Hljóðstigsvottorð

(Noise Certificate)

Allar flugvélar og þyrlur sem hafa tegundarvottorð (Type Certificate) útgefið af EASA þurfa að vera með hljóðstigsvottorð

Á vef EASA er að finna upplýsingar um samþykkt hljóðstig fyrir allar gerðir flugvéla og þyrlna sem eru með EASA TC. Vandamál við að finna rétt hljóðstig koma helst upp ef loftförum hefur verið breytt fyrir stofnun EASA og vottun breytinga ekki verið framkvæmd hjá EASA.

Hljóðstigsvottorð EASA er gefið út á EASA Formi 45 af Samgöngustofu í samræmi við hluta I í Parti 21 í reglugerð nr. 380/2013.

Framkvæmd útgáfu

Hljóðstigsvottorð skal gefa út fyrir hvert loftfar þegar það er skráð í loftfaraskrá og fær íslenska skráningarstafi. Ekki er um reglulega endurnýjun þessara vottorða að ræða, því aðeins þarf að endurnýja ef breytingar eru gerðar sem hafa möguleg áhrif á hljóðstyrk loftfarsins.

Þar má nefna t.d. breytingar á hreyflum, skrúfum eða hámarksþyngdum. Jafnframt þarf að gefa út nýtt vottorð ef skráningarstöfum (TF-) loftfarsins er breytt. Hljóðstigsvottorðið skal ætíð vera aðgengilegt ásamt öðrum gögnum sem tilheyra loftfarinu.

Gefin eru út hljóðstigsvottorð fyrir þau loftför í einka- og kennsluflugi sem eru með lofthæfiskírteini í gildi og eru vottorðin send til eiganda eða umráðanda ásamt greiðsluseðli. Í þeim tilfellum þar sem ekki liggja fyrir nægilegar upplýsingar er kallað eftir þeim gögnum sem vantar.

Þau loftför sem þegar eru á loftfaraskrá en eru án lofthæfis í dag fá útgefin hljóðstigsvottorð samhliða nýju lofthæfisvottorði, hafi slíkt hljóðstigsvottorð ekki þegar verið gefið út. Með umsókn um nýtt lofthæfiskírteini eða nýskráningu loftfara skal fylgja umsókn um hljóðstigsvottorð .

Glatað hljóðstigsvottorð er hægt að fá endurútgefið gegn gjaldi.


Var efnið hjálplegt? Nei