Væntanlegar nýjar reglur um dróna
Nýjar reglur Evrópusambandsins um flug ómannaðra loftfara (dróna) hafa tekið gildi innan aðildarlanda sambandsins. Þessar reglur hafa ekki tekið gildi hér á Íslandi, en búist er við að þær verði innleiddar á næstu misserum. Ólíkt núgildandi reglugerð (990/2017) þar sem einungis þarf að skrá dróna sem notaðir eru í atvinnuskyni, munu umráðendur dróna þurfa að skrá sig samkvæmt nýja regluverkinu og gerðar eru vissar kröfur um þjálfun fjarflugmanna.
Samgöngustofa hefur nú opnað skráningarsíðuna flydrone.is en þar hafa umráðamenn dróna þann valkost að skrá sig og taka próf í svokölluðum opnum flokki en meirihluti drónaflugmanna tilheyra þeim flokki hvort sem þeir fljúga sér til skemmtunar eða í takmörkuðu atvinnuflugi. Þegar nýjar reglur Evrópusambandsins taka gildi hér á landi verður þessi skráning skylda fyrir alla umráðamenn dróna yfir 250 grömmum, en þangað til er skráningin að öllu leiti valkvæð. Til þess að fá hæfnisvottorð fyrir flug í opna flokknum þarf viðkomandi að skrá sig sem umráðamann dróna á flydrone.is og greiða fyrir skráningu sem gildir í 5 ár. Að því loknu er hægt að þreyta próf í undirflokki A1/A3. Það próf er tekið á netinu og er ekki rukkað aukalega fyrir það próf.
Í náinni framtíð verður einnig hægt að fá hæfnisvottorð til að fljúga í undirflokki A2. Greiða þarf prófgjald fyrir próf í undirflokki A2 en þau próf verða tekin í húsakynnum Samgöngustofu eða hjá aðilum sem stofnunin hefur samþykkt. Síðar verða einnig tekin upp próf í sérstaka flokknum en þeim flokki tilheyra margir þeirra sem hafa atvinnu af flugi dróna. Sjá nánari upplýsingar um flokkana hér að neðan.