EASA vottun loftfara

Evrópsk loftför, hreyflar og hlutar eru alfarið vottuð af Flugöryggisstofnun Evrópu eða EASA (European Aviation Safety Agency)

Flugmálayfirvöld landa utan Evrópu, sérstaklega FAA (Bandaríska flugmálastjórnin), vinna oft samhliða að verkefninu þannig að hægt sé að gefa út evrópsk og bandarísk vottorð svo til samtímis, helst samdægurs.

Markmið EASA

Meðal markmiða EASA er að öryggis- og umhverfisvotta mismunandi tegundir loftfara, hreyfla og hluta. 

Þess vegna er vottun á loftförum, hreyflum loftfara og loftskrúfum skilyrði í því skyni að sannreyna hvort þau standist grunnkröfur um lofthæfi og umhverfisvernd er varðar almenningsflug.

Flokkun loftfara

EASA flokkar loftför (aircraft) í nokkra hópa:

  • Flugvélar / Airplanes

  • Þyrlur / Rotorcrafts

  • Svifflugur/Mótorsvifflugur / Sailplane/Motorsailplane

  • Loftskip / Airships

  • Loftbelgir / Balloons

Hérlendis eru flugvélar, svifflugur og þyrlur langalgengustu loftförin. Loftskip og loftbelgir eru mjög fátíðir hérlendis, hugsanlega sökum veðurfars og landslags.

Loftförum er jafnan skipt í tvo megin flokka:

  • Önnur loftför en EASA loftför – innlend lög gilda alfarið.

  • EASA loftför – falla undir reglur EASA.

Önnur loftför en EASA loftför

Þessi loftför falla ekki undir reglur EASA heldur gilda íslensk lög og reglur alfarið. Loftförin geta verið af margvíslegum toga en eiga það öll sameiginlegt að með þeim verður ekki stundað almenningsflug (flutningaflug). Dæmi um slík loftför eru:

  • Söguleg loftför (t.d DC-3)

  • Tilraunaloftför

  • Heimasmíði

  • Gamlar herflugvélar (t.d. B-17)

  • Fis t.d. tveggja manna undir 450 kg. (hámarksflugtaksmassi)

  • Ómönnuð loftför undir 150 kg.

  • Mörg A-Evrópu loftför sem aldrei hafa uppfyllt vestrænar kröfur (t.d. Antonov, Iluyshin, Tupolev, Yakovlev)

  • Loftför sem notuð eru til löggæslu, tollaeftirlits eða til hernaðar

EASA loftför

Loftför sem falla undir reglur EASA um lofthæfi skal flokka samkvæmt reglugerð framkvæmdastjórnar (EB) nr.748/2012 (EASA part21) um lofthæfi og umhverfisvottun loftfara. 

Nokkur dæmi um EASA loftför eru:

  • Airbus A300/310/320/321/330/340/350/380

  • Boeing B707/717/727/737/747/757/767/777/787

  • Bombardier DHC-8

  • Cessna 150/152/172..../208/..../500/550/560/650/750

  • Cirrus SR20/22

  • Dornier 228/328

  • Eurocopter EC 225/SA 330/AS 332 (Super Puma)/ AS350/EC130

  • Fokker F27/F28 (athugið F50 er afbrigði af F27)

Tegundarvottorð EASA loftfara (Type certificate) er gefið út miðlægt af EASA sem sönnun þess að loftfarið hafi staðist vottunarforskriftir stofnunarinnar. 

Tegundarvottorð

EASA gefur út eitt tegundarvottorð sem gildir í öllum aðildarlöndum innan Evrópu og er tegundarvottorð EASA skilyrði til að það sé tekið gilt hérlendis.

Tegundarvottorðshafinn sér til þess að tegundarvottorð loftfars haldi gildi sínu. Honum ber að koma á og viðhalda kerfi til söfnunar, rannsókna og greininga á upplýsingum. 

