Kröfu hafnað!

Þegar flugfélag hafnar kröfu um bætur eða endurgreiðslu, þá getur Samgöngustofa hjálpað með úrlausn málsins

Ef kröfu þinni um bætur eða endurgreiðslu kostnaðar er hafnað af flugfélagi, ekki gefast upp. Samgöngustofa getur hjálpað með framgang málsins og tryggt að EES reglum verði framfylgt.

Ertu viss um réttmæti kröfu þinnar?

Það að kvarta og fylgja eftir kröfu tekur tíma og vinnu, svo að gott er að endurskoða réttindi þín til að fullvissa þig um að krafa þín sé réttmæt fyrir lögum og reglum og þá sérstaklega athuga með óviðráðanlegar aðstæður.

  • Kynntu þér réttindi þín við truflun á flugi

Getur Samgöngustofa hjálpað þér?

Þegar kröfu þinni hefur verið hafnað, þá getur SGS hjálpað þér með framgang hennar ef:

  • Um er að ræða aflýsingu, seinkun eða neitun á fari.
  • Flugið fellur undir EES, þ.e. ef flugið er:
    að fara frá EES, á við um öll flugfélög, eða
    að koma til EES með EES – flugrekanda.
    Sjá lista yfir lönd innan EES og Sviss.
  • Brottfararstaður flugsins var Ísland. Ef flugið hefur annað brottfararland, þá þarf að hafa samband við yfirvöld í viðkomandi landi.

Hvernig á að kvarta til Samgöngustofu?

Finna þarf viðkomandi eyðublað á heimasíðu SGS, fylla það út og senda ásamt fylgigögnum á netfangið: neytendur@samgongustofa.is. Samgöngustofa tekur á móti kvörtunum bæði á íslensku og ensku.

Samgöngustofa mun kvitta fyrir móttöku á kvörtun og senda hana áfram til viðkomandi flugfélags til umsagnar. Þegar umsögn flugfélags berst SGS, þá er hún send þér til umsagnar að þinni umsögn lokinni getur SGS úrskurðað í málinu.   Kvartendur geta dregið kvörtun sína til baka hvenær sem er í ferlinu.  Málsmeðferð almennra mála getur tekið allt að 3. mánuði en í flóknari málum þá verður hún í einstaka tilfellum lengri.

Úrskurði Samgöngustofu verður ekki skotið til annarra stjórnvalda. Þegar úrskurður hefur verið kveðinn upp geta aðilar lagt ágreining sinn fyrir dómstól á venjulegan máta.

Aðrar leiðir til kvörtunar

Á grundvelli laga um loftferðir nr. 80/2022, alþjóðlegra samninga kennda við Varsjá frá 1929 auk samningsauka, viðbótarbókana og Montreal-samningsins frá 1999, ber flytjandi ábyrgð á tjóni sem verður af völdum tafa í flutningi á farþegum, farangri og farmi. Til að ná fram skaðabótum á grunni loftferðalaga þarf að sækja mál fyrir dómstólum.


Var efnið hjálplegt? Nei