Sérstaki flokkurinn
Ef dróninn er þyngri en 25 kg, eða eðli flugsins fellur ekki innan opna flokksins er hægt að sækja um leyfi til að fljúga í sérstaka flokknum (specific category).
Til að fljúga í sérstaka flokknum þarf starfræksluheimild frá Samgöngustofu. Það eru þrjár mismunandi aðferðir til að fá starfræksluheimild:
- STS, staðlaðar sviðsmyndir (Standard Scenarios)
- PDRA, fyrirfram skilgreint áhættumat (Pre-defined risk assessment)
- SORA, áhættumat fyrir sérstaka starfrækslu (Specific Operations Risk Assessment)
STS, staðlaðar sviðsmyndir
Staðlaðar sviðsmyndir eru einfaldasta leiðin til að fljúga flug sem þarfnast starfsræksluheimildar. Hver sviðsmynd skilgreinir aðstæður og skilyrði sem þarf að uppfylla til að geta flogið drónanum samkvæmt þeirri sviðsmynd. Það er tiltölulega einfalt ferli að fá samþykki þar sem áhættugreiningin er innifalin í sviðsmyndinni.
(Smelltu á töfluna til þess að sjá hana í fullri upplausn)
Upplýsingar um STS eru í viðauka 1 við reglugerð ESB 2019/947.
PDRA, fyrirfram skilgreint áhættumat
EASA hefur einnig búið til fyrirfram skilgreind áhættumöt til að einfalda umsóknarferli rekstraraðila sem hyggjast fljúga í sérstökum flokki og starfsemin getur fallið undir PDRA.
(Smelltu á töfluna til þess að fá hana í fullri upplausn)
SORA, áhættumat fyrir sérstaka starfrækslu
Ef flugið sem er áætlað fellur ekki inn í opna flokkinn og hvorki hægt að nota STS eða PDRA til að sækja um starfræksluheimild þarf að skila inn áhættumati byggðu á SORA aðferðarfræðinni. SORA var þróað af JARUS (Joint Authorities for Rulemaking on Unmanned Systems) til þess að auðvelda umsækjendum og flugmálayfirvöldum áhættugreiningar með því að búa til samræmda nálgun fyrir drónaflug. AMC1 við 11. grein reglugerðar ESB 2019/947 inniheldur leiðbeiningar um gerð SORA. Í megindráttum byggir SORA á 10 skrefum sem umsækjandi þarf að fara í gegnum.
- Útbúa ConOps (Consept of operations). ConOps lýsir drónanum og fluginu sem á að fljúga.
- Ákveða upphaflegan áhættuflokk á jörðu niðri (Ground Risk Class GRC). Það er flokkun þeirrar áhættu á því að dróninn lendi í árekstri við fólk á jörðu. GRC flokkar eru á bilinu 1 til 7.
- Ákveða endanlegan GRC (final GRC) eftir mildunaraðgerðir. Þær geta til dæmis verið öryggissvæði í kringum starfrækslusvæðið, fallhlíf á drónanum og hvort sé til staðar viðbragðsáætlun fyrir neyðartilvik.
- Ákveða upphaflegan áhættuflokk í lofti (Air Risk Class ARC). Það er flokkun þeirrar áhættu á því að lenda í árekstri við flugvél. ARC flokkar eru á bilinu A til D.
- Ákveða afgangs ARC (residual ARC). Það er mögulegt að lækka ARC ef raunveruleg flugumferð er minni en það sem upphaflega ARC leggur upp með. Það er einnig hægt með sameiginlegum reglum og mildunaraðgerðum. Þær geta til dæmis verið að takmarka flugið við tiltekið svæði eða tíma dags, eða með búnaði sem gerir drónann sýnilegri öðrum flugvélum eða flugumferðarstjórn.
- Fullvissa um að mildunaraðgerðir sem lækka ARC séu nógu áreiðanlegar fyrir loftrýmið (Tactical Mitigations Performation Level TMPR).
- Ákveða SAIL (Specific Assurance and Safety Level). Það gildi er dregið af endanlegum GRC og afgangs ARC og er á bilinu SAIL I til SAIL VI.
- Staðfesta hvaða OSO (Operational Safety Objectives) eigi við um flugið. Þau eru dregin af SAIL gildi og skilgreina hvaða kröfur eiga við um tæknileg kerfi, þjálfun og verklagsreglur. OSO eru 24 talsins og SAIL gildið segir til um að hvaða leyti þarf að uppfylla þau.
- Aðliggjandi svæði og loftrými. Markmið þessa skrefs er að athuga áhættuna sem hlýst af því að dróninn yrði stjórnlaus og færi út fyrir það svæði sem skilgreint er fyrir flugið. Kröfur má finna í AMC frá EASA
- Útbúa öryggismöppu sem lýsir:
- Hvernig áhættan er minnkuð fyrir GRC og ARC.
- Hvernig TMPR er uppfyllt.
- Hvernig OSO eru uppfyllt.
Meiri upplýsingar um SORA ferlið má finna í Easy Access Rules for Unmanned Aircraft Systems (Regulations (EU) 2019/947 and (EU) 2019/945).