Spurt og svarað um verkleg próf

Hver er munurinn á hæfniprófi og færniprófi?

Hæfnipróf á við þegar um er að ræða framlengingu áritana sem eru í gildi sem og endurnýjun á þeim ef við á. Færnipróf á við þegar um er að ræða útgáfu skírteina og áritana sem og endurnýjun útrunna áritana ef við á.

Í hverju felst færnipróf?

Umsækjendur um flugmannsskírteini þurfa að taka færnipróf hjá prófdómara þegar bóklegu námi, bóklegum prófum og verklegri þjálfun er lokið.

Það eru tvenns konar markmið með færniprófi:

  • Staðfesta að umsækjandi sé fær um að stjórna loftfari af fyllsta öryggi, þannig að hvorki honum sjálfum, farþegum hans né annarri flugumferð sé hætta búin.

  • Fá yfirsýn yfir gæði þjálfunar flugskólanna með því að athuga árangur í flugprófum.

Hvernig skrái ég mig í verklegt próf?

Umsækjendur um færnipróf er úthlutað prófdómara af viðkomandi flugskóla í samræmi við samþykkt verklag. Umsækjendur um hæfnipróf hafa sjálfir samband við prófdómara eða í samráði við flugskóla.

Dæma allir flugprófdómarar eins?

Allir prófdómarar eru atvinnuflugmenn með mikla reynslu og vita vel til hvers er ætlast af þeim. Þeir eru allir samhæfðir og fylgja sömu reglum og kröfum og nákvæmum lýsingum á því hvernig og í hverju skuli prófa.

Hvernig er færniprófið byggt upp?

Flugprófið er í þremur hlutum:

  • Fyrirflugsathugun

Farið er yfir það hvernig prófinu skuli háttað og athugað hvort um sé að ræða sérstakar reglur varðandi aðstæður. Farið er munnlega yfir bóklegt efni en með því er athugað hvort umsækjandi geti í raun nýtt sér þá þekkingu sem hann hefur aflað sér.

  • Flugið

Í því felst áætlunargerð og að stjórna loftfarinu. Fengnar eru upplýsingar um veður og mat á því, NOTAM athugað, vigt- og jafnvægisútreikningar gerðir, flugtaks- og lendingarvegalengdir eru metnar, ákveðnar eru vararáðstafanir, eldsneytisnotkun metin og gerð rekstrarflugáætlun og ATC flugáætlun.

  • Eftirflugsathugun

Farið er yfir prófið að því loknu og frammistaða nemandans rædd og gerð grein fyrir ástæðum ef hann stenst ekki prófið.

Raunsætt er að gefa góðan tíma fyrir undirbúning flugs og er honum í mörgum tilvikum lokið áður en prófdómarinn mætir. Flest flugpróf fela í sér flug frá A til B og síðan til C, auk vissra aðgerða sem flugneminn á að framkvæma. Prófdómarinn leitast við að láta flugið líkjast sem mest venjubundnu flugi.

Verkefnin eru innan þess ramma sem kveðið er á um í viðurkenndri þjálfunarskrá sem er í samræmi við kröfur í reglugerð og ætti því að fela í sér atriði sem umsækjandinn hefur fengið þjálfun í.

Er munur á verklegum prófum?

Flugprófin eru mismunandi eftir því um hvers konar próf er að ræða: Einkaflugmannspróf, atvinnuflugmannspróf, blindflugspróf eða próf á tveggja hreyfla flugvél. Í aðalatriðum eru þau þó eins. Meðan á prófinu stendur er umsækjandinn skráður nemandi og prófdómarinn flugstjóri og ber hann ábyrgð á fluginu í heild.

Hvers er vænst af nemanda og hvaða kröfur eru gerðar til hans?

