Reglur fyrir almannaflug Part M

Reglur fyrir almannaflug Part M gilda fyrir öll EASA loftför 

Samkvæmt reglunum eru gerðar kröfur um stjórnun viðhalds loftfara, sem viðhaldsstjórnunarfyrirtæki (CAMO) sjá í mörgum tilvikum um.

Viðhaldsstjórnunarfyrirtæki (CAMO)

CAMO fyrirtæki bera ábyrgð á að útfæra kröfur um viðhald og skoðanir og skilgreina hvers konar vottunar er krafist í tengslum við einstök verk. Til þess að fá heimild til reksturs CAMO þarf að uppfylla ýmsar kröfur varðandi aðbúnað, aðföng og starfsmenn. Samgöngustofa tekur út og vottar CAMO fyrirtæki á Íslandi.

Algengar spurningar og svör - Part M í einkaflugi

Hvenær tók Part M gildi?

Kröfur um viðhald og viðhaldsstjórnun urðu að veruleika með innleiðingu á svonefndri Part M reglugerð fyrir einkaflug sem tók að fullu gildi þann 28. september 2009. Þessar reglur gilda í aðildarríkjum ESB auk Noregs, Sviss og Íslands.

Fyrir hvaða loftför á Part M við?

Part M á eingöngu við loftför sem eru svokölluð EASA loftför (með tegundarvottorð útgefið af EASA) en ekki þau loftför sem flokkast sem “Annex II” (án tegundarvottorðs frá EASA) t.d. fis, heimasmíði, söguleg loftför o.s.frv.

Hvað er lofthæfistaðfestingaskoðun (Airworthiness Review)?

Lofthæfistaðfestingarskoðun felst m.a. í því að yfirfara gögn loftfarsins t.d. lofthæfifyrirmæli (AD nótur), log-bækur og viðhaldsskrár. Slík skoðun er gerð af tilhlýðilegu samþykktu CAMO fyrirtæki eða samþykktum einstaklingi fyrir ELA1 loftför. Reglugerðin tekur á þeim atriðum sem þarf að skoða og er loftfarið einnig skoðað.

Er lofthæfistaðfestingaskoðun, viðhald?

Nei, lofthæfistaðfestingasrkoðun er ekki viðhaldsaðgerð og CAMO fyrirtæki er ekki viðhaldsfyrirtæki.

Þarf CAMO fyrirtæki með tilhlýðilegt samþykki, til að skrifa loftfar úr ársskoðun?

Nei, AR skoðun er ekki viðhald. Flugvirkjar eða samþykkt viðhaldsfyrirtæki framkvæmir áfram það viðhald sem viðhaldsáætlunin kallar á eða þegar þörf er á viðhaldi t.d. við bilanir.

Hvað tekur lofthæfisstaðfestingarskoðun langan tíma?

Tímalengd fer eftir mörgum þáttum, t.d. því hvernig viðhaldsgögn vélarinnar eru varðveitt og hvernig aðgengi þess sem framkvæmir skoðunina er að gögnunum. Reynslan sýnir að það tekur vanan mann, einn til tvo daga, að framkvæma þessa skoðun ef ekkert er að og gögnin eru aðgengileg.

Hvað er CAMO fyrirtæki?

CAMO stendur fyrir „Continuing Airworthiness Management Organisation“ og er fyrirtæki sem er vottað til þess að annast stjórnun á áframhaldandi lofthæfi loftfara þ.e. fyrirtæki sem m.a. segir til um hvenær viðhald þarf að fara fram. Ákveður einnig hver getur og á að framkvæma viðhaldið, viðheldur viðhaldsskrám o.s.frv. CAMO fyrirtæki getur að auki fengið samþykki til þess að framkvæma AR. Það er auka heimild sem fyrirtækin þurfa að afla sér og það eru ekki öll CAMO fyrirtæki með samþykki fyrir AR þó þau hafi heimild til að stýra áframhaldandi lofthæfi.

Má einstaklingur sjálfur stýra áframhaldandi lofthæfi loftfars síns?

Já, hægt er að halda utan um sitt loftfar eða almennt loftfar í almannaflugi þ.e. ekki er krafa um að CAMO sjái um þann þátt. Viðkomandi má búa til viðhaldsáætlun og fá hana samþykkta, viðhalda viðhaldsáætluninni, stýra hvenær viðhald þarf að fara fram og hvar þarf að framkvæma viðhaldið. Athuga ber að eigandi loftfars er ávallt ábyrgur fyrir lofthæfi þess.

Er einhver munur á að stýra áframhaldandi lofthæfi og að framkvæma AR?

Já, það er ekki sami hluturinn. Það má líkja þessu við fyrirkomulagið með einkabíl. Eigandi stýrir fyrirbyggjandi viðhaldi á honum, lætur framkvæma viðhaldsvinnu þegar þarf t.d. við bilanir eða þegar handbók bílsins kallar á það. Þegar reglur krefjast er farið með bílinn í skoðun hjá tilhlýðilegu samþykktu bifreiðaskoðunarfyrirtæki sem er hægt að líkja við AR nema ekki eru skoðuð viðhaldskrá.

Þarf einhverja þekkingu til að stýra áframhaldandi lofthæfi loftfars í almannaflugi?

Já, viðkomandi þarf m.a. að vita hvernig viðhaldsáætlun er uppbyggð, hvernig á að viðhalda henni og stjórna, t.d. varðandi lofthæfifyrirmæli (AD) og „Service Bulletin“. Þá þarf að vita hvar á að nálgast þau gögn, hver getur framkvæmt hvaða viðhald og þekkja inn á Part M reglugerðina eins og við á um almannaflug.

Er þessi þekking til staðar hjá flugvirkjum almennt?

Nei, almennt ekki enda ekki partur af námi flugvirkja. Um er að ræða áunna þekkingu eins og hjá einkaflugmanninum sem séð hefur um þennan þátt sjálfur. Hins vegar er flugvirkjun mjög góður grunnur, flugvirkjar þekkja flest hugtök og eru oft fljótir að átta sig á umhverfinu.

Er viðhaldsfyrirtæki sem er Part 145 eða Part M Subpart F, sjálfvirkt með CAMO heimild?

Nei, viðhaldsfyrirtæki geta eins og aðrir aðilar sótt um CAMO leyfi. Starfsemi CAMO fyrirtækis felst ekki í viðhaldi og mögulegt er að CAMO fyrirtæki séu ekki með flugvirkja í vinnu.

