Ný ATPL námskrá

Ný námskrá tekur gildi fyrir nemendur sem hefja bóklegt atvinnuflugmannsnám eftir 31. maí 2020. Á það einnig við um frekari þjálfun námsefnis vegna endurupptöku. Fyrstu próf eftir nýrri námskrá verða haldin í október prófsetu Samgöngustofu 2020. "Eldri nemendum" sem hefja próftöku hjá Samgöngustofu fyrir þann tíma gefst færi á að klára sín próf eftir eldri námskrá til 31. janúar 2022.

Flugöryggisstofnun Evrópu (EASA) hefur gefið út nýja námskrá fyrir bóklegt atvinnuflugmannsnám (ATPL) sem tekur gildi á næstunni. Flugskólum á Íslandi hefur verið gert að innleiða þá námskrá fyrir bókleg námskeið sem hefjast eftir 31. maí 2020.

Samgöngustofa vill vekja athygli á því að um er að ræða talsverðar breytingar á uppbyggingu bóklegs ATPL náms sem snertir þá nemendur sem hefja bóklegt nám (þ.m.t. frekari þjálfun á ATPL námsefni vegna endurupptöku á prófum Samgöngustofu) eftir 31. maí 2020.

Helstu breytingar í nýrri ATPL námskrá


  • Námskrá hefur verið uppfærð og námsmarkmið í mörgum tilfellum færð á milli próffaga.
  • Eldri námsmarkmið uppfærð, eða eytt, og nýjum bætt við í flestum próffögum. Það er gert í samræmi við tækniþróun, breyttar verklagsreglur og nýjar áherslur í fluggeiranum.
  • Próffögin "091-VFR COM" og "092-IFR COM" hafa verið sameinuð í eitt: "090-Communications";
  • Nýju fagi, "Area 100 – Knowledge, Skills and Attitudes (KSA)", hefur verið bætt inn í námskrá. Athugið að ekki verður prófað úr því fagi í prófum hjá Samgöngustofu. Nemendum er gert að standast öll lokapróf og lokanámsmat í Area 100–KSA hjá sínum flugskóla áður en þeir hefja fyrstu tilraun við sitt síðasta próffag í prófum Samgöngustofu.

Nýr spurningabanki fyrir ATPL próf

Í tengslum við þessar breytingar hefur verið gefin út ný útgáfa af samevrópskum spurningabanka (ECQB 2020) sem sniðinn er að nýrri námskrá fyrir bókleg ATPL próf. Samgöngustofa mun innleiða þann spurningabanka eftir 31. ágúst 2020 fyrir þá nemendur sem þetta snertir. Miðað við útgefna prófaáætlun má áætla að fyrstu próf þar sem prófað verður eftir nýrri námskrá verði haldin 05.–09. október 2020. Athugið að próf úr nýjum spurningabanka verða aðeins lögð fyrir þá nemendur sem eru að hefja próftöku eða nýja tilraun við ATPL prófin í heild sinni (þ.m.t. endurupptöku á bóklegum prófum hjá Samgöngustofu) eftir 31. ágúst 2020.

Nemendur sem hefja próftöku sína fyrir 31. ágúst 2020 (þjálfaðir skv. eldri námskrá) gefst færi á að klára sín próf á eðlilegum tíma, í sex setum á 18 mánuðum. Eftir 31. janúar 2022 verður eingöngu prófað eftir nýrri námskrá. Tveir spurningabankar verða keyrðir samhliða fyrir sitthvorn hópinn þangað til.

Sérstök athygli er vakin á því að eldri nemendum verður ekki heimilt að hefja nýja tilraun við bókleg ATPL próf skv. eldri námskrá eftir 31. ágúst 2020, t.d. við fall á prófum Samgöngustofu í heild sinni. Líkt og áður er þeim nemendum gert að leita frekari þjálfunar hjá sínum flugskóla.

Nemendum er bent á að leita til síns flugskóla með fyrirspurnir í tengslum við framangreindar breytingar. Gildandi reglugerð má finna í heild sinni á vef EASA .

Tilkynning Samgöngustofu (PDF)


Var efnið hjálplegt? Nei