Gögn vegna fjárhagsmats
Gerð er krafa um að eftirfarandi aðilar uppfylli kröfur um fullnægjandi fjárhagsstöðu: Flugrekendur, starfsleyfishafar flugskóla, starfsleyfishafar flugleiðsögu og starfsleyfishafar þjálfunar flugumferðarstjóra
Þetta er í samræmi við lög um loftferðir og reglugerð nr. 48/2012 um sameiginlegar reglur um flugrekstur og flugþjónustu innan EES sem innleiðir reglugerð EB nr. 1008/2008.
Skil gagna vegna fjárhagsmats
Handhöfum flugrekstrarleyfa ber að afhenda Samgöngustofu árlega eftirfarandi gögn vegna mats á fjárhagsstöðu:
Ársreikningur
Almennur skilafrestur er 30. júní. Afhenda skal endurskoðaðan ársreikning eigi síðar en sex mánuðum eftir að viðkomandi reikningsári lýkur. Ársreikningurinn skal samanstanda af sundurliðuðum rekstrarreikningi, efnahagsreikningi og sjóðsstreymi. Ársreikningur án áritunar löggilds endurskoðanda telst ekki fullnægjandi
Rekstrar- og efnahagsáætlun
Almennur skilafrestur 30. júní. Rekstraráætlun fyrir næsta reikningsár skal vera með sundurliðaða tekju- og kostnaðarliði og í samanburðarhæfu formi við ársreikning. Þá skal áætlunin innihalda lausafjáráætlun fyrir komandi rekstrarár og vera sundurliðuð á mánuði. Greina skal sérstaklega frá gefnum reikniforsendum og öllum rekstrarlegum breytingum frá fyrra ári. Ekki er hægt að framkvæma fjárhagsmat nema þessum kröfum um framsetningu sé fylgt.
Samgöngustofa metur gögnin í samráði við sérfræðing á vegum stofnunarinnar og greiðist kostnaður af leyfishafa sbr. gjaldskrá Samgöngustofu. Farið verður með allar fjárhagsupplýsingar sem trúnaðarmál.
Ef óskað er eftir fresti til að skila umbeðnum gögnum skal gera það skriflega með rökstuðningi eins fljótt og kostur er og eigi síðar en á tilsettum skiladegi.
Gögnum skal skilað rafrænt á netfangið pall.s.palsson@samgongustofa.is.
Yfirferð gagna og útgefið mat
Samgöngustofa áskilur sér 30 virka daga til að fara yfir gögn og framkvæma fjárhagsmat. Undantekningar geta verið á skilafresti ef endurnýjun heimildar er gerð meira en 30 virkum dögum fyrir almennan skilafrest.