Hver er munurinn á Part 145 og Part M Subpart F viðhaldsfyrirtæki?

Part 145 viðhaldsfyrirtæki er fyrst og fremst ætlað fyrir flutningaflug (CAT) og er ekki hugsað fyrir almannaflug. Part M Subpart F er viðhaldsfyrirtæki hugsað fyrir almannaflug og þar eru ekki eins strangar kröfur. Því getur slíkt fyrirtæki ekki þjónustað flutningaflug. Ætla má að í framtíðinni verði eitthvað slakað á kröfum varðandi slík fyrirtæki.

Hvað þýðir að loftfar sé í stýrðu umhverfi?

Þá er samningur gerður á milli umráðanda og CAMO fyrirtækis um að CAMO fyrirtækið taki að sér umsjá stýringar áframhaldandi lofthæfi loftfarsins. Ábyrgðin á stýringu flyst þá yfir til CAMO fyrirtækisins en ábyrgð umráðanda felst í upplýsingagjöf til CAMO fyrirtækisins m.a. um flogna flugtíma og að koma með loftfarið í viðhald þegar CAMO fyrirtækið kallar á það.

Hver er ávinningurinn af því að vera með loftfar í stýrðu umhverfi hjá CAMO fyrirtæki?

Ávinningurinn er sá að CAMO fyrirtækið sér m.a. um utanumhald á viðhaldsáætlun loftfarsins, fylgist með og kallar út viðhald, greinir og fer yfir lofthæfifyrirmæli, heldur utan um viðhaldskrár o.s.frv. Þegar loftfar er í stýrðu umhverfi þarf aðeins að framkvæma AR á þriggja ára fresti í stað eins árs. Þess á milli getur CAMO fyrirtækið framlengt ARC um eitt ár í senn.

Eru mörg CAMO fyrirtæki á Íslandi?

Í dag eru 16 CAMO fyrirtæki sem eru öll tengd flugrekstrarleyfum í flutningaflugi. Það er skylda flugrekenda í flutningaflugi að vera með sitt eigið CAMO leyfi. Þessi fyrirtæki geta, ef þau kjósa, þjónustað einkaflug innifeli Camo leyfi þeirra viðkomandi tegund af loftfari.

Eru öll CAMO fyrirtæki með heimild til að framkvæma AR?

Nei, heimild til að framkvæma lofthæfistaðfestingaskoðun (AR) er heimild sem er ekki skylda að hafa með CAMO leyfinu. Hægt er að útvíkka leyfið og bæta þessu við og hafa flest íslensk CAMO fyrirtæki slíka heimild. Þau fyrirtæki  sem ekki hafa heimildina hafa keypt þjónustu frá CAMO fyrirtæki með tilhlýðilega heimild m.a. erlendis frá.

Er skylda að skipta við íslenskt CAMO fyrirtæki eða aðila?

Nei, alls ekki. Þar sem Ísland er aðili að EASA þá er hægt að skipta við hvaða fyrirtæki sem er með tilhlýðilegt CAMO leyfi og heimild til að framkvæma AR. Eins geta íslensk CAMO fyrirtæki notað sín leyfi fyrir erlendan aðila.

Hafa einhverjir íslenskir aðilar notað erlent CAMO fyrirtæki?

Já, bæði í einkaflugi og í flutningaflugi eru nýleg dæmi þess að nokkur erlend CAMO fyrirtæki hafi framkvæmt lofthæfistaðfestingaskoðun á flugvélum hérlendis.

Hvað er til ráða ef loftfar þarf AR og ekkert tilhlýðilegt CAMO er til á Íslandi?

Almennt séð þá þarf að leita til CAMO fyrirtækis erlendis í slíkum tilvikum.

Getur Samgöngustofa veitt undanþágu ef loftfar er stopp vegna þess að það þarf AR?

Nei, Samgöngustofa hefur enga heimild til þess að veita undanþágu og því eina leiðin að fá AR framkvæmt.

Nú er mikið talað um að ekki hefði þurft að innleiða Part M fyrir almannaflugið hér á Íslandi og bent á grein í reglugerð því til stuðnings. Er eitthvað til í þessu?

Sú grein sem vísað hefur verið til er 5. inngangsgrein reglugerðar Evrópuþingsins og Ráðsins (EB) nr. 216/2008 frá 20. febrúar 2008. Þess ber að geta að inngangur að reglugerð er ekki sjálf reglugerðin heldur er ætlað að varpa ljósi á ástæður og markmið að baki setningar hennar. Samgöngustofu er ekki kunnugt um að hægt sé að fá undanþágu fyrir almannaflug á Íslandi frá Part M reglugerðinni og því verður stofnunin að fylgja sinni lögbundnu skyldu og framfylgja ákvæðum reglugerðarinnar þar til annað kemur í ljós.

Getur eitthvert ríki veitt undanþágu frá þessum kröfum?

Aðildarríki EASA eru nú 31 talsins og er Samgöngustofu ekki kunnugt um að hægt sé að fá undanþágu frá Part M reglugerðinni fyrir almannaflug.

Hvert er hlutverk Samgöngustofu í þessu ferli?

Það er ekki Samgöngustofa sem innleiðir reglugerðir ESB hér á landi heldur eru það viðkomandi ráðuneyti eða Alþingi. Samgöngustofa sér einungis um að framfylgja þeim reglum sem falla undir starfsemi stofnunarinnar. Þá skal tekið fram að vegna skuldbindinga Íslands skv. EES-samningnum er stofnuninni skylt að innleiða allar þær reglugerðir ESB sem varða flug.

Algengar spurningar og svör - viðhald á loftförum í almannaflugi

Þær kröfur sem gilda um viðhald loftfara í almannaflugi er fyrst og fremst að finna í reglugerð nr. 926/2015 og er þar einkum vísað til greina sem falla undir Part-M hluta reglugerðarinnar.

Hvað þarf að gera til þess að færa íhlut á milli loftfara?

Í Part M.A.501(a) segir að ekki megi setja íhlut í loftfar nema að íhlutnum fylgi viðeigandi vottunarskjal s.k. EASA Form 1 eða sambærilegt. 

Aðeins svonefnd Part-145 og Part M/ F viðhaldsfyrirtæki með heimild til að framkvæma viðhald á viðkomandi loftfari geta tekið íhlut úr loftfari og vottað hann á EASA Form 1 sem nothæfan (serviceable) og því getur flugvirki sem er einyrki ekki gert þetta einn síns liðs. Þessi aðgerð að taka íhlut úr loftfari og votta hann sem nothæfan (serviceable) er skilgreind sem viðhald.

Í nánara skýringarefni sbr. AMC M.A.613(a) 2.6 og 2.7  segir að hægt sé að taka íhlut úr loftfari og gefa út EASA Form 1 (“used components removed from a serviceable aircraft" eða "used aircraft component removed from an aircraft withdrawn from service").

Hvernig vottar flugvirkinn (einyrki) sína vinnu?

H-kafli Part M fjallar um afhendingarvottorð (viðhaldsvottorð). Þar koma fram þær kröfur sem gerðar eru til flugvirkja sem vinnur sem einyrki þegar votta þarf viðhaldsvinnu (oft kallað að „skrifa vélina út eða loftfarið“). Flugvirkinn þarf að nota og vinna samkvæmt viðeigandi gögnum um viðhaldsstaðla (maintenance standards – sjá kafla D) og íhluti (components – sjá kafla E)

Viðhaldsvottorð skal gefið út í lok viðhalds áður en fyrirhugað flug fer fram. Áður þarf þó að liggja fyrir að nauðsynlegt viðhald hafi verið framkvæmt á réttan hátt. Þegar viðhaldsvottorð er gefið út er flugvirkjanum (viðhaldsvotti) heimilt að njóta aðstoðar eins eða fleiri einstaklinga sem eru undir beinu og stöðugu eftirliti hans við framkvæmd viðhaldsverkefnanna.

Ef ekki er hægt að ljúka viðhaldi áður en viðhaldsvottorð er gefið út er heimilt að geta þess í vottorðinu og er þá loftfarið hugsanlega ekki lofthæft t.d. ef tiltekið verkefni (task) er fallið á tíma (due) eða ef um bilun eða skemmdir er að ræða sem þarf að ljúka viðhaldi á fyrir flug. Ekki skal gefa út viðhaldsvottorð ef vitað er um frávik frá stöðlum þ.a. flugöryggi sé stofnað í hættu.

Í viðhaldsvottorði skulu koma fram:

  • Grundvallaratriði í því viðhaldi sem fram fór. 
  • Tilvísun í viðurkennd gögn ásamt stöðu þeirra (revision status) sem notuð er t.d. viðhaldsáætlun (AMP), viðhaldshandbók (AMM) SB, AD o.s.frv.
  • Dagssetning þegar verkinu er lokið. 
  • Heildarflugtími, tíðir/lendingar, (flying hours/ cycles/landings) o.s.frv. eftir því sem við á. 
  • Mælingar t.d. á sliti og strekkingu kapla (dimentional information). 
  • Nafn og skírteinisnúmer þess viðhaldsvotts sem gefur út vottorðið.
  • Venjuleg undirskrift þess viðhaldsvotts sem gefur út vottorðið.

Staðlaður texti er notaður í yfirlýsingunni (sjá AMC M.A.801(f)) þegar viðhaldsvinna er vottuð og er þetta venjulega skrifað á ensku þ.e.:

“Certifies that the work specified except as otherwise specified was carried out in accordance with Part-M and in respect to that work the aircraft is considered ready for release to service”.

Þegar víðtæk eða yfirgripsmikil vinna hefur farið fram er í lagi að gefa samantekt um það viðhald sem fram fór, svo framarlega sem vitnað er í vinnupakka sem inniheldur fulla lýsingu á þeirri vinnu sem fram fór.

Í lok alls viðhalds þarf eigandi/umráðandi og viðhaldsvottur að tryggja að fyrir liggi nákvæmar og læsilegar skrár um þá vinnu sem fram fór. Viðhaldsvottinn skal sjálfur halda eftir skrám nauðsynlegum til að sanna að öllum kröfum hafi verið fullnægt fyrir útgáfu viðhaldsvottorðs.

Hvaða kröfur eru gerðar varðandi gögn ef eigandi loftfars í almannaflugi vill gera breytingar eða viðgerðir á því?

Framkvæma þarf allar breytingar og viðgerðir á loftförum og íhlutum þess samkvæmt viðurkenndum gögnum (sjá grein M.A.304) og skal styðjast við gögn sem EASA eða hönnunarfyrirtæki með samþykki skv. 21. hluta reglugerðarinnar (DOA) samþykkir eða gögn sem er að finna í vottunarforskriftum þeim sem vísað er til í málsgrein 21A.90B eða 21A.431B, eftir því sem við á. 

Öll viðbótartegundarskírteini (STC) og samþykktar breytingar sem eru ekki á raðnúmeri en voru í flugvélum skráðum á Íslandi fyrir 1. júní 2005 er hægt að nýta áfram án sérstaks samþykkis EASA. Það helgast af hefðarrétti ("grandfather right"). Það sama gildir varðandi STC og breytingar frá öðrum EASA aðildarríkjum, þ.e.a.s. hægt er að nota þau hér á landi. Flest STC á minni loftförum voru skráð hjá Flugmálastjórn. Nýtt FAA STC sem hefur ekki verið notað eða samþykkt áður í EASA aðildarríkjum er ekki hægt að nota að svo komnu máli nema EASA samþykki það með útgáfu EASA STC.

Gögn sem eru samþykkt eru til dæmis: EASA STC, breytingar sem EASA DOA fyrirtæki hefur samþykkt, viðhaldshandbækur (AMM, CMM, SRM o.s.frv.) og gögn sem er hefðarréttur á. Samgöngustofa getur ekki og má ekki samþykkja breytingar á loftförum.

FAA handbókin AC 43-13 telst ekki viðeigandi samþykkt viðhaldsgagn nema gildandi viðhaldsgögn framleiðanda loftfars eða íhlutar vitni sérstaklega í hana. Þetta kann að breytast í framtíðinni.

Viðhaldsvottur (flugvirki) sem fullnægir kröfum í 66. hluta getur framkvæmt breytingar og viðgerðir á loftförum sem eru yfir ELA1 nema ef um er að ræða flókin verk (complex tasks).

Það getur verið nokkuð flókið að vita hvort gögn séu viðurkennd og því ráðleggur SGS umráðendum að leita upplýsingar hjá eftirlitsmönnum2.  áður en farið er út í breytingar eða viðgerðir þar sem vafi getur leikið á samþykki (gildi) gagna.

Hvaða kröfur eru gerðar til íhluta og annarra varahluta eða efna sem notuð eru í loftför?

Allir íhlutir þurfa að vera með vottun skv. EASA Form 1 eða sambærilegu og gerðir fyrir viðkomandi loftfar, þó gilda aðrar kröfur fyrir íhluti sem vísað er til í 21A.307(c). Aðrir varahlutir/efni þurfa að hafa upprunavottorð, þ.e. gögn sem varða greinilega viðkomandi hluti/efni og innihaldsyfirlýsingu um að forskriftum sé fylgt auk upplýsinga um framleiðanda og birgja. Íhlutahandbók loftfarsins (Illustrated Parts Catalog(IPC)) og önnur samþykkt gögn lista þá íhluti sem má nota og þurfa áðurnefnd form að fylgja þeim til að staðfesta að um rétt vottaða hluti sé að ræða. Af þeim sökum eru líkurnar litlar að hægt sé að kaupa varahluti í byggingavöru- eða bílavarahlutaverslun jafnvel þó hluturinn líti út fyrir að vera eins eða jafnvel með sama íhlutanúmer (P/N).

Ítarefni

Loftför með MTOM minni en 5.700 kg

Á einkum við um skóla og þá sem leigja út loftför og flugmenn sem eru umráðendur/eigendur eigin loftfara (Sbr. kröfur M.A. 201(e))

Umráðandi loftfars ber ábyrgð á að stjórna áframhaldandi/viðvarandi lofthæfi þess.

Það getur verið kostur að framselja stjórnunina til CAMO með samningi. Um það gildir:

  • Samningurinn skal vera í samræmi við Viðbæti I við reglugerð EC 1321/2014  (Part-M). Ábyrgð flyst að mestu leiti til CAMO fyrirtækis en þó ber umráðandinn/eigandinn alltaf ábyrgð á að færa loftfarið til viðhalds/skoðunar innan tímamarka.

  • Það er möguleiki að framselja eingöngu til CAMO fyrirtækis þróun og endurskoðun á viðhaldsáætlun (Aircraft Maintenance Programme AMP) sem er aðlöguð að viðkomandi loftfari. Sú viðhaldsáætlun þarf samþykki Samgöngustofu (áður FMS).

  • Samþykki á viðhaldsáætlun fyrir minni loftför.

  • Samgöngustofa getur samþykkt grunnáætlun (,,Baseline” – Generic Maintenace Program) fyrir viðhald sem CAMO fyrirtæki hefur þróað og lagt fram og sem byggir á því sem framleiðandinn mælir með.

  • Einstök CAMO fyrirtæki eða umráðandi/eigandi loftfars getur á grundvelli grunnáætlunar aðlagað áætlunina að tilteknu loftfari. Þá áætlun þarf að samþykkja og tengja skráningunni í íslenskri (TF) loftfaraskrá. Dæmigerð aðlögun tekur mið af núverandi og fyrri starfrækslu loftfarsins, meiriháttar viðgerða, breytinga (STC), kröfum yfirvalda eins og lofthæfifyrirmæla og því sem EASA eða framleiðandinn hefur mælt með varðandi viðhald.

  • Samgöngustofa samþykkir endanlega viðhaldsáætlun tiltekins loftfars en eðlilegast er að það gerist á ,,óbeinan máta” þ.e.a.s. hjá CAMO fyrirtæki sem hefur fengið verklag sitt til þess samþykkt. Það sama á við um breytingar á viðhaldsáætluninni.


Loftför með MTOM minni en 2.730 kg

Flugmaður sem er eigandi/umráðandi loftfars undir 2.730 kg getur sjálfur framkvæmt og ,,skrifað út” þau viðhaldsverkefni sem getið er í viðbæti VIII og tilsvarandi skýringarefni“ (AMC) í reglugerð EC 1321/2014.

Það verður þó að koma fram í samþykktri viðhaldsáætlun (AMP) hvaða verk flugmaður má framkvæma á sinni eigin flugvél.

Hvað varðar þau loftför sem létt teljast í Evrópu (undir 1000 kg  - ELA1) og eru ekki notuð í atvinnuskyni, þá getur flugvéltæknir með Part – 66 skírteini framkvæmt viðhald og skrifað út verk sem flokkast sem flókin (complex maintenance tasks).

Létt loftför (ELA1) eru skilgreind sem flugvél, svifflugvél, vélknúin svifflugvél með MTOM undir 1000 kg og sem eru ekki skilgreind sem flókin vélknúin loftför (Complex aircraft).

Flugvéltæknir með Part-66 skírteini getur framkvæmt og skrifað úr verk sem eru ekki flokkuð sem flókin samkvæmt viðbætir VII í reglugerð EC 2042/2003 á flugvélum sem eru allt að 5.700 kg og einshreyfils þyrlum.

Samþykki á viðhaldsáætlunum fyrir lítil loftför

  • Samgöngustofa getur samþykkt grunnáætlun (,,Baseline” – Generic Maintenance Program) fyrir viðhald sem CAMO fyrirtæki hefur þróað og lagt fram og sem byggir á því sem framleiðandinn mælir með.

  • Einstök CAMO fyrirtæki eða umráðandi/eigandi loftfars getur á grundvelli grunnáætlunar aðlagað áætlunina að tilteknu loftfari. Þá áætlun þarf að samþykkja og tengja skráningunni í íslenskri (TF) loftfaraskrá. Dæmigerð aðlögun tekur mið af núverandi og fyrri starfrækslu loftfarsins, meiriháttar viðgerða, breytinga (STC), kröfum yfirvalda eins og lofthæfifyrirmæla og því sem EASA eða framleiðandinn hefur mælt með varðandi viðhald.

  • Samgöngustofa samþykkir endanlega viðhaldsáætlun tiltekins loftfars en eðlilegast er að það gerist á ,,óbeinan máta” þ.e.a.s. hjá CAMO fyrirtæki sem hefur fengið verklag sitt til þess samþykkt. Það sama á við um breytingar á viðhaldsáætluninni

Viðhald / CRS

Yfirlit um möguleika á því að framkvæma viðhald og skrifa út verk (viðhaldsvottun) er eftirfarandi, en fer þó nánar eftir tegund viðhaldsverka:

  • Flugmaður sem er eigandi/umráðandi (MTOM < 2.730 kg).

  • Flugvéltæknir með PART-66 skírteini (MTOM < 5.700 kg).

  • PART-M Subpart F verkstæði (loftför undir 5.700 kg MTOM í almanna- eða atvinnuflugi öðru en flutningaflugi).

  • PART-145 verkstæði (loftför í almanna- og flutningaflugi og stór loftför MTOM > 5.700 kg).

Athugið:

  • Flugvéltæknir með Part-66 skírteini og PART-M, Subpart F verkstæði getur með vísan í ,,A” áritun sína sinnt að nokkru viðhaldi íhluta og að því loknu skrifað út loftfarið.

  • Flugvéltæknir með Part-66 skírteini fyrir ELA 1 loftfar getur sinnt að nokkru viðhaldi íhluta og að því loknu skrifað út loftfarið.

Endurstaðfesting lofthæfis (ARC)

Tekur til TF loftfara á íslenskri loftfaraskrá og sem eru með MTOM undir 2.730 kg og eru ekki notuð í atvinnuskyni.

Loftfar sem var með gilt lofthæfisskírteini, gefið út af Flugmálastjórn Íslands þann 28. september 2009 og fyrsta íslenska útgefna lofthæfiskírteinið var gefið út fyrir 28. september 2008, þá mátti má endurnýja lofthæfiskírteinið tvisvar allt að 12 mánuði í senn að uppfylltum tilskyldum skilyrðum án þess að CAMO fyrirtæki framkvæmdi Airworthiness Review og gefi út lofthæfistaðfestingarvottorð (ARC). Þessi aðferð við endurnýjun var möguleg til 28. september 2011.

Uppfyllti loftfarið ekki þessi skilyrði þurfti CAMO fyrirtæki að framkvæma staðfestingu á lofthæfi (Airworthiness Review) og gefa út lofthæfistaðfestingarvottorð (ARC). Síðan má framlengja staðfestingarvottorðið fyrir lofthæfi (ARC) í 2x12 mánuði ef loftfarið hefur verið í stýrðu umhverfi hjá CAMO (controlled environment).

Athugið

  • Ef kröfurnar um stýrt umhverfi eru ekki fyrir hendi er ekki unnt að framlengja ARC sjálfkrafa og framkvæma þarf staðfestingu á lofthæfi (Airworthiness Review) áður en vottorðið er endurnýjað. Eftir þrjú ár er alltaf framkvæmd staðfesting á lofthæfi og því fylgir síðan möguleikinn á 2x12 mánaðar framlengingu ef umhverfið er stýrt.

  • Loftför í einkaflugi yfir MTOM 2.730 kg verða alltaf að uppfylla kröfurnar um stýrt umhverfi ef CAMO fyrirtæki á að geta gefið út staðfestingarvottorð fyrir lofthæfi (ARC). Ef kröfurnar um stýrt umhverfi eru ekki uppfylltar er það aðeins SGS sem getur gefið út ARC og sú útgáfa krefst þess að CAMO fyrirtæki hafi mælt með því.

  • Fyrir ELA 1 loftför getur SGS gefið út staðfestingarvottorð fyrir lofthæfi (ARC) sem gildir í 12 mánuði ef flugvéltæknir með Part-66 skírteini hefur framkvæmt staðfestingu á lofthæfi (ARC) og mælir með útgáfu. Þetta má endurtaka einu sinni þ.e.a.s. ARC getur mest gilt í tvö ár með þessari aðferð en þá skal CAMO fyrirtæki framkvæma staðfestingu á lofthæfi og gefur þá út staðfestingarvottorð sem gildir í 12 mánuði. Það staðfestingarvottorð fyrir lofthæfi má síðan framlengja í 2x12 mánuði ef um er að ræða stýrt umhverfi sbr. að ofan.

  • Flugvéltæknirinn skal hafa a.m.k. þriggja ára reynslu af því að stjórna áframhaldandi/viðvarandi lofthæfi auk annarra krafna og hafa hlotið samþykki Flugmálstjórnar. Nánari upplýsingar eru í M.A.901(g) og AMC fyrir þá grein.

  • (Sbr. kröfur M.A. 901, og 1. gr. 2, 4. mgr. reglugerð EC 1321/2014)

  • Sjá yfirlitsmynd

  • http://ww2.caa.is/media/PDF/Yfirlitsmynd_4.pdf  [Ath mynd er á þessum link]

Eftirlit með lofthæfi loftfara  - Úrtaksskoðanir (ACAM)

Mælt er fyrir um að flugmálayfirvöld hvers ríkis skuli hafa eftirlit með áframhaldandi lofthæfi loftfara samkvæmt sérstakri áætlun. Það skyldar flugmálayfirvöld landa innan ESB/EES til að framkvæma úrtaks lofthæfiskoðanir á loftförum sem eru á loftfaraskrám þeirra.

Hvað er eftirlit með áframhaldandi lofthæfi loftfara (ACAM)?

Skammstöfunin ACAM stendur fyrir enska heiti skoðunarinnar Aircraft Continuing Airworthiness Monitoring eða eftirfylgni með áframhaldandi lofthæfi loftfara. Enska skammstöfunin hefur verið notuð um skoðanir sem fara fram í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 926/2015 og viðeigandi reglugerða um loftför. Þessi skoðun er venjubundið eftirlit með starfsrækslu og lofthæfi loftfara. Í þessu skyni gera úrtakskannanir á loftförum. Þessar skoðanir eru aðskildar frá lofthæfisstaðfestingarskoðunum sem eru framkvæmdar af viðhaldsstjórnunarfyrirtæki (CAMO) eða flugvirkja með viðeigandi heimild. Skoðanirnar geta farið fram meðan á viðdvöl eða viðhaldi loftfars stendur eða við starfrækslu á flugvöllum. Venjulega er umráðanda tilkynnt fyrirfram um fyrirhugaða skoðun en skoðun getur þó farið fram án fyrirfram tilkynningar. Einnig er leitast við að tilkynna viðkomandi flugvirkja um slíka skoðun eftir því sem við á hverju sinni – t.d. ef loftfarið er nýkomið úr viðhaldi.

Niðurstöður skoðana eru skráðar og metnar. Ef greind er þróun sem gæti haft áhrif á öryggi getur það haft áhrif á fjöldi loftfara sem skoðuð eru sem og áhersluatriði.

Ef frávik greinast við skoðunina verður umráðandi loftfarsins að gera úrbætur innan tilskilins tíma og aðgerðir til úrbóta verða að vera samþykktar af eftirlitsmanni en yfirleitt er um einföld atriði að ræða.

Það er í þágu flugsins að slíkar skoðanir séu gerðar og aðgerðir til úrbóta séu á grundvelli áreiðanlegrar samvinnu og miðlunar upplýsinga um það sem betur má fara.

Af hverju eru úrtaksskoðanir?

Flugmálastjórn staðfesti áður fyrr lofthæfi EASA loftfara með því að endurnýja lofthæfiskírteini loftfarsins. Til að staðfesta lofthæfið skoðaði eftirlitmaður viðhaldskrá viðkomandi loftfars og oft sjálft loftfarið. Nú hefur þessu verið breytt og fer staðfesting á lofthæfi fram hjá einkaaðila, einstaklingi eða viðhaldstýringaraðila eftir því sem við á.

Til að tryggja eftirfylgni SGS með aðferðum við staðfestingu á lofthæfi var gerð krafa um að hún útbyggji sér áætlun um úrtaksskoðanir til að sannreyna m.a. að viðhaldið, viðhaldsstýringu og eftirlit (lofthæfisstaðfestingarskoðun) annarra hafi raunverulega farið fram í samræmi við reglur.

Umfang skoðana á loftförum í einkaflugi er ekki ósvipað því eftirliti sem stofnunin hafði með höndum fyrir breytinguna sem vísað var til áður. Formfestan er meiri og búið er að skilgreina fyrirfram lykiláhættuþættir varðandi lofthæfi svo kölluð “Key Risk Airworthiness Elements (KRE)”

Einnig geta komið til skoðanir vegna tiltekinna atvika sem tengja má við framangreinda úrtaksáætlun.

Hvaða loftfara tekur eftirlitið til?

Úrtaksskoðanir taka til allra loftfara með EASA tegundarvottorð (flugvélar, þyrlur, svifflugur, vélflugur, loftbelgir og loftskip), sem eru loftför sem falla undir gildissvið reglugerðar (EB) nr. 216/2008, hvort sem þau séu í almannaflugi (einkaflug) eða notuð í atvinnuskyni (t.d. loftför flugrekenda). Enginn munur er á því hvernig skoðanirnar eru framkvæmdar þótt að stærri loftför í eðli sínu taki meiri tíma. Úrtaksskoðun felur þó í sér að aðeins mjög lítill hluti loftfara á skrá er skoðaður.

Loftför sem tilgreind eru í viðauka II (Annex II) við reglugerð (EB) nr. 216/2008 (t.d. fis) gangast ekki undir ACAM skoðun en heyra undir eftirlit Flugmálastjórnar á grundvelli laga um loftferðir nr. 60/1998.

Er hægt að hafna úrtaksskoðun?

Nei, eigandinn/umráðandinn er skyldugur til að veita eftirlitsmönnum FMS aðgang að loftfarinu og gögnum þess.

Hvernig eru úrtaksskoðanir framkvæmdar?

Úrtaksskoðanir (ACAM) felast í:

  • Skoðun á viðhaldsskrá loftfarsins.

  • Skoðun á sjálfu loftfarinu þ.e. á hlaði eða í flugskýli á meðan loftfarið er í rekstri eða jafnvel meðan á viðhaldi loftfars stendur.

  • Venjulega er umráðanda tilkynnt fyrirfram um fyrirhugaða skoðun og á hún sér stað á tímapunkti sem ákveðinn er með eigandanum. Í sumum tilfellum getur skoðun á sjálfu loftfarinu farið fram á flugvöllum án fyrirfram tilkynningar. Ef loftfarið er í viðhaldi er viðkomandi flugvirkja tilkynnt um skoðunina eftir aðstæðum.

  • Þessar skoðanir eru ekki fullnægjandi lofthæfiskoðanir, þar sem skoðunin beinist aðeins að ýmsum fyrirframgreindum lykiláhættuþáttum varðandi lofthæfi (Key Risk airworthiness Elements (KRE)). Eftirlitsmaður ræður umfangi ACAM skoðunar hverju sinni eftir aðstæðum

  • Skoðuninni er annars vegar skoðun á viðhaldsskrá loftfarsins þar sem tekin eru úrtök og hins vegar skoðun á loftfarinu sjálfu. Erfitt er að segja hvað svona skoðun tekur langan tíma. Það fer eftir stærð loftfarsins og aðgengi að viðhaldsskráakerfinu. Reikna má með að fyrir minni loftför geti það tekið um og yfir þrjá klukkutíma og fyrir stór loftför einn til tvo daga. Venjulega fer mesti tíminn í að skoða viðhaldsskrána en sjálft loftfarið þarf aðeins að vera til staðar þegar það sjálft er skoðað.

Hvernig get ég undirbúið mig fyrir úrtaksskoðun?

Ef tilkynnt hefur verið fyrirfram um skoðun þarf loftfar og viðhaldskrá að vera til staðar á umsömdum tíma.

Æskilegt er að loftfar sé hreint til skoðunar.

Það er allra hagur að umráðandi eða tengiliður sem er kunnugur loftfarinu og viðhaldskrám þess sé viðstaddur skoðunina. Þannig getur eftirlitsmaður með einföldum og auðveldum hætti fengið svör við spurningum á staðnum. Skoðunin getur falið í sér að opna og loka hreyfilhlífum eða öðrum hlífum, ræsa kerfi loftfarsins o.s.frv. þannig að nauðsynlegt getur verið að á staðnum sé viðhaldsvottur með réttindi á viðkomandi loftfar til þess, ef við á, að gefa út afhendingarvottorð (viðhaldsvottorð).

Það er lagt í hendur eiganda/umráðanda að útvega flugvirkja (viðhaldsvott) sem er fær um að lagfæra frávik á loftfarinu ef þau greinast.

Hvernig á ég að taka á frávikum sem greinast?

Á meðan á skoðuninni stendur er útbúin bráðabirgðaskýrsla sem inniheldur upplýsingar um öll frávik sem greinast. Frávik eru flokkuð af eftirlitsmanninum í samræmi við áhættu þeirra og skráð sem stig (level) 1 eða 2.

Eftirlitsmaðurinn skrifar formlega úttektarskýrslu sem send er umráðanda og er umráðandi loftfars ábyrgur fyrir því að aðgerðir til úrbóta séu framkvæmdar innan tilgreindra tímamarka.

Frávik af stigi 1 (Level 1 findings)

  • Frávik af stigi 1 verður að lagfæra fyrir næsta flug. Meðan beðið er eftir lagfæringu er lofthæfistaðfestingarvottorðið sjálfkrafa fellt úr gildi. Í sumum tilfellum mun eftirlitsmaðurinn taka það með sér. Ekki eru tímamörk á fráviki af stigi 1, önnur en þau að gera þarf úrbætur fyrir næsta flug. Þegar úrbætur hafa farið fram er lofthæfistaðfestingarvottorð gefið út að nýju og sent til umráðanda loftfarsins hafi það var tekið.

  • Í sumum tilfellum er hægt að fara í flug þó svo ekki sé búið að loka fráviki, en bætt hefur verið úr sjálfu frávikinu þó svo að eftir sé að svara, hvers vegna þetta gerðist og hvað var gert til að koma í veg fyrir að það endurtaki sig. Dæmi: Í ljós kemur að AD nóta hefur ekki verið framkvæmd sem átti að vera búið. Þetta er frávik 1 og þarf að lagfæra fyrir næsta flug. AD nótan er gerð án tafar og sannanir þar um er komið til eftirlitsmanns sem getur þá heimilað frekara flug þótt eftir eigi að skýra ástæður fráviksins og úrbætur.

  • Frávik af stigi 2 (Level 2 findings)

  • Frávik af stigi 2 verður að lagfæra innan tímamarka sem nefnd eru í skýrslunni sem getur verið allt að 90 dögum.

  • Lokun mála sem varða frávik.

  • Áður en aðgerðir til úrbóta eru framkvæmdar er gott að bera það undir eftirlitsmann SGS. Frávikum er síðan hverju og einu lokað á sér eyðublaði, LHD-201 (skýrsla um úrbætur) og verða viðeigandi gögn sem staðfesta úrbætur að fylgja með.

  • Umráðandi þarf aðgreina orsakir fyrir frávikum ef einhverjar eru og nota áðurgreint eyðublað til þess þ.e. eitt frávik, eitt eyðublað, þrjú frávik, þrjú eyðublöð. Þetta er m.a. gert til að komast að orsökum frávika, til að ákvarða megi viðeigandi aðgerðir til úrbóta og þannig tryggja að hægt sé að forðast sömu frávik í framtíðinni. Eftirlitsmenn FMS veita nánar leiðbeiningar sé þess óskað en að öllu jöfnu er einfalt að gera grein fyrir úrbótum.

Hvernig eru frávik flokkuð?

SGS styðst við eftirfarandi flokkun við mat á 1. og 2. stigs frávikum (level 1, level 2):

Svigrúm til mats getur verið takmarkað í vissum tilvikum (sbr. ákvæði M.A.902 (b)).

1. stig (Level 1) 2. stig (Level 2)
Lofthæfi fyrirmæli (Airworhiness Directive, AD) sem ekki er fylgt (complied with), komin yfir tímamörk (overdue), eða að ekki er hægt að sýna fram á að hafi verið framkvæmt eða fylgt. AD ekki rétt skráð eða ekki skráð í viðhaldsskrár en staðfest að ekki sé komið yfir tímamörk.                                       
Vottunar viðhalds kröfum (Certification Maintenance Requirements (CMR)) eða lofthæfitakmörkun (Airworthiness Limitation (ALI) ekki er fylgt eða komin yfir tímamörk. Utanumhald á gögnum er tengjast CMR eða ALI verkum og viðhaldsstjórnun ábótavant en staðfest að verkefni er ekki komið yfir tímamörk.
Íhlutur sem kominn er fram yfir líftíma (Life Limited). Utanumhaldi og skráningu ábótavant en íhlutur í lagi.
Breytingar sem ekki hafa samþykki Part 21 þ.e. loftfarið er ekki í samræmi við þá tegundarhönnun (TCDS/STC) sem Flugöryggisstofnunin samþykkti. Utanumhaldi og skráningu ábótavant fyrir breytingar.
Breytingar á tegundarvottorðum (Supplemental Type Certificate (STC)) eða þjónustuleiðbeiningum (Service Bulletin (SB)) sem hafa Part 21 samþykki en hafa ekki verið gerðar rétt eða hlutum sleppt samkvæmt STC-inu eða SB-inu þ.e. loftfarið er ekki í samræmi við þá tegundarhönnun (TCDS) sem Flugöryggisstofnunin samþykkti.
Viðgerðir sem ekki liggur fyrir að framkvæmdar hafi verið samkvæmt samþykktum gögnum (approved data) og/eða ekki skráðar. Utanumhaldi og skráningu í viðhaldsskrár ábótavant en staðfest að viðgerð uppfyllir hönnunarkröfur.
Skemmdir sem ekki liggur fyrir að hafi verið metnar samkvæmt M.A.304.
Ólöglegir íhlutir í loftfari sem samræmast ekki forskriftum, (TC, STC holder etc.).
Vöntun á vottorðum fyrir íhluti sem settir hafa verið í loftfar og staðfest er að ekki er til. Vöntun á vottorði fyrir íhlut sem settur hefur verið í loftfar en ekki ástæða til að ætla að vottorðið sé ekki til. Íhluturinn er sannanlegur íhlutur fyrir loftfarið samkvæmt myndskýrðu hlutaskrá loftfarsins (Illustrated Part Catalog (IPC)), STC o.sfrv.
Viðhaldsáætlun hefur ekki verið fylgt og skoðunar- og viðhaldsatriði komin framyfir tíma, framyfir „variation“ tíma.

Önnur verkefni í tengslum við áframhaldandi lofthæfi önnur en CMR, ALI, AD o.þ.h. verkefni sem komin eru á tíma og svigrúm til að framkvæma við fyrsta hentuga tækifæri innan „variation“ tíma.

Einnig viðhaldsverkefni sem einhverra hluta vegna vantar í samþykkta viðhaldsáætlun en eru ekki komin á tíma.

