Flugleiðsaga

Flugleiðsöguþjónusta og rekstrarstjórnun flugumferðar er yfirheiti yfir margs konar þjónustu sem veitt er loftförum og notendum loftrýmis. Í daglegu máli er þó aðeins talað um flugleiðsöguþjónustu sem samheiti yfir flugleiðsöguþjónustu og rekstrarstjórnun flugumferðar.

Flugleiðsöguþjónusta er veitt samkvæmt íslenskum lögum, reglugerðum og ráðlögðum starfsvenjum sem eru í fullu samræmi við annars vegar ákvæði Alþjóða flugmálastofnunarinnar (ICAO) og hins vegar Evrópureglugerðir sem koma m.a. frá Flugöryggisstofnun Evrópu (EASA). Flugleiðsöguþjónusta og rekstrarstjórnun flugumferðar nær yfir eftirfarandi:

Fjarskiptaþjónusta (Communication service)

er faststöðva- og farstöðvaþjónusta fyrir flug til að gera möguleg fjarskipti milli landstöðva, milli loftfara og landstöðva og milli loftfara að því er varðar flugstjórnarþjónustu.

Leiðsöguþjónusta (Navigation service)

tryggir öruggan rekstur flugleiðsögubúnaðar sem lætur í té upplýsingar um stöðu og tíma loftfara. Þetta auðveldar flugmönnum og loftförum að fljúga á milli staða.

Kögunarþjónusta (Surveillance service)

tryggir örugga notkun kögunarbúnaðar sem er notaður til að ákvarða staðsetningu sérhvers loftfars (t.d. ratsjár og kögun háð leiðsögubúnaði með útvörpun (ADS-B)) sem gefur möguleika á minni og öruggari fjarlægð milli loftfara (og þar með aukinni skilvirkni), styttri flugtíma og meiri hagkvæmni fyrir flugrekendur.

Rekstrarstjórnun flugumferðar (Air traffic management)

er samstillt stjórnun í lofti og á jörðu niðri sem krafist er til að tryggja örugga og skilvirka hreyfingu loftfars á öllum stigum starfrækslu. Rekstrarstjórnun flugumferðar skiptist í:

  •   Flugumferðarþjónustu (Air traffic service), sem er yfirhugtak sem nær til mismunandi þjónustu, þ.e.:
    •   Flugstjórnarþjónustu (Air traffic control (ATC) service) er þjónusta sem veitt er í þeim tilgangi að: (a) koma í veg fyrir árekstur á milli loftfara, og á umferðarsvæði flugvalla milli loftfars og hindrana, (b) flýta fyrir og stuðla að skipulegri flugumferð.
      • Aðflugsstjórnarþjónusta (Approach control service) er flugstjórnarþjónusta við stjórnað flug í aðflugi og brottflugi.
      • Flugstjórnarsvæðisþjónusta (Area control service) er flugstjórnarþjónusta fyrir stjórnað flug í tilteknu loftrými.
      • Flugturnsþjónusta (Aerodrome control service) er flugstjórnarþjónusta sem veitt er um flugvallarumferð.
    • Flugupplýsingaþjónusta (Flight information services) er flugumferðarþjónusta sem felst í ráðleggingum og upplýsingum er stuðla að öryggi og hagkvæmni flugs á grundvelli flugupplýsinga.
    • Viðbúnaðarþjónusta (Alerting service) er þjónusta sem tilkynnir viðeigandi stofnunum, þegar nauðsyn er leitar- og björgunaraðgerða vegna loftfara, og er til aðstoðar slíkum stofnunum eftir þörfum.
    • Ráðgjafaþjónusta (Air traffic advisory services) er þjónusta við loftför í blindflugi innan ráðgjafarýmis til að tryggja aðskilnað milli þeirra eins og frekast er unnt.
  • Stjórnun loftrýmis (Airspace management) er áætlunaraðgerð sem hefur það meginmarkmið að hámarka nýtingu tiltæks loftrýmis. Það er gert með virkum tímaskiptum og skiptingu loftrýmis milli loftrýmisnotenda sem byggist á skammtímaþörfum. Eðli loftrýma getur verið ólíkt eftir aðstæðum t.d. í nánasta umhverfi flugvallar eða loftrými yfir úthafi. Óskir loftrýmisnotenda um loftrými geta verið ólíkar á eftir eðli loftrýma.
  • Flæðisstjórnun flugumferðar (Air traffic flow management) er þjónusta sem er veitt með það að markmiði að stuðla að öruggu, skipulegu og skilvirku flæði flugumferðar með því að tryggja að geta flugumferðarstjórnar sé nýtt til hins ítrasta og að umfang flugumferðar sé í samræmi við afkastagetu sem viðeigandi þjónustuveitendur flugumferðar hafa skilgreint. Netstjórnandi (network manager) sér um að úthluta afgreiðslutíma brottflugs (slot time) fyrir hvert flug sem lítur flæðistjórnun.

Flugveðurþjónusta (Meterological service)

er veðurþjónusta sem felst í því að afla veðurupplýsinga og miðla þeim til notenda t.d. flugmanna, flugumsjónar og flugumferðarþjónustu. Þetta eykur öryggi, reglufestu og skilvirkni í flugleiðsögu. Flugveðurþjónustan gefur m.a. út flugveðurgreiningar, veðurskeyti, öskuspár, flugveðurspár og aðvaranir ásamt því að gefa út mikilvægar veðurfræðilegar upplýsingar (SIGMET).

Upplýsingaþjónusta flugmála (Aeronautical Information Service) 

er þjónusta sem tryggir að nauðsynlegar upplýsingar og gögn séu til staðar fyrir flugrekendur og flugumferðarþjónustu, sem og aðra sem á þurfa að halda. Upplýsingaþjónusta flugmála skal tryggja gæði og þar með áreiðanleika og heilleika flugmálaupplýsinga sem nauðsynleg eru fyrir örugga, skipulega og skilvirka flugleiðsögu.

Samgöngustofa sinnir eftirliti með flugleiðsögu og veitir starfsleyfi til flugleiðsöguþjónustu.

Markmið flugleiðsögudeildar Samgöngustofu

  • Samgöngustofa er ábyrg fyrir því að tryggja viðeigandi eftirlit, einkum að því er varðar öruggan og skilvirkan rekstur veitenda flugleiðsöguþjónustu innan þess loftrýmis sem er á ábyrgð íslenska ríkisins. Eftirlitið fer fram í formi úttekta (úttektir, eftirlit og prófanir) sem starfsfólk framkvæmir. 
  • Samgöngustofa skal tilnefna þjónustuveitanda, í samráði við innanríkisráðuneytið, sem veittur er einkaréttur á veitingu flugumferðarþjónustu, innan tiltekinna loftrýmisumdæma að því er varðar loftrými á ábyrgð íslenska ríkisins.
  • Samgöngustofu er heimilt að tilnefna þjónustuveitanda, í samráði við innanríkisráðuneytið, sem hefur einkarétt á því að láta í té öll veðurfræðileg gögn eða hluta af þeim í öllu eða hluta af loftrýminu sem er á ábyrgð íslenska ríkisins, að teknu tilliti til öryggisráðstafana.
  • Samgöngustofa skal koma á fót samráðsvettvangi með hagsmunaaðilum til að tryggja viðeigandi þátttöku þeirra í innleiðingu reglna er varða samevrópska loftrýmið. Slíkir hagsmunaaðilar geta verið fulltrúar veitenda flugleiðsöguþjónustu, loftrýmisnotenda, flugvalla, framleiðsluiðnaðar og fagmenntaðs starfsfólks veitenda flugleiðsöguþjónustu.
  • Samgöngustofa tryggir að veiting flugleiðsöguþjónustu sé í samræmi við íslensk lög og reglugerðir, ákvæði Evrópusambandsins, kröfur og ráðlagðar starfsvenjur Alþjóðaflugmálastofnunarinnar.

Til að ná markmiði flugleiðsögudeildar er nauðsynlegt að hafa eftirlit með fyrirtækjum sem hafa starfsleyfi til flugleiðsöguþjónustu. Til flugleiðsögu teljast flugumferðar-, fjarskipta-, leiðsögu og kögunarþjónusta, veðurþjónusta fyrir flug og upplýsingaþjónusta flugmála.

Helstu verkefni flugleiðsögudeildar:

  • Votta og gefa út starfsleyfi fyrir veitendur flugleiðsöguþjónustu.
  • Hafa eftirlit með veitendum flugleiðsöguþjónustu.
  • Samþykkja öryggistengdar breytingar hjá veitendum flugleiðsöguþjónustu.
  • Sjá um samræmingu og uppfærslu reglugerða um flugleiðsögu og rekstrarstjórnun flugumferðar.
  • Móta, koma á og viðhalda gæðakerfi vegna eftirlits í flugleiðsögu.
  • Sjá um erlend samskipti vegna flugleiðsögu og svara fyrir úttektir erlendra stofnana, t.d. ICAO, ECAC, EASA og ESA.
  • Veita sérfræðiþjónustu til þeirra sem þess óska varðandi loftrýmismál og flugleiðsögu, þ.á.m. í tengslum við túlkun á reglugerðum og ákvörðunum Evrópusambandsins og fleira. 

Frammistöðuáætlun í flugleiðsögu 2020-2024.

Reglugerðir og ákvarðanir sem settar hafa verið fram fyrir flug og flugleiðsögu.

Starfsleyfishafar flugleiðsöguþjónustu samkvæmt 7. gr. rg. nr. 870/2007

 Þjónustuaðilar Starfsleyfi útgefið   Starfsleyfi gildir til
Isavia ANS ehf.  2. janúar 2020  Ótímabundið
Veðurstofa Íslands 2. janúar 2020  Ótímabundið


 

 


Var efnið hjálplegt? Nei