Nám í flugumferðarstjórn

Til að fá leyfi til að starfa sem flugumferðarstjóri er nauðsynlegt að hafa skírteini flugumferðarstjóra

Þær kröfur sem þarf að uppfylla til slíks er að finna í reglugerð um skírteini flugumferðarstjóra og lúta þær m.a. að aldri, menntun og heilbrigði. Um er að ræða samevrópskar reglur og eru skírteini flugumferðarstjóra viðurkennd innan EES á grundvelli EES-samningsins.

Til að fá útgefið skírteini flugumferðarstjóra er skylda að umsækjandi sé handhafi nemaskírteinis í flugumferðarstjórn.

Nemaskírteini

Til að fá slíkt skírteini þarf umsækjandi að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

 • Hafa náð 18 ára aldri.
 • Hafa lokið framhaldsskólanámi sem veitir aðgang að háskóla eða annarri sambærilegri menntun.
 • Vera handhafi gilds heilbrigðisvottorðs.
 • Hafa sýnt fram á fullnægjandi tungumálafærni í samræmi við ákvæði reglugerðar.
 • Hafa lokið viðurkenndri grunnþjálfun í flugumferðarstjórn.

Nemaskírteini veitir skírteinishafa eftirfarandi réttindi:

 • Rétt til að veita flugstjórnarþjónustu undir eftirliti starfsþjálfara.
 • Rétt til að sækja um starfsþjálfun innanlands sem og innan EES svæðisins.
 • Áritun til fjögurra ára sem veitir leyfi til starfsnáms, en að þeim tíma loknum má sækja um viðbótaráritun að undangenginni athugun á hvort handhafi standist skilyrði.

Skírteini flugumferðarstjóra

Til þess að geta sótt um skírteini flugumferðarstjóra þarf umsækjandi að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

 • Vera handhafi nemaskírteinis.
 • Hafa náð 21 ára aldri.
 • Vera með gilt heilbrigðisvottorð.
 • Sýna fram á tungumálafærni samkvæmt reglugerð.
 • Hafa lokið starfsþjálfun í flugstjórnardeild hjá veitanda flugumferðarþjónustu með fullnægjandi árangri og staðist viðeigandi próf.

Var efnið hjálplegt? Nei