð við 1.288 SDR (sérstök dráttarréttindi) vegna hvers farþega, nema farþegi hafi við innritun farangurs sérstaklega tilgreint þá hagsmuni sem tengdir eru við afhendingu farangurs á ákvörðunarstað og greitt umkrafið aukagjald.
Þegar niðurstaða er komin frá flugfélaginu þá gerir viðkomandi kröfu í ferðatryggingu sína telji hann sig hafa orðið fyrir frekara tjóni.
Merkja farangur
Það getur hjálpað þér að bæta við merkingu inn í töskunni með nafni, netfangi og símanúmeri, ef ytri merkingar tapast.
Seinkun farangurs
Flest flugfélög munu endurgreiða kostnað fyrir helstu nauðsynjar sem þú þarft að kaupa ef farangri þínum seinkar. Ef það gerist að heiman þá getur það átt við helstu snyrtivörur, nærföt og hreinsun á fötum. Ef seinkun er á farangri við heimkomu þá getur flugfélagið talið tjón þitt minna þar sem að þú hafir meiri möguleika á aðgengi að nauðsynjavörum.
Þegar þú hefur orðið fyrir því að farangur þinn tapast eða skemmist þegar þú hefur ferðast með fleiri enn einu flugfélagi þá getur þú lagt fram kröfu hjá hvaða flugfélagi sem er.
Afleiðingar af seinkun á farangri
Almennt telja flugfélög sig ekki bera ábyrgð á því tjóni sem farþegi verður fyrir við seinkun á farangri og því getur þurft að útkljá þannig mál fyrir dómstólum þar sem farþeginn þarf að sýna fram á tjón sitt.
Tryggingar
Þegar niðurstaða er komin frá flugfélaginu þá getur farþegi gert kröfu í ferðatryggingu sína telji hann sig hafa orðið fyrir frekara tjóni.
Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa
Ef farþegi er ekki sáttur við afgreiðslu flugfélags á erindi sínu þá getur hann vísað málinu til Kærunefndar vöru- og þjónustukaupa, sjá leiðbeiningar .