Spurt og svarað um einkaflug
Hér að neðan má nálgast spurningar og svör varðandi einkaflug.
Hvaða reglugerðir eiga við um einkaflug á Íslandi?
Ísland er meðlimur í EASA sem er Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins. Reglugerðin sem tekur á starfrækslu loftfara er reglugerð nr. 965/2012 með síðari breytingum. Sá hluti reglugerðarinnar sem tekur á einkaflugi með litlum flugvélum eins og tíðkast hér á landi kallast Part-NCO (Non-Commercial operations with other than complex-motor-powered-aircraft). Hægt er að nálgast reglugerðina með nýjustu breytingum á ensku á vef EASA . Part-NCO er aðgengilegur á íslensku í þýddri reglugerð nr. 800/2013.
Fyrir loftför sem falla ekki undir EASA reglugerðina, þ.e. loftför sem hafa ekki fengið tegundavottorð frá EASA og heimasmíðuð loftför, gilda íslenskar reglugerðir um almannaflug nr. 694/2010 fyrir flugvélar og nr. 695/2010 fyrir þyrlur .
Mikilvægt er að þekkja þær reglugerðir sem eiga við flugvélina sem er flogið þar sem munurinn getur verið þónokkur. Sem dæmi má nefna að eldsneytiskröfur eru að einhverju leiti ólíkar milli reglugerðanna.
Hvernig veit ég hvort flugvélin sem ég flýg sé með tegundavottorð frá EASA?
EASA gefur út lista yfir öll loftför sem fá EASA tegundavottorð. Í stuttu máli fá heimasmíðuð loftför og fisflugvélar ekki tegundavottorð frá EASA, né loftför sem voru hönnuð fyrir 1. janúar 1955 og framleiðslu hætt fyrir 1. janúar 1975. Einnig loftför hönnuð eða breytt til nota við rannsóknir eða tilraunir og framleidd í fáum eintökum sem og loftför notuð í hernaði.
Þarf ég að skilja eftir flugáætlun og farþegalista á brottfararstað?
Það er góð regla að skilja eftir upplýsingar um flugáætlun og farþega um borð í flugvél ef kæmi til flugslyss eða að flugvél týnist.
Ef af einhverjum ástæðum reynist erfitt eða ómögulegt að skilja eftir flugáætlun og farþegalista á pappír á brottfararstað, mætti t.d. senda skilaboð í síma eða tölvupóst á flugklúbb, vini eða fjölskyldu með flugáætlun og farþegalista sem væri þá aðgengileg ef þörf væri á.
Þarf ég að leggja inn flugáætlun fyrir öll flug?
Fyrir öll flug, eða hluta flugs, sem skulu njóta flugstjórnarþjónustu; allt blindflug; millilandaflug og flug sem vill njóta viðbúnaðarþjónustu skal leggja inn flugáætlun (sjá Iceland AIP ENR 1.10.1).
Ef flogið er frá einum óstjórnuðum flugvelli til annars er ekki krafa um að leggja inn flugáætlun. Hins vegar eins og segir í AIP þá skal leggja inn flugáætlun ef flug vill njóta viðbúnaðarþjónustu. Ef ekki er lögð inn flugáætlun og kemur til slyss þá er hætta á að hjálp berist seint ef enginn veit af viðkomandi flugi. Því er góð regla að leggja inn flugáætlun fyrir öll flug, hvort sem það á að njóta flugstjórnarþjónustu eða ekki. Einnig er góð regla að láta alltaf vin eða fjölskyldumeðlim vita af fyrirætluðu flugi og áætluðum lendingartíma.
Þarf ég að gera massa- og jafnvægisútreikninga fyrir hvert flug?
Í Part-NCO er ekki gerð bein krafa um að flugstjóri geri massa- og jafnvægisútreikninga fyrir hvert flug. Þrátt fyrir það er mjög mikilvægt að gera þessa útreikninga áður en farið er í flug, sérstaklega ef hleðsla vélarinnar er nálægt leyfilegri hámarksþyngd. Mörg flugslys má beint reka til þess að flugvél var of þung eða rangt hlaðin fyrir flugtak.
