Opni flokkurinn
Opni flokkurinn inniheldur áhættulitla starfsemi dróna sem vega minna en 25 kg.
Í opna flokknum gilda eftirfarandi reglur:
- Dróninn verður að vega minna en 25 kg
- Fjarflugmaðurinn verður að hafa drónann ávallt í augsýn (VLOS)
- Dróninn má ekki fljúga hærra en 120 m frá jörðu
- Það má ekki fljúga yfir mannfjölda
- Það má ekki fljúga með hættulegan varning
- Það má ekki sleppa hlutum af drónanum
- Dróninn verður að vera merktur með skráningarnúmeri umráðandan
Opna flokknum er skipt í þrjá undirflokka: A1, A2 og A3. Munurinn á þeim er eftirfarandi:
A1 – Leyfilegt að fljúga léttum drónum með minni takmörkunum á fjarlægð frá óviðkomandi fólki.
A2 – Leyfilegt að fljúga drónum í þéttbýli með 50 m lágmarksfjarlægð frá óviðkomandi fólki (30 m með C2 merktum dróna, 5 m með hægflugsbúnaði).
A3 – Leyfilegt að fljúga drónum allt að 25 kg að þyngd, með 150 m lágmarksfjarlægð frá byggðum svæðum.
Skráning og hæfniskröfur
Til að geta flogið í opna flokknum þurfa allir flugmenn að vera skráðir á skráningarsíðu Samgöngustofu (nema flugmenn C0 dróna án myndavélar). Til að geta flogið dróna sem vegur meira en 250 grömm þurfa flugmenn að lesa kennsluefni og standast A1/A3 hæfnipróf á skráningarsíðunni. Þeir sem standast prófið öðlast réttindi til að fljúga drónum allt að 900 grömm að þyngd í undirflokki A1 og allt að 25 kg að þyngd í undirflokki A3. Í undirflokki A2 er leyfilegt að fljúga mjög nálægt fólki og þar af leiðandi talinn áhættumesti undirflokkurinn í opna flokknum. Það eru gerðar meiri kröfur til hæfni flugmanna í undirflokki A2 og þarf að standast sérstakt A2 próf sem er aðeins haldið í húsakynnum Samgöngustofu eða hjá samþykktum aðila.
(Smelltu á töfluna til að fá hana í hærri upplausn)
Hámarksflughæð
Hámarksflughæð skal vera 120 m frá jörðu. Það er mögulegt að fljúga hærra en 120 m frá jörðu, en innan við 15 m frá manngerðum hlutum, með leyfi eiganda.
Næturflug
Það er leyfilegt að fljúga að nóttu til, á meðan hægt er að sjá drónann (VLOS). Til að sjá drónann er nauðsynlegt að hann sé búinn ljósum. Skylda er að hafa grænt blikkandi ljós á drónanum að nóttu til.
Krafa um rekstrarhandbók
Einyrki sem er bæði umráðamaður og fjarflugmaður dróna þarf ekki að hafa rekstrarhandbók.
Umráðamaður með flugmenn í vinnu við að fljúga drónum þarf að lágmarki að hafa:
- Verklagsreglur yfir starfsemina.
- Lista yfir starfsmenn með hlutverki þeirra.