Spurt og svarað um dróna
Hvað er dróni?
Dróni er ómannað loftfar sem er fjarstýrt, því er flogið með notkun fjarstýribúnaðar.
Þarf að sækja námskeið og fá réttindi áður en dróna er flogið?
Samkvæmt núverandi reglugerð er engin krafa gerð um sérstök réttindi til að fljúga dróna undir 25 kg sem notaðir eru í tómstundaskyni. Fjarflugmönnum stendur þó til boða að kynna sér námsefni og taka próf í undirflokki A1/A3 fyrir opna flokkinn samkvæmt nýju regluverki Evrópusambandsins, sjá frekari upplýsingar hér .
Hverjir þurfa að skrá dróna?
Einungis þeir sem hyggjast nota dróna í atvinnuskyni þurfa að skrá dróna.
Þetta á við um svo sem atvinnuljósmyndara, fréttamenn, vísindamenn í rannsóknarvinnu, verkfræðistofur, fasteignasölur o.s.frv..
Skráningin fer fram á síðu Samgöngustofu og er ókeypis. Hægt er að skrá drónann hér.
Er skylda að skrá dróna?
- Tómstundaflug: Ekki þarf að skrá dróna
- Atvinnuflug: Dróni er skráningarskyldur, þ.m.t. drónar sem notaðir eru í rannsóknaskyni.
- Hægt er að skrá dróna sem notaðir eru í atvinnuskyni hér.
Kostar að skrá dróna?
Skráning dróna hjá Samgöngustofu kostar ekkert.
Er skylda að tryggja dróna?
Ef dróninn er með hámarksþunga 20 kg eða meira er skylda að tryggja hann, einnig þarf að tryggja dróna í atvinnurekstri sem að eru starfræktir á undanþágu frá reglugerð.
Hvar má ekki fljúga dróna?
- Yfir mannfjölda.
- Nærri áætlunarflugvöllum.
- Nálægt íbúðarhúsum og opinberum byggingum.
- Ofar en 120 metra.
- Úr augsýn flugmanns.
Sjá nánar í 12. grein reglugerðar nr. 990/2017
Má fljúga dróna yfir þjóðgörðum?
Sækja þarf um leyfi til drónaflugs yfir þjóðgörðum:
- Þingvellir
- Vatnajökulsþjóðgarður
- Snæfellsjökulsþjóðgarður
Má fljúga dróna yfir friðlýst svæði?
Á Íslandi eru 114 friðlýst svæði sem eru á forræði Umhverfisstofnunar. Sækja þarf um leyfi til Umhverfisstofnunar til flugs yfir þeim. Sjá nánar: https://www.ust.is/nattura/natturuverndarsvaedi/fridlyst-svaedi/
Má fljúga í grennd við flugvelli?
Leyfi rekstraraðila flugvallar þarf til þess að fljúga fjarstýrðu loftfari innan:
- 2 km frá svæðamörkum Keflavíkurflugvallar, Reykjavíkurflugvallar, Akureyrarflugvallar og Egilsstaðaflugvallar.
- 1,5 km frá svæðamörkum annarra áætlunarflugvalla, að því undanskildu að flug er heimilt, ef loftfarinu er flogið undir hæð hæstu mannvirkja í næsta nágrenni við flugferil loftfarsins.
Hægt er að sækja um undanþágu frá þessu ákvæði á heimasíðu Isavia.
Hverjir geta sótt um undanþágu frá reglugerð nr. 990/2017?
Þeir sem stunda atvinnuflug með dróna geta sótt um undanþágu frá reglugerðinni að uppfylltum skilyrðum í 18. grein hennar.
Í 12. grein reglugerðar nr. 990/2017 eru tilgreindar helstu takmarkanir um flug á drónum. Almennt má ekki:
-Fljúga yfir mannfjölda
-Fljúga nær húsum en 50 metra
-Fljúga nær opinberum byggingum og íbúðarhúsum utan þéttbýlis en 150 metra
-Fljúga hærra en 120 metra
-Fljúga nær áætlunarflugvöllum en 1,5 – 2,0 km
-Láta drónann fljúga úr augsýn flugmanns