Þegar nemandinn kemur í prófið hefur hann með sér nauðsynleg gögn. Þess er vænst að hann hafi náð þeirri færni að geta án hjálpar og af fyllsta öryggi framkvæmt öll þau atriði sem nauðsynleg eru til að ljúka fluginu á öruggan hátt. Nemandinn á að framkvæma allt sem flugstjóra ber að gera og hafa frumkvæði og taka ákvarðanir í samræmi við ábyrgð flugstjóra. Nemanda ber að segja prófdómaranum hvað hann ætli að gera og hvers vegna. Það getur komið í veg fyrir misskilning sem e.t.v gæti orðið til þess að prófdómarinn felli rangan dóm.

Nemandinn skal sýna að hann geti:

  • Starfrækt loftfarið innan þeirra takmarkana sem því er sett.

  • Lokið öllum flugbrögðum af lipurð og nákvæmni.

  • Viðhaft góða dómgreind og flugmennsku.

  • Beitt þekkingu á flugleiðsögu, ef við á.

  • Alltaf haldið góðri stjórn á loftfarinu með þeim hætti að aldrei verði efast um að aðgerð eða flugbragð beri góðan árangur.

Hvernig er prófið metið?

Yfirleitt ræður heildarútkoma úrslitum. Þess vegna er mikilvægt að vita að það skiptir ekki öllu máli þó að mistök séu gerð í verklagi eða ekki takist að ljúka aðgerð sem byrjað er á. Oft er mikilvægara að nemandinn bregðist rétt við slíkum aðstæðum og hafi flugöryggi í fyrirrúmi. Almenn viðmiðunarmörk eru sett í reglugerð. Prófdómarinn tekur tillit til ókyrrðar í loftfari og stjórnunareiginleika og afkastagetu þess loftfars sem notað er.

Nemandinn má, að fengnu leyfi prófdómara, endurtaka hvert flugbragð eða hverja aðgerð prófsins einu sinni.

Hvenær telst verklegt próf staðið?

  • Ef ekki eru gerð þau mistök í prófi sem eiga að valda því að nemandinn falli (mistök sem fela í sér að öryggi sé ekki haft í fyrirrúmi).

  • Ef nemandinn hefur sýnt fram á að hann hafi þekkingu og færni sem nýtist honum í raun.

  • Ef nemandinn hefur sýnt góða dómgreind og að hann kunni að nýta sér þau úrræði sem hann hefur yfir að ráða.

  • Ef nemandinn hefur sýnt fram á að hann geti stjórnað loftfarinu á yfirvegaðan og nákvæman hátt og innan viðurkenndra takmarka loftfarsins og í samræmi við gildandi lög og reglur.

Hvenær telst verklegt próf ekki staðið?

  • Ef alvarleg mistök hafa verið gerð (öryggis ekki gætt).

  • Ef vafi leikur á að aðgerð eða verklag hafi verið framkvæmt af nægjanlegu öryggi og samkvæmt gildandi lögum og reglum.

  • Ef vafi leikur á þegar litið er á heildarútkomu í prófi að nemandinn hafi nauðsynlega hæfileika til að gera áætlun og framkvæma flug á öruggan hátt með tilliti til þeirra réttinda sem sótt er um.

  • Ef nemandinn fellur á prófinu getur hann, ef hann óskar eftir því, fengið annan prófdómara í endurtökuprófið.

Eru til einhver góð ráð handa flugnema í verklegu prófi?

  • Spurðu ef þú ert í vafa varðandi verkefnið.

  • Svaraðu eins vel og þú getur á þinn hátt.

  • Segðu við sjálfan þig að þú hafir margsýnt að þú kunnir það sem þú átt nú að gera.

  • Ekki velta þér upp úr því sem þér mistókst að gera, einbeittu þér að því sem þú ert að gera.

  • Hvað sem gerist, ekki gleyma að stjórna loftfarinu.

  • Ef þú treystir þér ekki til að halda áfram segðu þá prófdómaranum að þú viljir hætta við og hvað þú hafir hugsað þér að gera.

  • Nýttu þér öll þau úrræði sem þú hefur (þín, annarra, loftfarsins o.s.frv.).

  • Ekki afsaka mistök – lærðu af þeim.


Var efnið hjálplegt? Nei