Spurt og svarað um flugatvik

Hér má sjá algengar spurningar sem snúa að flugatvikum og svörin við þeim

Af hverju á ég að tilkynna flugatvik?

Tilkynningar um flugatvik skipta miklu máli í nútímaumhverfi. Samantekt á tölfræði og greining hennar bendir til þess að helsti orsakaþáttur flugslysa og flugatvika tengist mannlegum mistökum á einn eða annan hátt. Meginmarkmið þess að tilkynna flugatvik er því að koma í veg fyrir slys og læra af reynslunni en ekki að finna blóraböggul. Breyting á lögum um loftferðir gerir mögulegt að tilkynna án þess að eiga það á hættu að vera refsað fyrir.

Hvað á að tilkynna?

Lista yfir það sem á að tilkynna er að finna í viðauka við reglugerð nr. 53/2006. Listinn er ekki tæmandi heldur er það lagt í hendur þeirra sem tilkynna að meta atvikið útfrá listanum og er viðaukinn ætlaður til leiðbeininga.

Ef ég tilkynni flugatvik, er hægt að nota það gegn mér?

Þeim sem tilkynnir um flugatvik verður ekki refsað né verður hann beittur viðurlögum þótt um sé að ræða brot gegn ákvæðum laga er snúa að atvikinu eða á reglum settum á grundvelli þeirra. Þetta á þó ekki við ef atvik verður til af ásetningi, stórfelldu gáleysi, undir neyslu áfengis, örvandi eða deyfandi lyfja.

Hvað verður um tilkynninguna og hvernig eru upplýsingarnar notaðar?

Allar tilkynningar sem berast eru skráðar inn í aðgangsstýrðan vinnslugrunn sem heldur utan um öll frumgögn atvikanna. Atvikin eru svo skoðuð og ákvörðun tekin um hvort nánari upplýsinga sé þörf. Þá er atvikið skráð í alþjóðlegan gagnagrunn (ECCAIRS) sem kostaður er og framleiddur af Evrópuráðinu.

ECCAIRS er hannaður sérstaklega til að halda utan um skráningu flugatvika og notaður af flugmálastjórnum, rannsóknarnefndum og þeim flugrekendum sem það kjósa. Bæði er hægt að nota ECCAIRS sem tæki til tölfræðilegrar greiningar og sem rannsóknartæki.

Hér á landi er hann notaður af Samgöngustofu til tölfræðilegrar greiningar og af Rannsóknarnefnd flugslysa við rannsókn á flugslysum og alvarlegum flugatvikum.


Var efnið hjálplegt? Nei