Vélknúin hlaupahjól
Rafhlaupahjól
Vinsældir vélknúinna hlaupahjóla hafa aukist að undanförnu hér á landi. Hér má finna helstu atriði varðandi notkun þeirra og öryggi:
Vélknúin hlaupahjól (oft kölluð rafhlaupahjól, rafmagnshlaupahjól, rafskútur, rafskottur) tilheyra flokki reiðhjóla og eru hönnuð til aksturs á hraða frá 6 km á klst. upp í 25 km á klst., sjá skilgreiningu í c-lið 30. tölul. 1. mgr. 3 gr. umferðarlaga.
Í umferðarlögum kemur fram að slíkum farartækjum megi þó ekki aka á akbraut en þau lúta að öðru leyti sömu reglum og reiðhjól t.d. hvað varðar öryggisbúnað og mikilvæg atriði sem vert er að hafa í huga þegar hjólað er á gangstígum.
Samkvæmt umferðarlögum er ekkert aldurstakmark á vélknúin hlaupahjól en ávallt skal fara eftir þeim viðmiðum og leiðbeiningum sem framleiðandi hjólsins leggur til. Auk þess eru rafhlaupahjólaleigur yfirleitt með aldurstakmark á notkun hjólanna.
Athugið sérstaklega að börn og ungmenni undir 16 ára aldri eiga skv. lögum alltaf að nota hjálm við hjólreiðar en mælt
er með að allir noti hjálm á rafhlaupahjóli öryggisins vegna.
Fræðslumyndir á íslensku og með enskum texta og pólskum texta

Einblöðungar - bæklingar á íslensku, ensku og pólsku


Fræðsluefni fyrir nemendur í grunn- og framhaldsskólum
Hér má finna fræðsluefni fyrir nemendur í efri bekkjum grunnskóla og í framhaldsskólum.
Kahoot! spurningakeppni um rafhlaupahjól.

Rannsóknarverkefni um rafhlaupahjól og umferðaröryggi (2021)
Skýrslan „Rafskútur og umferðaröryggi“ var gefin út vorið 2021 en hún er afrakstur rannsóknar VSÓ Ráðgjafar sem var styrkt af Rannsóknasjóði Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborg. Tilgangur rannsóknarinnar var að athuga hvaða áhrif rafskútur hafi á umferðaröryggi og hvaða þættir það eru sem helst ógna öryggi rafskútunotenda sem og annarra vegfarenda í umferðinni. Verkefnið var unnið af Svanhildi Jónsdóttur, Láru Margréti Gísladóttur og Ragnari Þór Þrastarsyni hjá VSÓ Ráðgjöf en fulltrúar frá Reykjavíkurborg, Samgöngustofu og Vegagerðinni voru til ráðgjafar í verkefninu.
Í skýrslunni má lesa um erlendar rannsóknir tengdar rafhlaupahjólum, rýna í tölfræði frá Samgöngustofu og bráðamóttöku Landsspítalans frá árinu 2020 og hvaða öryggisreglur gilda á Íslandi og í öðrum löndum. Í skýrslunni kemur skýrt fram að aukin þjálfun og kennsla í notkun rafskúta minnki líkur á slysum og til að tryggja öryggi er ýmislegt hægt að gera, annaðhvort með lögum og reglum eða vinsamlegum tilmælum.
Spurt og svarað um vélknúin hlaupahjól (rafhlaupahjól):
Eru aldursmörk?
Samkvæmt umferðarlögum er ekkert aldurstakmark á vélknúin hlaupahjól en ávallt skal fara eftir þeim viðmiðum og leiðbeiningum sem framleiðandi hjólsins leggur til. Auk þess eru rafhlaupahjólaleigur yfirleitt með aldurstakmark á notkun hjólanna.
Þarf að nota hjálm?
Börnum yngri en 16 ára ber samkvæmt lögum að nota hlífðarhjálm. Mælt er með því að fullorðnir noti einnig hjálm enda mikilvægur öryggisbúnaður.
Má aka á akbraut (götu)?
Nei, í umferðarlögum kemur fram að það má ekki aka rafknúnu hlaupahjóli á akbraut.
Má aka á hjólastíg?
Já, það má. Ef hjólastígur er samhliða gangstétt eða göngustíg skal notast við hjólastíga frekar en gangstétt eða gangstíg.
Má hjóla yfir götu eða gangbraut?
Já, það má. Mikilvægt er að hægja vel á sér og gæta vel að umferð um akbrautina. Ef hjólandi er óhætt að fara yfir skal það gert á gönguhraða. Þegar hjólandi kemur að ljósastýrðum gatnamótum eða gangbrautum ber honum líkt og öðrum vegfarendum að stoppa á rauðu ljósi og fara ekki yfir fyrr en grænt ljós hefur kviknað.
Má leggja hvar sem er?
Leggja skal rafhlaupahjóli þannig að það það hindri ekki för annarra vegfarenda, valdi óþægindum eða skapi slysahættu. Rafhlaupahjólum skal ekki lagt á miðri gangstétt, stígum, við rampa, fyrir inngöngum húsa eða við gönguþveranir.
Má aka á gangstétt eða göngustígum?
Já, það má. Ef hjólað er á gangstétt eða göngustíg gilda sömu reglur um hlaupahjól þar eins og reiðhjól.
- Þegar hjólað er á gangstéttum og gangstígum skal það gert með því skilyrði að það valdi ekki gangandi vegfarendum hættu eða óþægindum.
- Gangandi vegfarendur eiga forgang og hjólandi þurfa að taka tillit til þess, ekki síst hvað hraða varðar.
- Almennt ættu allir vegfarendur að halda sig hægra megin og taka fram úr vinstra megin.
- Þar sem merki aðgreina umferð gangandi annars vegar og hjólandi hins vegar skal virða þau og vera þeim megin sem reiðhjól skulu vera.
- Hjólandi þurfa að hafa í huga að gangandi vegfarendur búast ekki við hröðum og skyndilegum framúrakstri á stígnum. Því er mikilvægt að hjólandi hægi vel á sér og gefi hljóðmerki tímanlega áður en komið er að viðkomandi eða áður en komið er að blindhorni eða beygju.
Má hjóla eftir að hafa neytt áfengis eða vímuefna?
Nei, notkun hjóla undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna er bönnuð með lögum.
Má nota farsíma eða snjalltæki við aksturinn?
Nei, snjalltækja- og farsímanotkun á hjóli er bönnuð samkvæmt lögum. Stöðva ber hjólið áður en síminn er notaður.
Þurfa að vera einhver sérstök ljós á rafhlaupahjóli?
Já, mikilvægt er að vera með öflug og góð ljós - hvítt að framan og rautt að aftan. Skylt er að vera með ljós þegar skyggja tekur. Endurskin á að vera á hjólinu, bæði að framan og aftan.
Má breyta rafhlaupahjóli þannig að það komist hraðar?
Nei, það er ólöglegt að eiga við rafhlaupahjól þannig að þau komist hraðar en 25 km/klst.
Þarf tryggingar?
Engin vátryggingarskylda er á þessum hjólum en eigendur eru hvattir til að leita ráða hjá tryggingafélögum varðandi ábyrgðartryggingar.
Get ég fengið sekt á rafhlaupahjóli?
Já brot á sérreglum fyrir reiðhjól er 20.000 kr. ( skv. reglugerð um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim ).