Flugvéltæknar

Nauðsynlegt er að hafa skírteini flugvéltæknis, svokallað Part 66 skírteini, til að fá leyfi til að annast viðhaldsvottun loftfara sem eru með gilt tegundarskírteini frá Flugöryggisstofnun Evrópu ( EASA)

Einnig er gerð krafa um slíkt skírteini til að starfa sem aðstoðarmaður í flokki B1, B2 og B3 þegar kemur að aðalviðhaldi slíkra loftfara. Þess ber að geta að auk skírteinisins er nauðsynlegt að hafa tegundaráritun fyrir loftfarið sem unnið er við.

Kröfur til umsækjanda

Til að öðlast slíkt skírteini og tegundaráritun þurfa umsækjendur að uppfylla kröfur sem tilgreindar eru í reglugerð (ESB) nr. 1321/2014, ásamt síðari breytingum. Evrópureglugerðin er innleidd með reglugerð nr. 926/2015 og 433/2016. Um er að ræða samevrópskar reglur og njóta skírteini flugvéltækna gagnkvæmrar viðurkenningar á grundvelli EES-samningsins.

Um reglugerðina

Reglugerðinni er skipt upp í fjóra viðauka (hluta) sem eru almennt þekktir sem Part M, Part 145, Part 66 og Part 147. Með tilvísun í Part 66 er því átt við tiltekinn hluta í reglugerðarinnar. 

Athuga ber að allir hlutarnir tilheyra sömu reglugerð og skal því skoða hana sem eina heild. Því þarf oft og tíðum að fara í annan hluta en þann sem er verið að lesa til að skilja hver krafan er.

Skyldur skírteinishafa

Part 66 skírteini hefur ýmsar upplýsingar að geyma sem flugvéltækni ber að skilja og er það skylda hans að passa að ekki sé unnið á önnur loftför en hann hefur réttindi og/eða þekkingu á og passa upp á gildistíma skírteinis. Krafa er í reglugerðinni um að flugvéltæknir haldi skráningarbók (logbook) fyrir þau verk sem unnin eru.


Var efnið hjálplegt? Nei