Þannig skal fylgjast með skýrslum og upplýsingum varðandi bilanir, ólag, galla eða aðrar uppákomur sem valda eða geta valdið óæskilegum áhrifum varðandi áframhaldandi lofthæfi tegundarinnar og íhluta hennar. Byggt á slíkum upplýsingum gefur framleiðandinn út þjónustutilmæli (service bulletin) og beitir sér fyrir að lofthæfi-fyrirmæli (Airworthiness Directives/AD-nótur) séu gefin út af flugmálayfirvöldum.

Hans hlutverk er einnig að útvega varahluti og tæknilega þjónustu til að tryggja að loftfarið sé í samræmi við gildandi reglur. Þetta gildir jafnvel þó framleiðslu tegundarinnar sé lokið (dæmi A310, B757). Með þessu er tegundin studd og þróuð áfram jafnvel þótt framleiðslu hennar sé löngu lokið. 

Þegar tegundarvottorðshafinn ákveður að hætta að þjónusta ákveðna tegund er tegundarvottorðinu skilað til viðkomandi yfirvalda (EASA) og loftför af viðkomandi tegund tekin úr notkun. Stundum er þó mögulegt að viðhalda fáeinum eintökum sem safngripum.

Breytingar á tegundarvottorði

Oft og tíðum er grunnhönnun loftfars breytt af tegundarvottorðshafanum. Meiriháttar breytingar sem falla utan þess sem er hægt að gera með þjónustutilmælum (service bulletins) krefjast þess að viðauki sé gefinn við tegundarvottorð. Sem dæmi má nefna að auka við (eða draga úr) afkastagetu loftfars, flugdrægi og hve mikinn þunga það ber með því að breyta kerfum þess, skrokk, væng eða hreyflum sem endar í nýju afbrigði sem kann að þarfnast endurvottunar. 

Aftur þarf að fara í gegnum sömu grunnskref við vottun og í upphafi og uppfæra viðeigandi skjöl og áætlanir (þ.m.t. viðhaldsáætlun). Hins vegar er ekki þörf á að endurprófa þá hluta loftfarsins sem eru óbreyttir.

Þegar búið er að klára vottunarferlið og niðurstöður sýna að hönnun  og framleiðsla loftfars uppfyllir allar kröfur er viðauka bætt við upphaflega tegundarvottorðið til að nýja afbrigðið sé tilgreint líka.

Viðbótartegundarvottorð (STC)

Sérhver viðbót, niðurfelling eða breyting á vottaðri tilhögun í farþegarými (layout), búnaði, skrokk eða hreyflum sem er gerð af öðrum aðilum en tegundarvottorðshafanum sjálfum krefst þess að gefið sé út viðbótartegundarvottorð. Umfang slíks vottorðs getur verið frá því að vera ansi afmarkað, í mjög víðtækt.

Stundum eru breytingar brotnar upp í nokkrar meiri- og minniháttar breytingar, sem hver og ein fær útgefið viðbótartegundarvottorð hjá EASA. Sem dæmi má taka breytingu farþegavélar yfir í vöruflutningavél:

  • Setja þarf vöruhurð á skrokk flugvélarinnar – mikil breyting á burðarvirki og kerfum vélarinnar.

  • Styrkja þarf gólf flugvélarinnar til vöruflutninga.

  • Ál sett í glugga í farþegarými.

  • Koma fyrir hleðslukerfi fyrir vörur.

  • Koma fyrir eldhúsi (þau eldri eru fjarlægð).

  • Koma fyrir klósettum (þau eldri eru fjarlægð).

Þessar breytingar krefjast einnig mikilla breytinga á handbókum flugvélarinnar.

Áður en viðbótartegundarvottorð eru gefin út er viðhaft svipað verklag og við breytingar á tegundarvottorðinu af hálfu framleiðanda loftfarsins. Sérstaklega er mikil áhersla lögð á umfangsmiklar flugprófanir.


Var efnið hjálplegt? Nei