Skyldu (Mandatory) merkingar samkvæmt upplýsingablaði tegundavottorðs (Type Certificate Data Sheet (TCDS)), Flughandbók (Aircraft Flight Manual (AFM)), lofthæfifyrirmæli (Airworthiness Directive (AD)) og eða viðhaldshandbók (Aircraft Maintenance Manual (AMM)). Merkingar á loftfari sem vantar eða eru skemmdar eða óskýrar en eru ekki skylda samkv. TCDS, AFM, AD og eða AMM.
Almennum frágangi á viðhaldsskrám ábótavant, t.d. færslur óskýrar, vöntun, misræmi í tímafærslum o.þ.h
Íhlutur í loftfari samræmist ekki viðhaldsskrám en er löglegur. (t.d. misræmi í raðnúmerum).
Neyðarbúnað loftfars vantar, skemmdur eða kominn yfir líftíma.
Flughandbók (AFM) ekki til staðar eða gildir ekki fyrir viðkomandi loftfar, AD sem krafa er um að sé í flughandbók ekki til staðar. AFM ekki rétt uppfærð (up-to-date).
Gildandi massa og jafnvægisskýrsla ekki til og „CG“ óþekkt unknown.

Hvað kostar úrtaksskoðun?

SGS innheimtir ekki gjald fyrir ACAM skoðun. Þar sem að umráðandinn er skyldugur samkvæmt lögum og reglugerðum til að veita aðgang að loftfari og viðhaldsskrám þess er hugsanlegur kostnaður umráðanda vegna þessa ekki endurgreiddur.

Hvaða kröfur um þjálfun og reynslu eru gerðar til úrtaksskoðunarmanna?

Eftirlitsmenn SGS hafa viðeigandi menntun og reynslu auk þess að hafa hlotið nauðsynlega þjálfun sem þarf til að annast skoðanir á loftförum (sjá nánar Part M section B AMC M.B.102(c)). Eftirlitsmennirnir annast þannig bæði skoðun á viðhaldskrá og á loftfarinu sjálfu. Eins og staðan er þá eru allir eftirlitsmenn stofnunarinnar sem sinna þessu verkefni með skírteini samkvæmt Part-66 og áralanga viðhalds- og viðhaldsstýringareynslu loftfara.

Leiðbeiningar fyrir eiganda eða leigutaka loftfars sem notað er til einkaflugs í kjölfar úttektar (ACAM)

Samkvæmt kröfum ber Samgöngustofu skylda til að framkvæma úrtakskannanir á lofthæfi loftfara sem eru á skrá á Íslandi. Eigandi loftfars ber ábyrgð í lofthæfi þess nema að loftfarið sé leigt, en þá flyst ábyrgð eigandans til leigutakans enda sé leigutakinn tilgreindur á skásetningarskjalinu eða það sé tekið fram í leigusamningnum.

Skýrir þetta ástæður þess að Samgöngustofa framkvæmir úttektir á loftförum notuðum til einkaflugs og hvers vegna stofnunin er í samskiptum við eiganda eða leigutaka vegna slíkra úttekta.

Spurt og svarað - ferjuleyfi

Hvað þarf að gera til að fá heimild fyrir ferjuflug?

Gefa þarf út flugleyfi fyrir loftför sem standast ekki, eða sem ekki hefur verið sýnt fram á að standist viðeigandi kröfur um lofthæfi en eru fær um öruggt flug samkvæmt skilgreindum skilyrðum.

Sækja þarf um samþykki á skilyrði til flugs og flugleyfi (Permit to Fly). Það ferli krefst útfyllingar á þremur eyðublöðum sem eru:

  • Eyðublað 18b sem er skilyrði til flugs (Flight Condition)

  • Eyðublað 137 eða 37 sem er umsókn um samþykki án skilyrða til flugs á eyðublaði 18b

  • Eyðublað 21 sem er umsókn um flugleyfi (Permit to Fly)

  • SGS gefur út flugleyfið (Permit to Fly) en EASA eða SGS samþykkir skilyrði til flugs (Flight Condition) eftir því sem við á.

Hvenær á þá að sækja um samþykki á skilyrði til flugs til Samgöngustofu og hvenær til EASA?

Sækja skal til SGS um samþykki á flugskilyrðum. Þó þarf að sækja um til EASA um samþykki á flugskilyrðum þegar um er að ræða eitt af eftirfarandi atriðum: Loftfarið uppfyllir ekki sitt tegundarvottorð t.d. skemmd á burðarvirki eða breyting sem er ekki samkvæmt viðurkenndum gögnum eða;

  • Lofthæfifyrirmæli (AD nóta), lofthæfitakmarkanir (Airworthiness Limitation) eða tegundarhönnunar viðhalds kröfur (Certification Maintenance Requirement) hefur ekki verið framfylgt.

  • Þegar fyrirhugað flug er utan samþykkts flughams í flughandbók (outside the approved envelope).

Hvernig er ferlið þegar sótt er um heimild fyrir ferjuflugi til EASA?

Ferlið þegar sótt er um til EASA:

  • Fylla út eyðublað EASA Form 18b og EASA Form 37.

  • Senda til EASA og fá samþykki fyrir skilyrðum til flugs.

  • Fylla út eyðublað 21 sem er umsókn um flugleyfi.

  • Senda það til SGS ásamt samþykktu eyðublaði 18b.

  • SGS gefur út leyfi til flugs.

Hvernig er ferlið þegar sótt er um heimild fyrir ferjuflugi til Samgöngustofu?

Ferlið þegar aðeins er sótt um til SGS:

  • Fylla út eyðublað EASA Form 18b og form LHD-137.

  • Fylla út eyðublað EASA Form 21 sem er umsókn um flugleyfi.

  • Senda þau til SGS.

  • SGS samþykkir skilyrði til flugs á eyðublaði 18b gefur út leyfi til flugs.

Hvar finn ég öll þessi form?

EASA Form 18b og EASA Form 37 eru aðgengileg á vefsíðu EASA.

EASA Form 18b, LHD-137 og EASA Form 21 eru aðgengileg á heimasíðu SGS undir eyðublöð.

Viðhaldsáætlanir fyrir almanna- og einkaflug

Athugið: Tekur ekki til flutningaflugs, verkflugs né flugskóla.

Efni Innihald Gildistaka
LHD-233

Application for the approval of an Aircraft Mantenance Programme, Individuale for Aircraft which are not used in commercial operation <2.730 kg.


Note: Is not applicable for commercial air transport, aerial work nor flight schools

15.09.2009
LHD-232

LHD232 AMP Template [non-CAT less than 2730 kg]

Note: Is not applicable for commercial air transport, aerial work nor flight schools

01.07.2010
Guidance

Guidance for Aircraft Maintenance Programme for aircraft which are not used in commercial operation < 2730 kg.

Note: Is not applicable for commercial air transport, aerial work nor flight schools

01.07.2010



Var efnið hjálplegt? Nei