ATPL námskrá
Flugöryggisstofnun Evrópu (EASA) hefur gefið út uppfærða námskrá fyrir bóklegt atvinnuflugmannsnám (ATPL). Flugskólum á Íslandi var gert að innleiða þá námskrá fyrir bókleg námskeið sem hófust eftir 31. maí 2020.
Um er að ræða talsverðar breytingar á uppbyggingu bóklegs ATPL náms sem snertir þá nemendur sem hefja bóklegt nám og þreyta próf (þ.m.t. þjálfun vegna endurupptöku á ATPL prófum) eftir 31. maí 2020.
Helstu breytingar á ATPL námskrá
- Námskrá hefur verið uppfærð og námsmarkmið í mörgum tilfellum færð á milli próffaga.
- Eldri námsmarkmið uppfærð, eða eytt, og nýjum bætt við í flestum próffögum. Það er gert í samræmi við tækniþróun, breyttar verklagsreglur og nýjar áherslur í fluggeiranum.
- Próffögin "091-VFR COM" og "092-IFR COM" hafa verið sameinuð í eitt: "090-Communications";
- Nýju fagi, "Area 100 – Knowledge, Skills and Attitudes (KSA)", hefur verið bætt inn í námskrá. Athugið að ekki verður prófað úr því fagi í prófum hjá Samgöngustofu. Nemendum er gert að standast lokanámsmat í 100 – Knowledge, Skills and Attitudes (KSA) hjá sínum flugskóla áður en þeir hefja fyrstu tilraun við sitt síðasta próffag á prófum Samgöngustofu.
Í tengslum við þessar breytingar var gefin út ný útgáfa af samevrópskum spurningabanka (ECQB) sem sniðinn er að uppfærðri námskrá fyrir bókleg ATPL próf. Hefur hann nú verið tekinn í gagnið.
Sérstök athygli er vakin á því að eftir 31. ágúst 2020 verður próftökum ekki heimilt að hefja nýja tilraun við bókleg ATPL próf skv. eldri námskrá, eftir fall á fyrri tilraun. Líkt og áður er þeim nemendum gert að leita frekari þjálfunar hjá sínum flugskóla.
Nemendum er bent á að leita til síns flugskóla með fyrirspurnir í tengslum við framangreindar breytingar. Gildandi reglugerð má finna í heild sinni á vef EASA .