Í Part-NCO hluta reglugerðar nr. 965/2012 (skv. breytingarreglugerð nr. 800/2013), grein NCO.GEN.105, segir:
"Flugstjórinn skal bera ábyrgð á að leggja aðeins upp í flug ef hann hefur gengið úr skugga um að farið sé að öllum starfrækslutakmörkununum sem um getur í lið 2.a.3 í IV. viðauka við reglugerð (EB) nr. 216/2008, þ.e.:
iv. að massi loftfarsins og staðsetning þyngdarmiðju séu þannig að flugið geti farið fram innan þeirra takmarkana sem mælt er fyrir um í lofthæfiskjölunum,“
Gerð hleðsluskráar er ein leið til að flugstjóri geti gengið úr skugga um að massi loftfarsins og staðsetning þyngdarmiðju séu innan takmarka flugvélarinnar. Fyrir litlar flugvélar væri t.d. hægt að útbúa fyrirfram nokkrar hleðsluskrár sem myndu eiga við algengar hleðslur vélarinnar (2 farþegar + fullir tankar, 2 fullorðnir + 2 börn + 30 USG eldsneyti o.s.frv.). Einnig er hægt að nálgast smáforrit í snjallsíma þar sem hægt er að gera massa- og jafnvægisútreikninga fyrir litlar flugvélar.
Þarf ég að reikna út afkastagetu flugvélarinnar fyrir hvert flug?
Það á sama við og með massa og þyngdarmiðju flugvéla að það er ekki krafa um að þessir útreikningar séu til staðar. Í Part-NCO hluta reglugerðar nr. 965/2012 (skv. breytingarreglugerð nr. 800/2013), grein NCO.POL.110, segir:
"Flugstjórinn skal aðeins starfrækja loftfarið ef afkastageta loftfarsins uppfyllir gildandi flugreglur og aðrar takmarkanir sem eiga við um flugið, loftrýmið eða flugvellina eða starfrækslusvæðin sem notast er við, að teknu tilliti til nákvæmni í gerð korta og landabréfa sem notast er við."
Flugstjóri þarf að vera fullviss um afkastageta flugvélarinnar sé nægileg, þ.e.a.s. að flugvélin geti tekið á loft og lent innan flugbrautarinnar sem ætlað er að nota. Þetta á auðvitað líka við um klifurgetu í brottflugi. Í létthlaðinni flugvél í flugtaki eða lendingu á langri flugbraut er auðvelt að vera viss um getu flugvélarinnar. En þegar þyngd flugvélar nálgast leyfilega hámarksþyngd eða flugbrautin er stutt, gras eða möl, eða þakin snjó, er mikilvægt að reikna út flugtaksþyngd og nota töflur í handbók flugvélarinnar til að ganga úr skugga um að mögulegt sé að taka á loft eða lenda á flugbrautinni.
Sjá einnig Lendingar og flugtök á grasbrautum og gljúpum malarbrautum
Má ég taka við greiðslu fyrir að fljúga með farþega?
Það er ekki heimilt að fljúga með farþega gegn gjaldi á íslandi nema með flugrekstrarleyfi fyrir flutningaflug. Hinsvegar er heimilt að skipta kostnaði við einkaflug upp að vissu marki.
Í 6. gr. reglugerðar nr. 965/2012 (skv. breytingarreglugerð nr. 379/2014 ) segir:
"4a. Þrátt fyrir 1. og 6. mgr. 5. gr. má eftirfarandi starfræksla einfaldra, vélknúinna loftfara fara fram í samræmi við VII. viðauka:
a) flug þar sem óbreyttir einstaklingar skipta með sér kostnaði, með því skilyrði að þessi beini kostnaður deilist niður á alla sem um borð eru, þ.m.t. flugmanninn, og að einstaklingarnir sem skipta með sér þessum beina kostnaði séu ekki fleiri en sex,"
Beinn kostnaður telst aðeins sá kostnaður sem verður til vegna flugsins, þ.e. eldsneyti, lendingargjöld eða leigugjöld fyrir flugvél. Enginn hagnaður má vera af fluginu.
Sjá einnig Flug með farþega gegn gjaldi
Mega flugvélar og þyrlur lenda utan flugvalla á Íslandi?
Já það má lenda flugvélum og þyrlum utan flugvalla á Íslandi. Hins vegar er margt sem þarf að hafa í huga áður en lent er utan flugvallar.
- Flugvélin/þyrlan þarf að vera rétt búin til lendinga utan flugvalla og það er ávalt á ábyrgð flugstjóra að tryggja að lendingarstaður sé viðunandi.
- Ef að landið er í einkaeigu þarf að liggja fyrir leyfi landeiganda / umráðanda lands áður en lent er á landeigninni.
- Taka þarf tillit til fólks og dýralífs á svæðinu sem lenda skal á. Ef hætta er á að raska friði óviðkomandi fólks eða dýralífs skal forðast lágflug og lendingar/flugtök eins og kostur er.
- Virða skal lágmarksflughæð, 1000 fet yfir þéttbýli og mannfjölda eða 500 fet fyrir utan þéttbýli, nema það sé nauðsynlegt vegna flugtaks eða lendingar.
Bandaríska flugmálastjórnin FAA hefur gefið út upplýsingabækling með nytsamlegum leiðbeiningum um starfrækslu flugvéla utan flugvalla.